Söngleikjadeild Söngskóla Sigurðar Demetz hefur undanfarið sýnt söngleikinn Djúpt inn í skóg (Into the Woods) eftir Stephen Sondheim (tónlist) og James Lapine (handrit) í Gaflaraleikhúsinu við miklar vinsældir. Leikstjóri er Orri Huginn Ágústsson og tónlistarstjóri Ingvar Alfreðsson en prýðileg þýðingin á bráðskemmtilegum textanum er eftir Einar Aðalsteinsson, Orra leikstjóra og Þór Breiðfjörð deildarstjóra. Söngleikurinn var frumsýndur í Bandaríkjunum 1986 og hlaut undir eins verðlaun og viðurkenningar auk mikilla og varanlegra vinsælda.
Sagan gerist í Ævintýraskóginum „þar sem öll ævintýrin gerast“, eins og Þorvaldur Þorsteinsson segir í Skilaboðaskjóðunni[1], og þar er blandað saman á hugkvæman og fyndinn hátt þræðinum í þrem Grimms-ævintýrunum, Rauðhettu, Öskubusku og Garðabrúðu (Rapunzel) og enska ævintýrinu um Jóa og baunagrasið. Verkið er þó ekki samið fyrir börn, það brýtur efni sitt upp með kaldhæðni og heimspekilegum vangaveltum sem skemmta fyrst og fremst fullorðnum áhorfendum, ímynda ég mér.
Í sögumiðju er norn (Salka Gústafsdóttir) sem hefur látið ýmislegt illt af sér leiða. Fyrir mörgum árum rændu bakarahjón töfrabaunum úr garðinum hennar og í refsingarskyni fyrir baunamissinn gerði móðir nornarinnar hana gamla og ljóta. Hún hefndi sín fyrir sitt leyti með því að ræna dótturinni Garðabrúðu (Matthildur Steinbergsdóttir) frá bakarahjónunum og leggja ófrjósemi á son þeirra (Páll Sigurður Sigurðsson). Nú þráir nornin að verða aftur ung og fögur en til þess þarf hún fjóra hluti: kú sem er hvít eins og mjólk, hettu sem er rauð eins og blóð, hár sem er gult eins og maís og skó úr skíra gulli. Og hún segir syni bakarahjónanna, sem sjálfur er orðinn bakari og þráir að eignast barn með konu sinni (Ebba Dís Arnarsdóttir), að hún létti álögunum af honum ef hann færi henni þessa hluti innan þriggja sólarhringa. Hefst þá leiðangur bakarahjónanna djúpt inn í skóginn þar sem þau taka á ýmsan hátt þátt í lífi Öskubusku (Una Ragnarsdóttir) sem þráir að komast á dansleik prinsins (Aron Daði Jónsson), Rauðhettu (Hrefna Hlynsdóttir) sem er á leiðinni til ömmu sinnar (Erla Ruth Möller) en lendir í úlfi (Máni Emeric Primel Steinþórsson), Garðabrúðu með gullna hárið sem býr innilokuð í turni nornarinnar en er ólétt eftir annan prins (Ísak Leó Kristjánsson) og Jóa (Natalía Sif Stefánsdóttir) sem á að selja kúna sína Mjólkurhvít (Embla Sif Ólafsdóttir) þótt hann vilji það helst ekki. Öll þrá þau annað líf en þau lifa og öll fá þau það sem þau þrá – en þá er sagan bara hálf!
Uppbygging verksins er snjöll. Í fyrri þættinum eru ævintýrin til lykta leidd undir stjórn sögumannsins (Guðrún Rósa Róbertsdóttir) en í seinni þættinum fáum við að vita hvað gerðist svo … Frá því segja ævintýrin ekki, enda erum við þá rænd sögumanninum.
Verkið er nánast allt sungið og tónlistin er ekki auðveld svo að hér er lagt mikið á ungt fólk. Þau stóðust álagið með prýði og sýningin var hröð, þétt og skemmtileg. Öll höfðu söngvararnir ágætar raddir og góða sviðsframkomu þó að sum verði eftirminnilegri en önnur. Páll Sigurður og Ebba Dís glönsuðu í hlutverkum bakarahjónanna, Páll ekki síst í angist sinni sem ekkill með ungt barn í lokin og Ebba Dís í syndsamlegu ævintýri með prinsi inni í skógi. Hrefna var glaðbeitt og galvösk Rauðhetta; tilvistarangist Öskubusku Unu var sannfærandi og Salka var ögrandi og ísmeygileg norn, hvort sem var krókbogin og afmynduð í framan eða glæsikona í grænum pallíettum. Leikhópurinn sá sjálfur um útlit sýningarinnar sem var dálítið höttótt en ljósahönnun var á hendi Jóhanns Bjarna Pálmasonar og var óaðfinnanleg. Stundum heyrði ég ekki textann eins vel og mig langaði til en ég veit ekki hvort það var hljóðstjórninni að kenna; hana önnuðust Kristinn Gauti Einarsson og Kristján Sigmundur Einarsson.
Loks er rétt að benda á að svona sýning er ekkert minna en kraftaverk: viðamikill söngleikur eða nútímaópera, borin uppi af nemendum sem eru misjafnlega langt á veg komnir í námi. Þarna tók hvert atriðið við af öðru hiklaust og örugglega svo maður hlýtur að taka ofan fyrir leikstjóra og áhöfn með aðdáun.
Silja Aðalsteinsdóttir
[1] Þess má geta hér til gamans að nefnd Skilaboðaskjóða kom einmitt fyrst út árið 1986. Hugmyndin um „ævintýraskóginn“ þar sem öll ævintýrin eru alltaf að gerast hefur legið í loftinu á þeim tíma!