Fyrir framan annað fólkPör sem eru að hefja sambúð eða búin að búa saman um skeið gætu haft gagn af að sjá sýningu Venjulegs fólks í Hafnarfjarðarleikhúsinu á verki Kristjáns Þórðar Hrafnssonar, Fyrir framan annað fólk. Það var frumsýnt í gærkvöldi undir stjórn Melkorku Teklu Ólafsdóttur og bregður ljósi á sambúðarvanda sem getur verið erfitt – eða “asnalegt” – að tala um.

Þetta er söguleikhús. Parið sem Tinna Hrafnsdóttir og Sveinn Geirsson leika segja okkur sögu sína, tala til skiptis að mestu, við og við koma stutt samtalsatriði inn í frásögnina.

Sagan byrjar ósköp venjulega. Þau hittust í partýi og fóru að tala saman eins og gengur. Hann varð undir eins hugfanginn af henni af því hún er svo falleg og ljúf. Hún er meira í vafa, hann er svolítið stífur, kannski feiminn, en hún heillast gersamlega af honum þegar hún kemst að því hvað hann er snjöll eftirherma. Þennan eiginleika hefur hann aldrei vitað um áður hjá sjálfum sér, en fljótlega fer hann að beita honum markvisst af því hvað hann hefur mikið yndi af að heyra hana hlæja innilega. Þau fara að búa saman, en smám saman fer hæfileiki hans sem hún féll fyrir að fara í taugarnar á henni. Þetta verður eins og að búa með margföldum persónuleika! Hvenær er hún að kela við manninn sinn og hvenær við Össur Skarphéðinsson? Hún hvetur hann til að leita sér hjálpar, en getur hann komið með svona hálfvitalegt “vandamál” til geðlæknis sem þarf að sinna fólki sem á bágt í alvöru? Sveinn fór ansi skemmtilega með hlutverk sitt þó að gaman hefði verið að heyra hann herma eftir fleiri þjóðkunnum persónum. Tinna var líka stórfín sem venjuleg stelpa sem situr allt í einu uppi með hálfsturlaðan sjúkling í stað mannsins sem hún samþykkti svo fús að búa með.

Ég held að margir kannist við einhver tilbrigði við þetta stef, persónueinkenni á vinum eða maka sem voru svo indæl og krúttleg í byrjun en uxu og urðu óeðlilega stór þegar tímar liðu fram. Og má auðvitað heimfæra þetta upp á ávana af ýmsu tagi, misalvarlega. Kristján Þórður notar frumlega gerð af ávana og það var mikið hlegið í leikhúsinu í gærkvöldi, en verkið er helsti veigalítið til að bera uppi heils kvölds sýningu. Það snýst algerlega um þetta eina vandamál, við fáum ekkert að vita annað um parið og líf þeirra, atvinnu, áhyggjur, áhugamál. Að vísu fáum við skýringu á því í lokin en þá er manni farið að finnast ansi teygt á gríninu.

Eftir umræðurnar undanfarið um fjölskyldumál í leikhúsi er afar gaman að sjá hér sannkallaða fjölskyldusýningu. Kristján Þórður og Melkorka eru hjón, Sveinn og Tinna eru líka hjón og Tinna þar að auki systir Kristjáns Þórðar. Sveinn semur verulega áheyrilega tónlist í sýninguna en auk þess koma að tónlistinni hjónin Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir, systir Melkorku, og maðurinn hennar, gítarsnillingurinn Francisco Javier Jáuregui. Ég þekki ekki Sól Hrafnsdóttur sem sá um grafíska hönnun en þori að veðja krónu að hún er skyld höfundi og aðalleikkonu! Leikhópurinn allur á heiðurinn af fallegu sviðinu, og öll var umgerð sýningarinnar til sóma og yndis.

 

Silja Aðalsteinsdóttir