Þau kalla sig VaVaVoom, myndrænt leikhús með bækistöðvar í London og Reykjavík, og í kvöld frumsýndu þau í Kúlunni í Þjóðleikhúsinu brúðuleikhúsverkið Nýjustu fréttir eftir Sigríði Sunnu Reynisdóttur, Söru Martí Guðmundsdóttur sem líka leikstýrir, og leikhópinn allan. Þetta er orðalaust verk að heita má, að vísu heyrum við orðaflaum á mörgum tungumálum úr útvarpi og sjónvarpi og alls kyns hljóð berast líka þegar persónan okkar flettir blaðinu sínu en merking alls þessa er táknræn fremur en bein.
Þær Sigríður Sunna og Irena eru færir brúðustjórnendur og verulega gaman að horfa á þær. En það sem heillaði mest við þessa sýningu var hugmyndaauðgi handritsins og útfærslu þess, ekki síst í leikmyndinni sem Eva Signý Berger er ábyrg fyrir. Hvað eftir annað var maður forviða á hugkvæmninni og hugfanginn af fegurðinni sem allt í einu umlukti flytjendur.
Tónlistin, dans og ljós hafa stór hlutverk í sýningunni og leika þau af list; höfundar þeirra eru í sömu röð Sóley Stefánsdóttir, Alice Jordan og Ingi Bekk. Þegar við fylgjumst með rauða sloppnum innbyrða morgunmatinn sinn og fréttirnar sjáum við líka hvað hitt fólkið í íbúðunum allt í kring er að fást við. Það undurskemmtilega myndband er eftir Pierre-Alain Giraud og Inga Bekk.
VaVaVoom-leikhúsið er greinilega hópur með hugsjón. Það er fagnaðarefni. Ennþá dýrmætari er þó að þetta unga fólk kann vel til verka og býr hugsjónum sínum áhrifamikinn listrænan búning.