Það opnaðist furðustór ævintýraveröld á litla sviðinu í Kúlu Þjóðleikhússins í dag á frumsýningu á Láru og Ljónsa – jólasögu eftir Birgittu Haukdal sem Guðjón Davíð Karlsson stýrir. Á sviðinu hennar Maríu Th. Ólafsdóttur er barnaherbergi með öllu þessu venjulega, rúmi, fataskáp og eldhúsdóti, en líka gamaldags kistu og rólu. Þetta hljómar sakleysislega en þegar leikhústöfrarnir bætast við  reynist fataskápurinn botnlaus uppspretta alls konar fyrirbæra, rúmið reynist heimkynni sokkaskrímslisins ógurlega og upp úr kistunni flýgur jólaskraut og skreytir í einu vetfangi allt herbergið frá gólfi til lofts. Eins og þetta sé ekki nóg leika þau sér að því Signý Rós Ólafsdóttir myndbandshönnuður og Jóhann Bjarni Pálmason ljósameistari að skapa bæði ólík dægur og ólík veður á glugga svo að stundum var maður feginn að vera inni en ekki úti í beljandi hríðinni! Fullkomin umgjörð utan um elskulega barnasýningu.

Í herberginu býr stelpan Lára (Þórey Birgisdóttir) ásamt Ljónsa sem ýmist er krúttlegt mjúkdýr eða inniljón í fullri líkamsstærð (Bjarni Kristbjörnsson) eftir því hvort Lára er ein eða aðrir sjá til. Mamma virðist aðallega vera í símasambandi við heimilið og það er pabbi (Kjartan Darri Kristjánsson) sem hugsar um telpuna. Hann er góður pabbi en týpískur fullorðinn maður að því leyti að hann á í vandræðum með töfra. Lára á vininn Atla sem Kjartan Darri leikur líka og skipti sér lipurlega á milli þessara ólíku persóna. Ég hugsa að einhver börn hafi orðið hissa á að pabbi skyldi ekki koma fram og hneigja sig í lokin – mætti ekki alveg láta Kjartan hneigja sig fyrir þá báða?

Sagan snýst um dæmigert nútíma-jólaefni. Það er desember og Lára, Ljónsi og Atli fá í skóinn, og þau vorkenna jólasveinunum að þurfa að vera úti allar nætur á flakki milli húsa í heiminum. Svo lenda jólasveinarnir í vandræðum – kannski út af covid-19? – og Ljónsi þarf að sýna hvað er í hann spunnið því ekki mega börnin verða fyrir vonbrigðum.

Satt að segja er sagan frekar rýr og söngtextarnir líka þótt lögin séu sæt. En hversdagurinn í lífi Láru er sjarmerandi og samleikur þeirra þriggja, Þóreyjar, Kjartans og Bjarna, fjörugur og fyndinn. Ég var hrifnust af þætti sokkaskrímslisins sem var skemmtilega útfært og hæfilega ógnvænlegt.

Það skiptir nú minnstu hvað ömmunni fannst um verkið. Félaga mínum nærri fjögurra ára fannst þetta mjög gott leikrit og ákaflega skemmtilegt. Hann tók innilegan þátt í áhyggjum Láru af Ljónsa úti í vonda veðrinu og viknaði af feginleik þegar hann sneri aftur heim til hennar.

 

Silja Aðalsteinsdóttir