Hugmyndaríku og eldfjörugu hæfileikabúntin í sviðslistahópnum Slembilukku, þær Bryndís Ósk Þ. Ingvarsdóttir, Eygló Höskuldsdóttir Viborg og Laufey Haraldsdóttir, frumsýndu í gærkvöldi í salnum á þriðju hæð Borgarleikhússins sýninguna Á vísum stað. Þær semja textann sjálfar og virðast líka sjá sjálfar um allt annað í sambandi við sýninguna.
Ég hef orð listfræðingsins Halldóru Arnardóttur fyrir því að í upphafi 20. aldar hefðu verið á venjulegu íslensku heimili um það bil 100 nytjahlutir, þar með talin eldhúsáhöld og fatnaður (DV, 11.11. 1996). Getið þið ímyndað ykkur hvað við þyrftum að margfalda þessa tölu með hárri tölu til að ná upp í fjölda nytjahluta á venjulegu heimili nú á dögum, jafnvel þótt við teldum bækur ekki með? Ég tala nú ekki um ef við færum í geymsluna líka, annaðhvort út í bílskúr, upp á háaloft eða niður í kjallara – eða bara upp í efstu hillurnar í skápunum – þar sem úreltir nytjahlutir fela sig?
Hvers vegna sönkum við svona miklu að okkur og hvers vegna getum við ekki einfaldlega fleygt hlutum sem við erum hætt að nota? Þetta er rannsóknarefni verksins og höfundar skoða málið frá ýmsum hliðum með ólíkum aðferðum. Fyrst og fremst hafa þær talað við talsverðan fjölda fólks og fengið að líta inn í geymslur þess. Þegar sest var inn í salinn gekk myndband á skjá þar sem farið var um nokkrar geymslur og fylgst með eigendum handfjatla gripi sem þeir höfðu kannski ekki séð í áratugi. Í sýningunni fengum við leikin atriði úr heimsóknum leikaranna til þessa fólks og líka beinar frásagnir, og við fengum líka að sjá dæmi um góss úr geymslum sem þær höfðu valið sérstaklega til að sýna okkur. Við fengum meira að segja að velja hvað af því góssi okkur fyndist merkilegast. Það kom mér á óvart hvað áhorfendur voru ósammála um virði hlutanna og líka hvað minn smekkur var á skjön við meiri hlutann. Það er alltaf fróðlegt og lærdómsríkt.
Bryndís Ósk, Eygló og Laufey létu sér ekki nægja að leika og segja frá. Þær beita látbragðsleik til dæmis til að sýna okkur þann sem hendir og hendir og hinn sem hendir aldrei neinu og þær dansa af mikilli fimi til að brjóta upp fróðleikinn. Lengst lifir þó sennilega í minningunni söngur Eyglóar. Útlistun hennar í býsna frumstæðum en markvissum texta á eðli safna og geymslna var hrikalega fyndin en um lokasönginn er ekki rétt að hafa mörg orð: hann verður maður að upplifa!