Sýning Leikfélags Reykjavíkur á Jeppa á Fjalli eftir Holberg, Megas og Braga Valdimar Skúlason á Nýja sviði Borgarleikhússins minnir mest á partý sem hefur farið úr böndunum. Þar ægir ýmsum gerðum sviðssýninga saman – þetta er leikrit en líka söngleikur og tónleikar – og einhvern veginn „of“ af öllu. Benedikt Erlingsson leikstjóri hefur farið á algert flipp!
Þetta er ljóst strax og komið er inn í salinn og hafsjór af tómum flöskum blasir við. Yfir þeim gnæfir mikið hjól sem nýtist á ýmsa vegu í sýningunni en er fyrst og fremst tæki til að geta látið persónurnar ganga og ganga án þess að komast úr sporunum – eins konar stigmylla lífsins. Sviðið er eftir Gretar Reynisson og það er ákaflega ljótt eins og það á eflaust að vera. Ekki á að láta okkur áhorfendum líða vel heldur minna okkur á háska áfengisneyslunnar sem hefur farið með aðalpersónu verksins, bóndadurginn Jeppa (Ingvar E. Sigurðsson), í hundana og er orsök allra þeirra hörmunga sem yfir hann ganga.
Upprunalega verkið er bráðum 300 ára og ég þekkti það ekki fyrir. Þess vegna veit ég ekki hvernig textar Megasar (og Braga) koma inn í það. Koma þeir í staðinn fyrir samtöl eða eintöl persóna eða eru þeir viðbót? Ég verð að játa að ekki langar mig nógu mikið að komast að þessu til að leggja á mig að lesa báðar gerðir leikritsins, þá gömlu og þá nýju. Þeir Benedikt, Bragi og Megas hafa borið mál í að þeir hafi farið með verk Holbergs eins og hrátt skinn enda sé þetta klassískt verk og klassík sé hráefni sem fara megi með að vild. Gallinn á slíkri meðferð á þessu leikriti er sá að það er alls engin klassík á Íslandi. Hér þekkir fólk almennt ekki þetta verk og getur ekki haft eins gaman af því að sjá snúið út úr því og Danir eða kannski Norðmenn.
Partý sem fara úr böndunum eru leiðinleg en mér leiddist ekki alltaf undir þessari sýningu – bara þegar hún varð of löng. Ég hafði gaman af að horfa á Ingvar verða fullan. Mér fannst Ilmur Kristjánsdóttir öflug gribba í hlutverki Nillu, konu Jeppa. Bergur Þór Ingólfsson og Arnmundur Ernst B. Björnsson voru frábærir þjónar, einkum í kvenbúningunum, og gaman var að heyra Bergþór Pálsson syngja Megas í hlutverki barónsins. Skrítið þótti mér að sjá ekki það hlutverk í rullulistanum fremst í leikskránni. Er það ekki hlutverk í leikritinu? Nafn Bergþórs er heldur ekki þar þó að það sé annars staðar í skránni.
Best lék þó einn sem er heldur ekki með í rullulistanum en lék glæsilegar listir sínar í hjólinu mikla. Takið eftir honum!