Þórunn Erlu- og Valdimarsdóttir. Stúlka með maga: Skáldættarsaga.

JPV útgáfa, 2013.

Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2014

Stúlka með magaI

Margvíslegar tilraunir hafa verið gerðar innan hinnar sögulegu skáldsögu á undanförnum áratugum, kenndar við póstmódernískan leik og uppreisn gegn stöðnuðu formi. Á sama tíma hefur þetta bókmenntagervi, það er að segja skáldskapur sem staðsettur er innan kunnuglegra aðstæðna og þekktra atburða sögu og umhverfis, notið vaxandi vinsælda jafnt meðal almennra lesanda sem og fræðimanna og eru það  ekki síst hin óljósu mörk sannfræði og  skáldskapar sem leikið er með í textunum sem heilla marga lesendur – en pirra aðra.

Þórunn Erlu- og Valdimarsdóttir hefur áður leikið sér á þessum mörkum og hún er kannski betur í stakk búin til þess en margir, með trausta menntun í sagnfræði um leið og hún er gædd hinni skyggnu ljóðhugsun skáldsins (sjá s. 33). Fyrir aldarfjórðungi sendi Þórunn frá sér ævisögu Snorra á Húsafelli (1989) sem óhætt er að kalla tímamótaverk í  slíkum skrifum. Þar tókst henni frábærlega að gæða hinn sagnfræðilega texta lífi með því að taka sér ákveðið „skáldaleyfi“ í frásagnarhætti, nota sviðsetningar og samtöl til þess að forðast „þurran“ og „fræðilegan“ stíl sem margir lesanda eiga bágt með að tengjast. Þórunn kallaði þessa aðferð sína „lýsandi sagnfræði“ og lagði ríka áherslu á að þótt hún leyfi sér frjálslega framsetningu þá byggði hún texta sinn ætíð á traustum heimildum og trúverðugleikinn ætti ekki að gjalda fyrir aðferðina. [1]

Spurningin um trúverðugleika er ætíð miðlæg í umræðu um skáldskap sem byggir á sögulegu efni og heimildum. Þótt lesendur viti vel að þeir séu að lesa skáldskap vilja flestir þeirra geta trúað á þann sögulega veruleika sem teiknaður er upp í textanum; þeir vilja halda í ranghugmyndina um sannleiksgildi textans. Slík afstaða fer hins vegar í taugarnar á mörgum sagnfræðingum  sem vilja skilja á milli sinnar fræðimennsku og hinna sem iðka skáldskap, þótt byggður sé á fræðilegu grúski. En aðrir benda þá aftur á að jafnvel hinir  ráðvönduðustu sagnfræðingar séu tilneyddir að nýta sér skylda aðferð og þeir sem skrifa skáldskap, vilji þeir á annað borð koma þekkingu sinni í skriflegt form. Og ennfremur má velta því fyrir sér hvort sagnfræðin sé ekki hvort eð er jafn ofurseld ranghugmyndinni um sannleika og skáldskapurinn. [2]

Þórunn er vel meðvituð um þau atriði sem hér hafa verið reifuð að ofan og hún gerir í því að rjúfa hina skáldskaparlegu blekkingu sem bók hennar byggir engu að síður á og það gerir hún með aðferðum hinnar sjálfsvísandi frásagnar; [3] hún dregur ítrekað fram sjálft skriftarferlið og bendir á að það byggir á úrvinnslu og túlkun fyrirliggjandi heimilda. En sú sem skrifar frásögnina innan ramma bókarinnar – Erla – er ekki sú sama og skrifar það í veruleikanum – Þórunn – og sú síðarnefnda getur ekki haldið hinni skáldskaparlegu blekkingu verkið á enda því undir lokin talar/skrifar sögukona handan grafar og ávarpar söguhöfundinn, dóttur sína:

„Gott hjá þér að skrifa þessa bók og viðhalda hefð í kvenlegg. Ég fyrirgef það úr gröf minni. Ég skrifaði sjálf bók um Þórunni móður mína. Þú ert bara að leggja alúð við fortíð þína og sefa söknuð. Þú ert að lækna sársaukann í þér […]. Í  sagnfræði má ekki stilla upp ljósið í fortíðinni. En í skáldskap og eigin lífi má hella ljósi yfir slóðina sína. Þú mátt gera það.“ (435)

