Þjóðleikhúsið frumsýndi í gærkvöldi við mikinn fögnuð gesta söngleikinn Storm eftir Unni Ösp Stefánsdóttur og Unu Torfadóttur. Unnur Ösp leikstýrir; tónlist og textar eru eftir Unu nema eitt lag samdi hún með tónlistarstjóranum Hafsteini Þráinssyni og svo fengum við að heyra brot úr frægum lögum eftir aðra þegar mikið lá við. Glæsilega og afar snjalla leikmyndina hannaði Ilmur Stefánsdóttir. Lee Proud samdi eldfjöruga og frjálslega dansa og urmul fjölbreyttra og í hæsta máta viðeigandi búninga hannaði María Th Ólafsdóttir. Lýsingu hannaði Ásta Jónína Arnardóttir og hún gerði líka myndböndin sem voru geysilega skemmtileg. Hljóðmyndina eiga Kristján Sigmundur Einarsson og Hafsteinn Þráinsson en hljóðblöndunin – sem ekki tókst alltaf nógu vel á frumsýningu – var í höndum Þórodds Ingvarssonar. Ása María Guðbrandsdóttir hannar leikgervin en dramatúrg er Matthías Tryggvi Haraldsson.
Það eru stór tímamót í lífi okkar þegar við sleppum út úr framhaldsskóla og megum ráða hvert við förum næst. Vinahópurinn á sviðinu stendur einmitt í þeim sporum. Í miðju hans er Elísabet (Una Torfadóttir) sem hefur verið að semja lög og texta, vinum sínum til mikillar ánægju, en nú eru fleiri þarna úti búnir að taka eftir henni. Hennar fyrsti opinberi smellur hefur vakið hrifningu og Sigtryggur umboðsmaður (Hallgrímur Ólafsson) sér í henni vænlegt fórnarlamb, reynir smám saman af óskammfeilni að taka líf hennar yfir og hlustar aldrei á þegar hún andæfir. Hún er stjörnuefni og stjarna skal hún verða!
Elísabet á tvo einkavini í hópnum, ofurhetjurnar sínar eins og hún kallar þá, Tomma (Jakob van Oosterhout) sem stefnir á íslensku og ritlist og Helgu (Berglind Alda Ástþórsdóttir) sem býr sig undir inntökupróf í læknisfræði. Í hópnum eru líka Draumey og Dóri (Iðunn Ösp Hlynsdóttir, Marínó Máni Mabazza) sem eiga greinilega framtíð fyrir sér í dansi og söng, Tinna (Birta Sólveig Söring Þórisdóttir) sem ætlar í leiklist og prófar sig í uppistandi, Börkur og Maríanna (Sigurbjartur Sturla Atlason, Salka Gústafsdóttir). Þetta er fallegur hópur og geysilega hress og þau vilja allt gera til þess að fyrstu tónleikar Elísabetar takist vel, hvort sem þeir verða í Hörpu eða bara í æfingahúsnæðinu.
En ekki eru rósir án þyrna. Davíð bróðir Tomma (Kjartan Darri Kristjánsson) er rændur einhverjum efnum sem hann átti að selja og er nú í skuld við afleita menn. Þeir bræður þurfa að finna leið út úr þeim vanda áður en eitthvað óafturkallanlegt gerist. Elísabet sjálf er búin að átta sig á að hún ber ekki einfaldan hlýhug til Helgu vinkonu sinnar – hún elskar hana. Getur hún sagt henni það? Og hvað gerist þá? Sjálf er Helga enn í ójafnvægi eftir móðurmissi og alveg að bugast af stressi út af kröfunum sem systir hennar, gjörvilegi lögfræðingurinn Æsa (Hildur Vala Baldursdóttir) gerir til hennar. En söguþráðurinn er hvorki margvafinn né flókinn, fyrst og fremst er hann umgjörð um lög og texta Unu sem fá að njóta sín til fulls í flutningi hennar og hópsins. Þau fá öll að syngja, ýmist með henni eða fyrir hana. Þar komu mest á óvart gullfalleg rödd Sölku og mjúk og heillandi rödd Jakobs en öll hafa skínandi góðar raddir.
Ekki þarf að fjölyrða hér um söng Unu sjálfrar. Ég varð bæði hissa og hugfangin þegar ég heyrði „Í löngu máli“ í fyrsta sinn – textinn svona sniðugur, lagið stríðnislega sjarmerandi og röddin einstök. Þetta uppáhaldslag mitt naut sín sérstaklega vel á sýningunni í gær – þau létu eins og það yrði til þarna á staðnum, bættu við spurningum eins og frá eigin brjósti – afar skemmtilega gert og af þessari smitandi kátínu sem þeim var svo eiginleg. Fleiri vel kunn lög hennar fengu að hljóma, „Fyrrverandi“ meira að segja tvisvar! En þarna voru líka ný lög, til dæmis upphafslagið „Málum bæinn rauðan“ sem þau sungu og dönsuðu af krafti: „Enginn veit hvernig morgundagurinn fer / en í kvöld munum við dansa / dansa upp Laugaveg!“ „Sólmyrkvi“ er líka nýr og á sjálfsagt eftir að verða smellur þótt myrkur sé.
Á sviðinu var óvenjumargt nýtt fólk en það var ekki að sjá á leiknum. Mest mæddi á Jakobi í hlutverki Tomma og hann brást hvergi, sýndi vaxandi óþol og vanlíðan þessa gulldrengs með hverri hreyfingu og svip af gríðarlegu öryggi. Berglind Alda var líka fullkomlega sannfærandi í sínum þögla kvíða og reynist ekki síðri dramatísk leikkona en gamanleikkona en þá hlið sýnir hún eftirminnilega í Tómri hamingju í Borgarleikhúsinu um þessar mundir. Birta Sólveig er alger gleðisprengja, svo full af orku og fjöri að maður smitast. Hallgrímur var ágætur fulltrúi yfirgangssamra fullorðinna í þessum ungmennahópi og Helga Vala gegndi líka í því hlutverki með sóma. Sjálf er Una ekki lærð leikkona en sannarlega sviðsvön og hún fór létt með hlutverk Elísabetar annað en sönginn, var sannfærandi ástfangin stúlka. Það var æðislegt að hlusta á hina leikarana flytja lögin hennar í sýningunni, skipta með sér línunum bróðurlega og dansa við, en það var samt bara til að við gætum fengið hina eftirsóttu gæsahúð þegar hún söng svo sjálf.
Þetta er afskaplega vel heppnuð sýning. Satt að segja alveg undursamleg. Ég spái henni langlífi!
Silja Aðalsteinsdóttir