Það er erfitt að muna það fyrir víst en tilfinning mín er sú að „nýja“ Jólaboðið, sem var frumsýnt á stóra sviði Þjóðleikhússins í gærkvöldi, sé hressara, hraðara og fyndnara en Jólaboðið fyrir þrem árum en hins vegar ekki eins dramatískt. Það yrði ekki auðvelt að rökstyðja þetta mat; þó mætti benda á að persónan sem gengur í gegnum allt verkið, Margrét Davíðsdóttir, var leikin af Nínu Dögg Filippusdóttur árið 2021 en er nú leikin af Ilmi Kristjánsdóttur og þær eru ólíkar leikkonur. Nínu Dögg er eiginlegt að leika af alvöruþunga, Ilmur er léttari og húmorískari, og mér finnst að Nína Dögg hafi gert Margréti að meiri baráttukonu og fulltrúa nýs tíma en Ilmur gerir. Þetta má eflaust ræða og rífast um til dómsdags og ég er tilbúin til að skipta um skoðun ef ég fæ öflug mótrök!
Í verkinu fylgjumst við með fjölskyldu kaupmannsins og útgerðarmannsins Óskars (Hallgrímur Ólafsson) og afkomenda hans og Jóhönnu konu hans (Ólafía Hrönn Jónsdóttir) á jólum í heila öld, og skoðum í leiðinni hvernig framkoma okkar, (jóla)siðir og venjur breytast. Á fyrstu jólunum, nálægt aldamótunum 1900, koma þau í heimsókn frá Akureyri til höfuðstaðarins sonurinn Davíð og Sigrún kona hans (Oddur Júlíusson, Edda Arnljótsdóttir). Þau eru talin á að flytja suður því að Davíð þarf að koma inn í fyrirtæki pabba síns, sem við það verður fjölskyldufyrirtæki. Davíð og Sigrún eignast dæturnar Margréti (Ilmur Kristjánsdóttir) og Guðmundínu eða Mundu (Ebba Katrín Finnsdóttir) en missa drenginn sem innilegast var beðið eftir. Árin líða og Munda giftist Ragnari frá Bíldudal (Þröstur Leó Gunnarsson), Margrét verður ástfangin af bandarískum hermanni, Robert (Örn Árnason) en þeim er stíað í sundur. Munda eignast Óskar og Jóhönnu (Örn, Ólafía Hrönn) sem fara hvort sinn veg, Jóhanna eignast Jón Ægi með Bárði (Oddur, Hallgrímur) en Óskar yngri á ekki samleið með neinum í fjölskyldunni nema Margréti móðursystur sinni sem hlúir að honum og hæfileikum hans. Örverpið Bríet (Edda) bætist svo við, foreldrum sínum til hrellingar.
Þannig bætast við nýjar kynslóðir allt fram á okkar dag og tíminn er teygður til og togaður eftir þörfum. Búningar Helgu I. Stefánsdóttur sýna á sinn hátt hvar við erum í tímanum og Silfá Auðunsdóttir hjálpar okkur líka að skynja tímann með markvissum leikgervum sem voru oft skemmtileg í sjálfu sér, eins og gervi Eddu Arnljótsdóttur í hlutverki vandræðaunglingsins Bríetar og Þrastar Leó í hlutverki dekurbarnsins Alexanders. Verkið býður upp á skemmtilega ólík hlutverk fyrir góða leikara, því ævinlega er óravegur milli persónanna sem þau leika hvert um sig. Þar hefur Gísli Örn Garðarsson leikstjóri unnið listilega vel með sínu snjalla fólki.
Leikmynd Barkar Jónssonar er bæði ásjáleg og þénug; framveggur sem virkar eins og langborð en reynist líka vera tröppur til að skemmta sér í á ýmsa vegu, og bakveggur fyrir skuggamyndir sem kölluðu iðulega fram skellihlátur. Í svona verki þarf annaðhvort að hafa alla hugsanlega leikmuni – borðbúnað gegnum áratugina, jólaskreytingar gegnum áratugina o.s.frv. – eða ekkert og hér er síðari kostur tekinn. Í staðinn fáum við látbragðsleik sem oft var hrikalega fyndinn og gaf líka óvæntar upplýsingar um siði og venjur.
Niðurstaða þessa verks sem komið er krókaleið frá Thornton Wilder gegnum Tyru Tønnessen til Gísla Arnar og Melkorku Teklu Ólafsdóttur þarf ekki að koma á óvart. Fjölskyldan sem er svo samannegld í upphafi síðustu aldar er í upplausn á okkar dögum. Við getum ekki lengur setið saman heilt kvöld þó að það séu jól með sínum góða mat og gjafaflóði. Lokasenan í Jólaboðinu er samt undurfalleg. Þar ná þau saman olnbogabörnin úr fjölskyldunni, róttæka piparmeyjan Margrét og djassleikarinn systursonur hennar, og upplifa kærleik og frið jólanna.
Tónlistin í sýningunni er jólaleg og falleg, henni stjórna Salka Sól Eyfeld og Tómas Jónsson sem einnig eiga titillagið, en hljóðhönnun annaðist Kristján Sigmundur Einarsson. Lýsingin er á hendi Halldórs Arnar Óskarssonar, hún var óaðfinnanleg.
Silja Aðalsteinsdóttir