Trúðarnir Úlfar (Bergur Þór Ingólfsson) og Bella (Kristjana Stefánsdóttir) eru enn komnir á fulla ferð á litla sviði Borgarleikhússins. Þeir hafa áður fært okkur Dante og Virgil í Gleðileiknum guðdómlega og sjálfan Jesú litla frá Nasaret. Í trúðaóperunni Sókrates sem var frumsýnd í kvöld er það heimspekin sem þeir kanna á sinn sérstæða hátt. Með sér hafa þeir nú félaga sína Guðrúnu (Kristín Þóra Haraldsdóttir) og Ronju (Maríanna Klara Lúthersdóttir) sem kunna svona líka prýðilega við rauða nefið.
Síðast sáum við At í Borgarleikhúsinu sem fer fram í hnefaleikahring. Sviðið í Sókratesi er sirkushringur, algert snilldarverk Egils Ingibergssonar, hönnuðar leikmyndar og lýsingar. Þessi einfaldi hringur tók á sig margskonar myndir og munstur, ýmist kyrr eða iðandi eins og þegar siglt var úti á reginhafi. Einnig er einkar hentug súla á miðju sviði sem getur horfið alveg ofan í gólfið en líka risið upp í hæðir, ruggað til og jafnvel opnast og orðið að tunnu. Á jaðri hringsins eru geysihagleg göt sem hægt er að stinga prikum ofan í og búa til það fangelsi sem söguhetja okkar er í allan leikinn.
Við erum stödd í Aþenu fyrir tvöþúsund fjögurhundruð og sextán árum. Heimspekingurinn Sókrates (Úlfar) hefur verið handtekinn og dæmdur til dauða fyrir vantrú og að spilla ungdómnum. Meðan farmennirnir Pásanías (Ronja) og Patróklos (Guðrún) flytja eitrið yfir hafið sem á að drepa Sókrates reynir auðugur vinur hans, Kríton (Bella), að fá Sókrates til að flýja úr fangelsinu; Kríton er tilbúinn til að múta fangavörðunum með háum upphæðum. En Sókrates vill ekki flýja. Eiginkonan Xanþippa (Guðrún) reynir að koma fyrir hann vitinu (og hún var ekki skass, ef þið haldið það, hún var bara kona með skoðanir); ungur sonur hans (Ronja) kemur líka í heimsókn, dásamlega sköpuð brúða; lærisveinninn Platón (Ronja) kvelst öllum kvölum yfir því að meistari hans skuli eiga að deyja svo grimmum dauðdaga, en ekkert bítur á Sókrates. Hann vildi hlíta lögunum þótt þau væru ranglát. Enda lifir hann enn, því eins og hann sagði sjálfur: „Góðum manni getur ekkert grandað, hvorki lífs né liðnum.“ Af öllu þessu draga trúðarnir okkar þá ályktun að við eigum að vera heiðarleg og góð í lífinu, deila með öðrum og sýna ást og samúð, þá farnist okkur vel. „Hvað eykur alheims hag?“ spyrja þau í lokin og svara sér sjálf: „Faðmlag.“
Þessi dapurlega saga og hjartnæmi boðskapur eru sett fram á ærslafenginn hátt eins og hæfir rauðum nefjum. Trúðarnir gleyma aldrei hinu tvöfalda eða þrefalda hlutverki – leikarinn leikur trúðinn en trúðurinn leikur hlutverkin. Mitt í dramatíkinni gægist trúðurinn fram undan persónu sinni og glottir: Já, var þetta ekki æðislega gott hjá mér? Og við hlæjum hátt að öllu saman.
Lögin hennar Kristjönu eru fjölbreytt og skemmtileg, sum jafnvel frábær, og rödd hennar er stór og fögur. Hinir trúðarnir syngja nákvæmlega eins vel og til er ætlast. Og textar Bergs Þórs eru verulega skondnir. Í búningum Stefaníu Adolfsdóttur ægir öllu saman á hressilegan hátt en sérstaka athygli vakti búningur Ronju sem var fagurrauður með löngum löfum. Leikstjóri með Bergi Þór var Rafael Bianciotto sem er aðdáendum trúðanna að góðu kunnur.