Anna Karenina, söguhetja Tolstojs í samnefndri skáldsögu, er líklega frægasta (bókmennta)persónan sem deyr með því að henda sér fyrir járnbrautarlest, en það hafa margir farið að dæmi hennar, bæði í bókmenntum og raunveruleikanum. Í gærkvöldi var frumsýnt hjá Afturámóti í Háskólabíó nýtt leikverk eftir Adolf Smára Unnarsson, Undir, sem snýst um slíkt tilvik. Magnús Thorlacius sér um ljós og tæknilegar útfærslur, tónlistin er eftir Ronju Jóhannsdóttur en Júlía Gunnarsdóttir klæddi persónurnar í einkar viðeigandi fatnað. Adolf Smári leikstýrir eigin verki.
Við sjáum ekki sjálfan viðburðinn, ekki heldur á myndbandinu sem sýnir svipmyndir af umhverfinu þar sem hann gerist, heldur hlustum við á fimm persónur segja frá honum eftir á, hverja út frá sínu sjónarhorni. Þau eru langt frá því sammála um hvað það var sem gerðist nákvæmlega – það er að segja hvað hvert þeirra sagði og gerði og hvenær – en grundvallaratriðin eru ótvíræð. Þau eru öll að bíða eftir lest á neðanjarðarstöð í ónefndri borg þegar þau verða hvert af öðru vör við að illa til hafður útigangsmaður hefur lagt sig á teinana rétt áður en lest er væntanleg. Gamla konan sem fyrst tók eftir manninum og reyndi að vekja athygli hinna á honum er ekki með í umræðunni um atvikið, hún hefur sent barnabarnið sitt (Vigdís Halla Birgisdóttir) með skrifaða lýsingu á því eins og hún upplifði það. Barnabarnið eykur heldur í þá lýsingu enda finnst henni hitt fólkið ekki hafa staðið sig nægilega vel.
Þau sem bregðast fyrst við hrópum og köllum ömmunnar eru Leikarinn (Fjölnir Gíslason) og Konan á leið í atvinnuviðtal (Björk Guðmundsdóttir) sem bæði víkja sér undan ábyrgð þó að Leikarinn geri að lokum máttleysislega tilraun til að ræsa út lið til björgunar. Seinni til viðbragða eru tveir túristar sem eru að koma frá því að skoða nærliggjandi höll, Læknirinn (Berglind Halla Elíasdóttir) og maðurinn hennar (Jökull Smári Jakobsson) sem vildi frekar liggja á sólarströnd en láta draga sig á menningarlegar slóðir, hvað þá eldsnemma á morgnana. Þau tala ekki mál innfæddra og reyna að gera sig skiljanleg með öðrum aðferðum; það notfærir höfundur sér skemmtilega. Við í salnum skiljum þau ágætlega.
Við kynnumst öllu þessu fólki smám saman, viðhorfum þess og væntingum til lífsins. Þetta er sjálfsagt býsna dæmigert fólk, upptekið af sjálfu sér og ekki tilbúið til að hætta lífi sínu fyrir bláókunnugan mann sem þar að auki er í meira lagi ókræsilegur. Samtölin eru innihaldsrík og afhjúpandi, sýna innri mann persónanna miskunnarlaust og leikararnir nýttu þau vel. En þegar til kemur reynist hópurinn býsna einlitur þrátt fyrir ólíkan bakgrunn, stöðu og störf, að minnsta kosti skortir þau öll náungakærleika. Adolf Smári breiðir yfir beiskjuna í þessum sannleika með því að leggja áherslu á fyndni samtalanna, leika af krafti og æsingi frekar en á þunga efnisins, það gerir verkið kaldara en textinn býður endilega upp á. En þetta er athyglisverð sýning sem kemur okkur við hér og nú þegar stöðugt er höfðað til samúðar okkar með fólki sem á undir högg að sækja. Er þá miskunnsamur Samverji í hópnum?
Adolf Smári fylgir hér eftir leikriti sínu Nokkur augnablik um nótt sem Þjóðleikhúsið sýndi í hittifyrra og einnig var tekið upp fyrir sjónvarp. Leikhúsvinir munu hafa gaman af að bera þessi verk saman og líka að sjá leikarana tvo úr Kannibalen sem Adolf leikstýrði í Tjarnarbíó í öðrum og ekki eins hrikalega ögrandi hlutverkum.