Gærkvöldið verður, trúi ég, minnisvert í sögu Þjóðleikhússins því þá var heimsfrumsýnt á stóra sviðinu leikrit eftir eitt fremsta leikskáld Evrópu nú um stundir, Marius von Mayenburg: Ellen B. Þýðandi er Bjarni Jónsson, leikstjóri Benedict Andrews sem er okkur að góðu kunnur, vandlega hugsuð leikmyndin er eftir Ninu Wetzel, lýsinguna hannar Björn Bergsteinn Guðmundsson en tónlistin sem stjórnar hjartslætti leikhúsgesta er eftir Gísla Galdur Þorgeirsson.
Við erum stödd heima hjá kærustuparinu Astrid (Unnur Ösp Stefánsdóttir) og Klöru (Ebba Katrín Finnsdóttir). Nokkur aldursmunur er á parinu, enda kynntust þær þegar Klara var 16 ára gamall nemandi Astridar í menntaskóla. Þetta kvöld vill Astrid helst að Klara fari út eða hafi hægt um sig því að hún hefur boðið yfirmanni sínum, Úlfi skólastjóra (Benedikt Erlingsson), heim til sín á vinnufund. Úlfur hefur gefið í skyn að hann þurfi að tala við hana um málefni sem erfitt sé að ræða á vinnustað. Klara er sáróánægð yfir þessu heimboði, vill ekki sjá Úlf í sínum húsum og hefur um hann hin háðulegustu orð. Astrid ver hann galvösk og þegar Úlfur kemur virðist hún spennt fyrir honum, býður upp á vín og er hinn altillegasti gestgjafi. En málefnið sem Úlfur vill ræða, nemandinn Ellen Babic og atvik sem gerðist á skólaferðalagi, sprengir upp samskipti þeirra og ekki verður staðan einfaldari þegar Klara bætist í hópinn.
Ellen B. er listilega skrifað leikrit og svo skínandi vel þýtt að öll fyndnin, tvíræðnin og margræðnin í textanum naut sín til fullnustu. Þar komu líka til einstaklega góð tök leikaranna á textanum enda hefði maður ekki viljað missa af einu einasta orði. Verkið er byggt upp eins og spennusaga þar sem hver hliðin af annarri kemur upp á teningnum uns áhorfandinn veit ekki hvað hann á að halda og hverju hann á að trúa, neyðist til að hugsa sjálfur, reikna í huganum undir sýningunni og halda því svo áfram eftir að henni lýkur. Alger galdur.
Þau voru samvalin í hlutverkin, Unnur Ösp, Ebba Katrín og Benedikt. Unnur hinn glæsilegi, vinsæli menntaskólakennari, örugg með sig og sjarmerandi þangað til fótunum var kippt undan henni en nægilega sterk til að snúa vörn í sókn – og hvílík sókn! Benedikt var úlfslegur Úlfur, slægur og sniðugur – djöfullegur, jafnvel –, viss um að hann hefði allt í hendi sér þar til það bregst. Í túlkun Ebbu Katrínar var Klara gædd hrekkleysi ungrar konu sem þó hefur reynt margt og fær drjúga innlögn á reynslubankann þetta örlagaríka kvöld. Vörn Klöru fyrir ást sinni á Astrid var svo mögnuð í flutningi Ebbu að ég var búin að gleyma að hún hefði viðmælanda og hrökk í kút þegar skólastjórinn svaraði henni!
Þau eru bara þrjú á stóra sviðinu en Nina Wetzel gerir ekkert til að minnka það fyrir þau eða þrengja að þeim, þvert á móti. Þau hafa allan sviðsgeiminn með einn hvítan sófa í miðjunni undir lýsandi ferningi, og ekki nóg með það heldur notar Benedict Andrews allt húsið þannig að „íbúð“ þeirra Astridar og Klöru verður ógnarstór. Það hefur áreiðanlega sína djúpu merkingu.
Það var búið að byggja upp heilmikla spennu hjá leikhúsfólki fyrir þessa frumsýningu og það gleður mig innilega að geta nú sagt að það var full ástæða til. Þetta er leikhúsviðburður sem lengi verður í minnum hafður.