Eins og sjálfsagt flestar konur hef ég reynslu af karlmönnum eins og Sölva (Stefán Hallur Stefánsson) í leikritinu Gott fólk sem frumsýnt var í Kassanum í gærkvöldi (ég sá aðalæfingu kvöldið áður). Þetta er gasalega sætur strákur, orðheppinn og skemmtilegur, heillandi við fyrstu kynni, en þessir kostir valda því að hann er tregur til að binda sig. Það eru svo miklar líkur á því að þarna úti bíði stærri bráð en sú sem hangir á önglinum þessa stundina. Af hverju ætti hann þá að festa sig til frambúðar?
En stúlkan Sara (Vigdís Hrefna Pálsdóttir) er ekki að leita að eða bíða eftir neinum öðrum, hún er heils hugar í þessu sambandi sem Sölvi vill helst ekki viðurkenna að sé samband þó að þau hafi verið að hittast í fimmtán mánuði. Sölvi er ekki slæmur strákur að eðlisfari en þessar aðstæður gefa honum tækifæri til að láta ýmsa óra sína rætast; hann misnotar sér ást Söru og gengur yfir mörk hennar á ýmsum sviðum, líka því kynferðislega. Lýsingar Söru og Sölva á alvarlegustu atvikunum eru óhugnanlegar þó að ekki leggi hann hendur á hana.
Svo bætist „stríðnin“ við sem hefur til lengdar meiri áhrif á Söru en líkamlegur yfirgangur. Þetta smáa sem allir kannast við sem hafa verið í samskiptum við fólk þar sem ójafnvægi ríkir, hvort sem það er í sambúð eða á vinnustað. Rosalega ertu vitlaus … Hver heldurðu að þú sért …? „Það er hægt að beita fólk ofbeldi þó enginn sé laminn,“ segir á einum stað í verkinu og það fáum við lýsandi dæmi um.
Sölvi gerir ekkert sem varðar við lög, hann slítur bara sambandi sem er orðið honum fjötur um fót. Eftir situr Sara niðurlægð og brotin með sína forsmáðu ást. Í vinnunni við að ná sér upp úr djúpri lægð ákveða hún og vinir hennar (og Sölva) að fá Sölva með í svokallað ábyrgðarferli. Í því felst að hann gangi að ýmsum skilyrðum hennar og játi opinberlega á sig það sem hann gerði henni. Þar með hreinsi hann sig og verði betri og meiri maður eftir og hún losni endanlega við hann úr lífi sínu. Gott fólk fjallar um þetta ferli og hvetur til alvarlegrar umhugsunar um það í samanburði við dómstólaleiðina.
Leikritið er byggt á samnefndri skáldsögu eftir Val Grettisson og þeir Símon Birgisson semja leikgerðina í samvinnu við Unu Þorleifsdóttur leikstjóra.
Verkið hefst á því að Sölva er fært ákæruskjal Söru, síðan fylgja margir stuttir þættir þar sem farið er aftur og fram í tíma í samskiptum þeirra. Svið Evu Signýjar Berger er einfalt: svartur kassi með þrem hvítum stólum af einföldustu gerð. En í bakgrunni rennur afar vel gert og gagnlegt myndband eftir Evu og Roland Hamilton sem sýnir á einfaldan hátt hvar við erum stödd hverju sinni. Þetta er snilldarlegt svið og þegar það öðlast sjálfstæðan vilja (eða kannski vilja Sölva) á einum stað í verkinu liggur við að það valdi hjartastoppi. Tónlist Gísla Galdurs er æðisleg viðbót við áhrif sviðsins og lýsing Jóhanns Friðriks Ágústssonar og Magnúsar Arnars Sigurðarsonar var afar áhrifamikil – til dæmis gleymi ég seint myndinni af Stefáni Halli þar sem hann stendur í svartamyrkri á svörtu sviði og höfuð hans eitt upplýst, eins og það sé blaðra svífandi í lausu lofti.
Það er þó leikurinn sem mestu skiptir um áhrif sýningarinnar. Stefán Hallur gefur óþægilega sannfærandi mynd af þessum heillandi yfirgangssegg og vekur líka einlæga samúð með honum þegar hann er kominn út í horn. Vigdís Hrefna er gegnheil Sara, falleg, greind og skemmtileg stelpa sem verður fyrir því að elska of mikið með öllum afleiðingum þess. Leikur hennar var djúpur og sár og aðdáunarvert hvað hún gat skipt snögglega á milli þess að vera fallega glöð yfir í að vera ströng og hörkuleg. Og má ég segja að mikið finnst mér undursamlegt að sjá Vigdísi aftur ganga styrkum fótum á sviði eftir slysið í fyrra?
Önnur hlutverk voru smærri en ágætlega unnin. Vinina léku Baltasar Breki Samper, Lára Jóhanna Jónsdóttir og Snorri Engilbertsson, þau vörpuðu ljósi á margar ólíkar og jafnvel óvæntar hliðar á málinu. Birgitta Birgisdóttir vann talsvert afrek með því að breyta sér úr einni konunni í aðra, var fyrst fyrrverandi forsmáð kærasta Sölva, síðan doktor Sigríður, sálfræðingur hans, fréttamaður og lögreglukona.
Þessi sýning var orðin bitbein á netinu jafnvel áður en hún var frumsýnd. Ég blanda mér ekki í þær umræður, sýningin er orðin að veruleika. Og þetta er góð sýning sem vekur til alvarlegrar umhugsunar um kosti og (umfram allt) galla þess að taka lögin í sínar hendur.