Um leið og sögukona víkur hér að tilurð bókarinnar leggur hún blessun sína yfir skrif söguhöfundar sem meðal annars fela í sér afhjúpun ýmissa viðkvæmra fjölskylduleyndarmála sem og lýsingar á  líkamlegri og sálarlegri kröm og niður- lægingu sem ristir inn að beini. Þarna er  á ferðinni snjallt skáldskaparbragð hjá höfundi sem kannski slær á umræðu um siðferðileg álitamál sem blossað hafa upp í tengslum við aðrar nýlegar íslenskar sögulegar skáldsögur. [4]

Að þessu sögðu skal það fúslega játað að auðvelt er að gangast hinum skáldaða sögulega veruleika höfundar í Stúlku með maga á vald. Texti Þórunnar dregur upp áhrifaríka mynd af lífsstreðinu á  Íslandi, allt frá tíma hins ótæknivædda og fátæka dreifbýlissamfélags nítjándu aldar, fram yfir miðbik tuttugustu aldar þar sem hin sístækkandi Reykjavík í hraðri nútímaþróun er aðalsögusviðið. Það gerir hún í gegnum svipmyndir af einstaklingum innan ættar sinnar og  fjölskyldu; af fólki sem verður sprelllifandi í huga lesandans með alla sína lífsgleði og drauma, sorgir og söknuð og  sumir hverjir í harðri glímu við hörmuleg örlög.

II

Þórunn kallar Stúlku með maga „skáld-ættarsögu“ og er það skemmtileg viðbót  inn í hugtakaflóru bókmenntafræðanna. Frásögnin er lögð í munn móður Þórunnar, Erlu Þórdísi Jónsdóttur (1929–1987), sem gramsar í „pappírum úr járnskápnum“ og reynir að henda reiður á lífi og sögu forfeðra sinna og þar með á sögu sjálfrar sín. Járnskápurinn umtalaði var eign Alexanders afa Erlu og í honum leynast bréf, dagbækur, blaðaúrklippur og ýmis skjöl sem hafa með ættarsöguna að gera. Upprifjun Erlu kemur þó ekki til af góðu; hún er dauðveik af krabbameini og notar sinn takmarkaða tíma til að líta yfir líf sitt og sinna og gerir um leið tilraun til að sættast við sín óblíðu örlög:

Hugleiði gleði mína og vellíðan í samhengi við tilvist allra annarra dýra frá  örófi. Í því hólfi er þakklátt að vera. Þjáningin er nauðsynlegur fylgifiskur þessa furðuverks. Einn étur annan og sumir veikjast snemma og deyja hægt, þannig á það að vera.
Sefa mig að svo miklu leyti sem lífvera getur sefað sjálfa sig. Til dæmis, hefði ég ekki veikst svona hefði ég ekki lesið dagbækurnar mínar, rifjað upp líf mitt og velt mér upp úr því eggi og byggi. Þá hefði ég ekki fengið bréfin sem ég skrifaði Gilsbakkasystrum sem krakki og unglingur. Og aldrei lesið pappíra foreldra minna og þeirra sem að pabba stóðu. Farið á mis við að endurlifa dýrðina alla. Og kynnast forferðrunum.
Að skrifa er að dreyma vakandi og gera drauminn varanlegan, yfirfæra hann til annarra […]“ (20).

Skáldskapur sem vakandi draumur er skemmtileg myndlíking og draumar – bæði í svefni og vöku – koma mikið við sögu í frásögn þessarar bókar. Draumar sem forboðar, oft válegra tíðinda, eru órjúfanlegur hluti íslensks samfélags, sem og bókmennta, og draumskyggni er eitt af endurteknum stefjum bókarinnar.

Fyrsti hluti bókarinnar er að mestu leyti helgaður föðurætt sögukonu en það fólk er ættað að vestan, af Snæfellsnesi þar sem skyggni ku hafa verið landlæg en kom inn í ætt Erlu með „litla drekanum“  sem kom til landsins í fylgd formóðurinnar Úrsúlu hinni ensku, þeirri sömu og Árni prófastur Þórarinsson segir frá í ævisögu sinni ritaðri af Þórbergi Þórðarsyni og er sögð fyrirmyndin að Úu í  Kristnihaldi Halldórs Laxness. Drekinn gerist síðan ættarfylgja og kemur nokkuð við sögu í frásögn bókarinnar.

