Í gærkvöldi sá ég sýningu Herranætur á söngleiknum Ástin er diskó, lífið er pönk í Gamla bíó. Leikstjóri er Katrín Guðbjartsdóttir en danshöfundur Júlía Kolbrún Sigurðardóttir. Í afar myndríkri leikskrá eru ávörp aðstandenda sýningarinnar og fyrri formanna Herranætur m.m. en hvergi er getið höfundar leiktextans né þeirra söngva sem sungnir eru. Ég þekkti auðvitað ýmis lög, til dæmis eftir Bubba Morthens og Gunnar Þórðarson, en þeirra er ekki getið í leikskrá frekar en annarra lagahöfunda. Þó segir tónlistarstjóri, Tumi Torfason, frá því í sínu ávarpi að tvö pönklög séu eftir hann sjálfan. Mér finnst þetta soldið fáránlegt en segi eins og skessan: ég læt það svona vera. Leikarar eru aðeins nefndir skírnarnafni í leikskránni (enda ekki stólandi á föðurnafnið, eins og dæmin sanna).

Eiginlega sýnir þetta leikverk Hallgríms Helgasonar að bæði ástin og lífið eru pönk. Það fjallar um ástina, hvernig hún kviknar á kolröngum stað, milli kolrangra aðila, og í rás viðburða komumst við að því að þetta er sannarlega ekkert einsdæmi því að svona hefur hún hagað sér kynslóðum saman!

Yngismærin Rósa Björk (Dídí) er krýnd Ungfrú Hollywood í upphafi leiks og er hjartanlega sæl að vonum. Kærastinn Danni diskó (Þór) hefur meiri áhuga á verðlaunabílnum en mamma og pabbi (Embla Mýrdal, Kristján Nói) eru ákaflega stolt af fallegu dótturinni. Mamma er sjálf fyrrverandi Ungfrú Ísland þannig að þetta er greinilega ættgengt. Úr Hollywood fer Diskóliðið á Borgina undir stjórn hinnar röggsömu Möggu Mercury (Katla) og þar rekst það á pönkarana, Ragga rúnk (Einar), Rúnu (Melkorka) og félaga. Það er skotið hatursörvum fram og til baka, ekki síst eftir að Nonni rokk (Árni) bætist í hópinn. Svo gerist það sem þarf að gerast: Rósa og Nonni falla flöt hvort fyrir öðru, Rósa er rekin að heiman eftir uppákomu við hádegisverðarborðið á sunnudegi en hún er sátt við það og blómstrar í ástinni. Það renna þó á hana tvær grímur þegar Siggi toppur (Jón Breki), faðir Nonna rokk, reynist þekkja mömmu hennar og rámar í að hann hafi gert henni barn á sínum tíma …

Aldrei er of oft klifað á því hve gaman er að sjá tugi ungmenna blindfylla svið af dansi, söng og leik og njóta hverrar sekúndu. Sviðið í Gamla bíó er ekki stórt og stækkaði ekki við það að hljómsveitum var stillt upp báðum megin við mikla stálgrind á miðju sviði en ofan á henni sátu öflugir bakraddasöngvarar. Diskóliðið og pönkararnir fá ekki stórt svæði til að takast á um en nýttu það vel. Búningar voru fjölbreyttir og skemmtilega týpískir hvorum megin og smink og gervi sömuleiðis, faglegt og flott. Söngurinn var líka góður, bæði mjúkur og stællegur diskósöngurinn og gróft pönkið.

Leikurinn var fjörlegur yfir línuna. Einar var verulega góður Raggi rúnk, bæði í leik og söng, auk þess sem gervið á honum var geggjað. Katla var sannfærandi upprennandi umboðsmaður tónlistarmanna og verulega röggsöm í leik. Dídí var svolítið heft af titlinum og kórónunni eins og vonlegt er en bræddi hjörtu áhorfenda bæði þegar þau Árni sungu um óvænta „ástarengilinn“ og þó einkum þegar hún söng um ástina sem hún yrði að gefa upp á bátinn. Þar naut fögur rödd hennar sín einstaklega vel. Árni var hikandi í leik framan af en fjandi góður þegar hann mætti tengdapabba við matborðið og söng vel. Það var nautn fyrir eina sem man þessa tíma vel að heyra hann taka „Hiroshima“. Hlutverk Danna diskó var vanþakklátt en Þór fór virkilega vel með það bæði í söng og leik. Svo er ekkert grín fyrir menntaskólanemendur að leika langt upp fyrir sig í aldri en Embla og Kristján Nói gerðu foreldrum Rósu góð skil – einkum var Embla glæsileg miðaldra fegurðardrottning. Flutningur þeirra „hjóna“ á Vetrarsól við nýjan og viðeigandi texta var geysilega fínn og útsetningin algert æði! Stjarnan var svo Kolfinna í hlutverki Stínu, litlu systur Rósu, sem fær skemmtilegasta leiktextann og fór virkilega vel með hann, talaði skýrt og túlkaði af innlifun. Textameðferð var yfirleitt góð en vinkonur Rósu áttu til að fara svo hátt upp með röddina að það heyrðust engin orðaskil, bara skrækir. Kannski var það meiningin?

Ástin er diskó, lífið er pönk er vitaskuld ekta framhaldsskólaefni og MR-ingar gera það algerlega að sínu í þessari fjörmiklu sýningu. Til hamingju öll, og ekki síst Katrín leikstjóri.

Silja Aðalsteinsdóttir

PS Myndinni rændi ég af FB-síðu Hallgríms Helgasonar