Grindvíski leikhópurinn Gral frumsýndi í gærkvöldi hjá Afturámóti í Háskólabíó leikverkið Ég er ekki Jóhanna af Örk eftir Berg Þór Ingólfsson. Katrín Guðbjartsdóttir leikstýrir en Áróra Bergsdóttir og Emilía Bergsdóttir hafa skapað mjög sannfærandi stúdíó handa persónum verksins. Fjölnir Gíslason hannaði lýsinguna sem var yfirleitt einföld en stóð sig vel þegar á reyndi.
Hún (Urður Bergsdóttir) og Hann (Jökull Smári Jakobsson) eru að búa til hlaðvarp um Jóhönnu af Örk, frægustu kvenhetju Hundrað ára stríðsins. Þau hafa viðað að sér heimildum og skrifað heilmikinn texta sem þau skiptast á að lesa eða leika. En það er erfitt að halda sig við vinnuna. Bæði er að kötturinn Ísabella er týnd og eigandinn er miður sín yfir því og svo fer parið að rifja upp eina kolbrjálaða helgi þegar þau vinirnir skemmtu sér við að gera allt vitlaust á Suðurlandi og enduðu í Hveragerði þar sem eitthvað alvarlegt gerðist – þau eru bara ekki alveg viss um hvað það var nákvæmlega því að drykkjan hafði verið mikil. Inn á milli er svo rakin örlagaþrungin ævisaga Jóhönnu, stúlkunnar sem þrettán ára gömul fékk vitrun um að hennar hlutverk væri að frelsa Frakkland undan ensku hernámsliði. Henni tókst á undraverðan hátt að frelsa mikilvægar borgir og láta krýna Karl konung í Rheims en Englendingar handsömuðu hana, fangelsuðu, dæmdu og brenndu á báli, aðeins nítján ára gamla, og báru við trúvillu.
Saga Jóhönnu af Örk er mögnuð ævintýrasaga en ólíkt ævintýrum endar hún hörmulega – eins og tryllta nóttin þeirra félaganna á Suðurlandi. Þó að aldir skilji að og ólíku sé saman að jafna er snilldarlegt að nota sögu Jóhönnu til að spegla kosti og kjör kvenna á öllum tímum, líka okkar tímum. Hetja og dýrlingur mátti líka þola niðurlægingu, háð og spott, ofbeldi og grimmilegan dauða, og það er greinilegt að kvenhetjan okkar í leikritinu finnur til náins skyldleika við hana þó að hún fullyrði í söngtexta að hún sé „ekki Jóhanna af Örk“. Kannski finnur pilturinn líka til skyldleika við Karl konung sem sveik Jóhönnu á ögurstundu.
Í verkinu eru tvö ágæt sönglög eftir Urði og Jökul Smára eins og áhrifsmúsíkin sem var passlega myrk og óþægileg í samræmi við textann. Þau sköpuðu líka lifandi persónur úr parinu sem auðvelt var að skilja og finna til með. Framvindan var helst til hæg, eins og vantaði kannski upp á æfingatíma, en það er óskandi að þetta leikverk öðlist framhaldslíf eins og fleiri sýningar hjá Afturámóti í sumar. Jóhanna á það sannarlega skilið.
Silja Aðalsteinsdóttir