Móðurætt Erlu hefur ekki skilið eftir sig eins mikið af gögnum fyrir hana að moða úr og því fær föðurættin meira rými í textanum, alla vega framan af. Þessu skyld er einnig sú staðreynd að mun minna er til af eftirlátum skjölum kvenna en karla og af því leiðir að saga karlanna er rúmfrekari en kvennanna; jafnt í þessari bók sem í sagnfræðiritum.

Ítarlega er til að mynda rakin saga áðurnefnds Alexanders, eiganda járnskápsins og föðurafa Erlu. Hann fæddist árið 1872 af fátæku fólki sem neyddist til að koma honum í fóstur þriggja mánaða gömlum. Þótt til stæði að hann yrði aðeins einn vetur í burtu urðu þeir vetrar nítján, en Alexander var heppinn og  lenti „Hjá góðu fólki“, eins og einn kaflinn um hann heitir og og umsnýr frægu heiti þriðja bindis ævisögu Árna prófasts Þórarinssonar, Hjá vondu fólki.

Saga Alexanders endurspeglar áreiðan- lega sögu margra fleiri af hans kynslóð;  fyrir tíma getnaðarvarna voru margir tilneyddir til að senda frá sér börn í fóstur og mörg börn hafa eflaust „vælt  út í flóa og holt söknuð eftir móðurfangi“ (102) og margar mæður þurft að  „[harka] af sér og [reyra] brjóstin“ í pínu og söknuði eftir horfnum brjóstmylkingi (104). Alexander „lifði það að miðaldasamfélagið kúventist“ (88). Hann varð hagur smiður og með miklum dugnaði og basli tókst honum að komast vel af í því samfélagi: „Basl afa við að verða að manni undir lok gamla samfélagsins er um leið basl allrar kynslóðar hans, feðra og mæðra okkar allra“ (136).

Eins og margir af hans kynslóð er Alexander haldinn lestrar- og skriftarfíkn og þess vegna hefur sögukonan betri aðgang að hans lífi en annarra: „Afi skrifar þanka sína en amma þegir. Þess vegna er erfiðara að teygja mig yfir til hennar“ (146) skrifar hún, en tekst þó engu að síður að bregða upp góðri og skýrri mynd af ömmu líka – en kannski  er þar meira getið – eða skáldað – í eyðurnar.

III

Á baksíðu bókarkápu Stúlku með maga stendur skrifað að bókin sé „sjálfstætt framhald af Stúlku með fingur sem út kom 1999“ og því freistandi að bera þær lítillega saman. Fyrst skal nefnt að bækurnar tvær eru afar ólíkar í formi og  byggingu. Þótt Stúlka með fingur sé sett  í flokk sögulegra skáldsagna á bókarkápu er vafasamt að hún heyri til í þeim flokki því hér notar höfundur ekki  raunveruleg nöfn né eru þekktir „sögulegir“ atburðir í brennidepli.

Þórunn  hefur hins vegar sagt frá því að bókin byggi að einhverju leyti á sögu móðurömmu hennar og nöfnu (sem heitir Unnur Jónsdóttir í bókinni) og á því byggir líklega skilgreiningin „söguleg skáldsaga“. Að vissu leyti er rammi þessa tveggja bóka sambærilegur; í Konu með fingur rifjar gömul kona upp ævi sína og segir frá í fyrstu persónu; hún „liggur bara útaf og þvælist um sitt eigið minni“. Í Stúlku með maga er líka um að ræða sögukonu sem rifjar upp líf  sitt en að öllu öðru leyti er frásagnarháttur þessara tveggja verka mjög ólíkur. Endurlit Unnar yfir eigið líf fer fram á línulegan hátt án rofa eða inngripa í frásögnina en slíkt einkennir hins vegar frásagnarhátt Stúlku með maga þar sem Erla ferðast sífellt fram og aftur í tíma og dregur fram sögur úr gögnunum úr  járnskápnum og blandar eigin hugleiðingum og minningabrotum.

