María Reyndal frumsýndi í gærkvöldi leikverk sitt Með Guð í vasanum á Nýja sviði Borgarleikhússins. Sérkennilega leikmyndina hannaði Brynja Björnsdóttir sem einnig sá um búninga en Pálmi Jónsson sá um lýsingu. Hljóðmyndin, sem skiptir svo gríðarlega miklu máli í sýningunni, var á vegum Ísidórs Jökuls Bjarnasonar. Sveinn Ólafur Gunnarsson aðstoðaði við handrit og lék líka Guð sjálfan.

Alzheimer er skelfing Vesturlandabúa um þessar mundir. Stundum er eins og það gangi faraldur, svo marga heyrir maður um sem fá þennan sjúkdóm, jafnvel á besta aldri. Þegar við hittum Ástu (Katla Margrét Þorgeirsdóttir) fyrst er hún eldhress fullorðin kona sem býr í eigin íbúð í Kópavogi („Það er svo gott að búa í Kópavogi, sagði karlinn!“), glæsilega búin, fyrrverandi kórstjóri sem enn hefur prýðilega söngrödd og næmi á tónlistarflutning. Inga dóttir hennar (Sólveig Arnarsdóttir) kemur í heimsókn og við skiljum ekki alveg strax augljósar áhyggjur hennar af mömmu sinni. Auðvitað endurtekur Ásta sig, man ekki hvort einkasonurinn Andri (Hjörtur Jóhann Jónsson) er í London eða Boston og sýnir önnur eðlileg merki öldrunar, en það er ekki fyrr en í annarri heimsókn Ingu sem við verðum hastarlega vör við að gleymska hennar er ekki „eðlileg“. Við tekur stríðið við að koma Ástu í þjónustuíbúð, mjög gegn hennar vilja, en þegar þangað kemur reynist búa í húsinu gömul vinkona, Gréta (Kristbjörg Kjeld), svona líka skemmtileg og spræk, og þær eiga yndisstundir saman við söng og spil. Svo verður jafnvel þjónustuíbúðin ónóg og Ásta þarf að fara á hjúkrunarheimili, það er erfitt spor því þar er engin Gréta.

Nú virðist þetta kannski vera grátbólginn sorgarleikur en það er öðru nær. Textinn er þéttur, markviss og oft mjög fyndinn. Við fáum glögga mynd af vanda sem afar margir af millikynslóðinni standa frammi fyrir og með því að gera Guð sjálfan að hliðarsjálfi Ástu verður persónan aldrei einföld eða einmana á sviðinu, hún sækir styrk í þennan myndarlega karlmann sem ekki yfirgefur hana eins og aðrir karlar hafa gert í lífi hennar.

Mestu skiptir þó hvað leikurinn er góður. Hjörtur Jóhann fær ekki mikið að gera sem sonurinn en gerir það vel, og ennþá betur nýtur hann sín sem eiginmaðurinn svikuli (og löngu dauði). Kristbjörg er eins og lifandi dæmi um hvernig fólk vill helst vera þegar það eldist, svo falleg, full af áhuga og ástríðu, skemmtileg og klár. Það er dýrmætara en frá verði sagt að eiga svona listamann á hennar aldri. Rakel Ýr Stefánsdóttir er í vanþakklátum hlutverkum stúlknanna sem koma til að aðstoða Ástu við hluti sem hún vill alls ekki láta aðstoða sig við og maður fann virkilega til með henni. Sveinn Ólafur er flottur Guð þó að ekki sé hann almáttugur. Og Sólveig átti alla samúð manns í baráttunni við elliglöp mömmu gömlu. Sólveig hefur þann mikilvæga eiginleika að geta talað með svipbrigðum sem ekki þarf nærmynd til að nema og skilaði til manns ást og óþoli frammi fyrir sínum mikla vanda skýrt og innilega.

En hvað á að segja um Kötlu Margréti sem hér leikur að minnsta kosti 30 ár upp fyrir sig í aldri. Sessunautur minn í leikhúsinu sagði á eftir að Kristbjörg hefði átt að leika Ástu, hún væri á réttum aldri. En á hvaða aldri er maður endanlega? Ég verð áttræð í næsta mánuði en mér líður ekkert svoleiðis – ef það er þá einhver sérstök líðan! Þegar Ásta er spurð hvort hún viti hvað hún er gömul þá byrjar hún á að giska á sjötugsaldurinn. Ég veit hvað ég er gömul en þegar ég lít í spegilinn verð ég oft hálfhissa. Þar er ekki manneskjan sem mér finnst ég vera. Katla Margrét er manneskjan sem Ástu finnst hún vera og hún fór fantavel með hlutverkið, sýnir geðsveiflurnar og skyndilegu skilin milli minnisglampanna alveg makalaust vel. Það var líka ótrúlega flott að sjá hvernig henni hrörnaði smátt og smátt eftir því sem tíminn leið og hún varð að gefast upp, stig af stigi, í sjálfstæðisbaráttunni. Það kom út á manni tárum en var þó um leið oft svo innilega hlægilegt. Snilld!

Sviðið hennar Brynju Björnsdóttur tók sömu þróun og persóna Ástu; þar fækkaði smám saman hlutum og húsmunum uns geimurinn einn var eftir. En inni í geimnum var ekki tóm. Nei: Þar var tónlistin! Það sem lifir þegar allt annað gleymist.

 

Silja Aðalsteinsdóttir