Það var snilldarhugmynd hjá Elínu Gunnlaugsdóttur að búa til söngleik utan um ljóð Þórarins Eldjárn í bókinni Gælur, fælur og þvælur og útkoman er bæði skemmtileg og elskuleg eins og gestir í Tjarnarbíó fengu að sjá í gær á sýningunni Björt í sumarhúsi. Ágústa Skúladóttir leikstýrir, Kristína R. Berman sér um leikmynd og búninga og lifandi hljómsveit situr bakatil á sviðinu, leikur undir söng og framleiðir alls konar leikhljóð. Algerlega alvöru.
Björt (Una Ragnarsdóttir) er í pössun hjá afa (Jón Svavar Jósefsson) og ömmu (Valgerður Guðnadóttir) og fer með þeim í sumarbústað. Það fyrsta sem hún gerir þegar inn er komið er ekki að kanna þennan litríka og fallega litla bústað heldur að skoða símann sinn. Ekki virðist vera mikið líf í honum og fljótt kemur í ljós að þetta er svo frumstæður bústaður að þar er ekki rafmagn. „Þá get ég ekki hlaðið símann minn,“ segir Björt og finnst lífið ekki lengur þess virði að lifa því. En afi og amma kunna að hafa ofan af fyrir krakka, þau benda henni á ýmiss konar líf í bústaðnum, gullfiskinn, húsfluguna, skjaldbökuna og kóngulóna, og syngja eða fara með bráðfyndna texta um þessi sérkennilegu gæludýr og ýmislegt fleira, meðal annars kaffikerlingu og jafnvel eitt ólíkindatól! Ókennilegar persónur birtast að utan, hlaupagikkur, ókind og jafnvel draugur sem Bragi Bergþórsson gerði skil, svo að barninu þarf ekki lengi að leiðast. Enda verður Björt smám saman svo tjúnuð að um kvöldið getur hún ekki sofnað. Þá eru afi og amma búin að kynna hana fyrir leyndardómum bókmenntanna og þegar gömlu hjónin detta út af, dauðuppgefin á barnagæslunni, getur Björt farið að lesa í ró og næði. Það minnir á dásamlegt ljóð í Óðflugu Þórarins, „Vöggumaggaruggu“, þar sem barnið leikur sér fram á rauða nótt þegar mamma er loksins sofnuð!
Tónlistin er áheyrileg, leikmyndin hugmyndarík og falleg og söngur fjórmenninganna var fullkomlega í stíl við efni og umhverfi. Þau hafa öll fínar raddir fyrir svona verkefni, skýrar og hljómmiklar, þannig að allur texti komst til skila – sem er auðvitað skilyrði þegar farið er með svona vandaðan kveðskap fyrir börn (og fullorðna). Þau leika líka öll áreynslulaust enda fullorðnu söngvararnir margreyndir á því sviði líka. Og Una gaf þeim ekkert eftir, hvorki í söng né leik.
Ég var ekki fersk í ljóðunum í Gælum, fælum og þvælum en það var minn tæplega sjö ára fylgdarsveinn. Hann hafði bæði heyrt þau lesin, kveðin af Báru Grímsdóttur og sungin af Ragnheiði Gröndal við lög Jóhanns Helgasonar og naut sýningarinnar vel, lifði sig inn í hana ótruflaður af óróa í salnum og ótrúlegri sælgætisneyslu barnanna við hliðina á okkur! Tjarnarbíó var þéttskipað í gær þannig að ég treysti því að þessi góði hópur hafi fleiri sýningar þar á verkinu.