Þótt báðar bækurnar bregði upp mynd af íslensku samfélagi á miklum umbrotatímum þá er aldarfarsmyndin mun breiðari í Stúlku með maga og ræðst það af því að þar fá sögur forfeðranna meira rými en í Stúlku með fingur þar sem líf Unnar er alltaf í brennidepli. Hið sögulega efni hefur hins vegar yfirhöndina í Stúlku með maga þótt líf Erlu sé vissulega sá ás sem frásögnin spinnst um.

Þótt hér að ofan hafi verið nefnt að sögur karlanna fái meira rými í bókinni en sögur kvennanna, vegna skorts á heimildum um þær, eru það engu að síður sögur um konur og hlutskipti þeirra sem brenna mest á sögukonu – og söguhöfundi. Sérstaklega áleitnar eru sögur mæðgnanna Erlu og Þórunnar Elínar Jónsdóttur, móður hennar. Báðar eru gáfaðar, menntaðar nútímakonur sem ná þó ekki að láta drauma sína rætast og hæfileika sína njóta sín. Og báðar glíma þær við óvæginn sjúkdóm sem þær lúta í lægra haldi fyrir. Þórunn móðir Erlu, sem er fædd á síðasta áratug nítjándu aldar, var bæði menntuð og sigld þegar hún kynnist tilvonandi manni sínum, Jóni Alexandersyni. Hún var kennaraskólagengin og hafði lesið  bókmenntir í London. Hún er stuttklippt, klædd eftir nýjustu tísku og les  Byron og er „til í allt nema trúlofun“ (250) í upphafi kynna þeirra Jóns. En þegar hún hefur gift sig þá verður hún, samkvæmt boðorði tímans, að pakka menntun sinni og reynslu niður og gerast heimavinnandi húsmóðir.

Jafnvel þótt þau hjónin eignist bara eitt barn – sýfilissjúkdómurinn sem hún fékk frá manni sínum kom í veg fyrir að fleiri börn fæddust – var það ekki talið tilhlýðilegt að gift kona ynni úti, eins og með því væri gefið í skyn að eiginmaðurinn gæti ekki einn séð fyrir fjölskyldunni. Þórunn laut nauðug boðorði tímans en batt vonir við að hæfileikar dótturinnar fengju betur að njóta sín. „Það er hörmung, Erla, að lifa í hjónabandi menntuð og fá ekki að vinna, fá ekki að vera maður“ (431) segir hún við dóttur sína þegar sú síðarnefnda á í sálarstríði vegna fjötra sem hún finnur í hjónabandi sínu og er að íhuga skilnað: „Það er alveg hægt að jafna sig á karlmanni, Erla mín, þótt maður haldi það ekki“ (431). Hún er tilbúin að hjálpa dóttur sinni ef hún skilur við mann sinn, tveggja barna móðir: „Hún lofaði mér gulli og grænum skógum, að gæta  barnanna svo að ég gæti klárað háskólanám“ (431). En Erla afþakkar hjálpina, fer aftur til manns síns og eignast með honum fimm börn í viðbót áður en þau skilja þó að lokum; hann hefur fundið sér aðra og yngri konu.

Þessi örlagasaga tveggja „nútímakvenna“ er áhrifamikil, ekki síður en frásagnirnar af basli fyrri kynslóða og höfundi tekst vel að koma stríði þeirra til skila. Þá eru lýsingar hennar á sjúkdómsstríði Erlu sem fær krabbamein í andlitið og foreldra hennar sem glíma við sýfilis á fyrsta og öðru stigi, og að lokum því þriðja sem dregur Þórunni til dauða, hreinskilnar en nærgætnar og snerta lesanda djúpt. Einna öflugust er þó frásögnin af Erlu sem verður ófrísk í menntaskóla og vill hvorki hætta námi né eyða fóstri.

Hún fær að gjalda þeirrar ákvörðunnar á útskriftardaginn þegar Pálmi rektor neitar að taka í höndina á henni þegar hann afhendir henni prófskírteinið – þótt hún hafi skilað afburða námsárangri og sé þriðja hæst í einkunnum talið. Með lýsingunni á þeirri  „pínlegustu stund lífsins“ hefur sögu­höfundur svo sannarlega fært „skömmina“ frá móður sinni yfir á rektor, þótt  hún afsaki hann í blaðaviðtali og segir ekki við hann að sakast því „svona hafi hugsunarhátturinn bara verið á þeim tíma“. [5] Titill bókarinnar er sóttur í þessa staðreynd, að Erla var ófrísk í menntaskólanum.

IV

Ekki er hægt að ljúka umfjöllun um bókina án þess að fara nokkrum orðum um stíl hennar. Hann er reyndar mjög fjölbreytilegur og vegast þar á sagnfræðingurinn og skáldið í höfundi. Hin skyggna ljóðhugsun skáldsins fær víða að njóta sín og textinn fer stundum á flug eins og í eftirfarandi klausu sem gæti allt eins verið ljóð: „Þú læknar mig og ég stoppa í sokkana þína. Og strokka og læt heimasmíðaða kveðlinga fokka, og smokka sokkunum þurrum á fót þinn, Þorleifur smáskammtabrokkari, þakka með gælum þeim nú þegar þú þarft á því að halda, gamall og lúinn“ (42). Eða í lýsingunni á Valgerði Einarsdóttur sem fædd var undir lok átjándu aldar og eignaðist 22 börn: „Vala 22 barna mamma opnaðist eins og blóm sem nærist á holdi og gefur af sér hold“ (80). Og síðar: „Börnin runnu eitt af öðru úr legi sínu í Völu. Vöppuðu út á hlað í vaðmálsbrók og kjól. Horfðu uppnumin og hissa á heimalninga, hund og kött, sóley og fífil og krumma á snjóbing. Síðar er sjóndeildarhringuinn stækkar gapa þau upp í Helgrindur og Tröllatinda og læra að segja nöfnin, óþjál í munni“ (82).

Annars staðar nær sagnfræðingurinn yfirhöndinni og textinn tekur á sig „þurrari“ mynd. Nefna má sem dæmi frásögn af gömlu dómsmáli sem Alexander er flæktur í (155–158) sem og  nokkuð ítarlegar lýsingar á fjárhag og híbýlum. Höfundur gerir sér grein fyrir þessu misgengi í stíl og lætur sögukonu koma með athugasemdir á borð við: „Æ, er ég farin að týna mér í of miklum smáatriðum?“ (185) og „kominn tími til að skrifa eitthvað skemmtilegra!“ (188). Það er þó alveg óþarfi fyrir sögukonu að afsaka sig því þessi blanda er – fyrir minn hatt – bæði áhugaverð og skemmtileg. Form sögunnar er þessi – á stundum – óreiðukenndi blendingur þar sem ólíkir tímar og ólíkir stílar skarast í sífellu; frásagnir af búhokri og basli, sjávarháska og mannskaða fyrr á öldum eru fleygaðir með fjörlegum frásögnum af sumardvöl borgarstúlku í sveit, hernámi, böllum og utanlandsferðum, svo fátt eitt sé talið.

Þetta er leikur með tíma og sögu sem gengur fullkomlega upp í  texta sem heldur athyglinni vel. Eftirfarandi orð lögð í munn sögukonu snemma í bókinni fangar aðferð hennar fullkomlega: „Rifja sjálfa mig upp í tímaröð á milli þess sem ég hverf aftur til lífs forfeðranna. Er í leik með víddir og veruleika“ (43).

Soffía Auður Birgisdóttir

 

Tilvísanir

  1. Sjá Þórunn Valdimarsdóttir. „Hugleiðingar um aðferðafræði, sprottar af ritun ævisögu  Snorra á Húsafelli.“ Tímarit Máls og menn- ingar, 4. hefti 1989: 457–465.
  2. Um slíkar pælingar má til dæmis lesa í bók Jerome de Groot, The historical novel. London og New York: Routledge 2010.
  3. Hér er vísað í hugtakið sem á ensku kallast metafiction og sumir hafa þýtt á íslensku með orðinu sjálfsögur. Sjálfri finnst mér orðasambandið sjálfsvísandi sögur miðla betur merkingunni.
  4. Hef hef ég meðal annars í huga umræðuna um bók Hallgríms Helgasonar Konan við 1000°.
  5. Sjá „Bullandi sögur og tilfinningar.“ Við- tal við Þórunni Erlu- og Valdimarsdóttur.  Fréttablaðið, 23. nóvember 2013.