Ég sá það á netinu að þegar Andaðu (Lungs) eftir Duncan Macmillan var sýnt í breska Þjóðleikhúsinu þá tók það 80 mínútur. Miðað við næstum tveggja klukkustunda leiklestur Heru Hilmarsdóttur og Þorvalds Davíðs Kristjánssonar í Iðnó í kvöld hefur það væntanlega verið stytt þarna úti því þau Hera og Þorvaldur voru sannarlega ekki að slóra neitt við flutninginn. Það var Þórey Sigþórsdóttir sem stýrði ungstirnunum tveim.
Unga parið er í IKEA í upphafi leiks þegar hann spyr þeirrar örlagaríku spurningar hvort þau eigi að eignast barn. Stúlkan fer alveg í flækju. Henni finnst þetta gríðarlega alvarlegt mál, enda hefur hún áhyggjur af ástandi heimsins í nútíð og framtíð. Það besta sem við getum gert fyrir heiminn er að láta okkur hverfa, alls ekki að bæta manneskju við! En löngunin til að fjölga sér er sterk og þegar fólk hefur orðað svona hluti upphátt þá hverfa þeir ekki. Það næsta sem við vitum er að þau eru að reyna að verða ólétt. Það tekst – en þó ekki, og þau skilja að skiptum. En tilfinningarnar eru ekki dauðar og ekki þarf mikið til að fá eld í glæðurnar á ný. Eftir það herðir sagan heldur betur á sér og áður en lýkur er heil mannsævi liðin.
Þetta er fantalega vel skrifað verk og samtölin svo þétt að stundum eru þau eins og skothríð þar sem jafnvel er skotið úr báðum áttum í einu þannig að maður má hafa sig allan við til að ná öllu sem þau segja. Því þau eru ekkert að fara með fleipur. Þetta er vel gefið og víðsýnt fólk sem hefur hugsað um framtíð jarðar og mannkyns og vill láta gott af sér leiða. Ég á erfitt með að ímynda mér hvernig á að sviðsetja verkið svo ég vona að það komist á svið – þó ekki sé nema til að sanna fyrir mér að það sé hægt. Persónur beggja eru skýrar og forvitnilegar frá höfundar hendi og Heru og Þorvaldi tókst vel að láta textann lifna þó að þau væru með handrit í höndunum.
Þýðingin var eftir Heru sem leggur sig fram um að ná hraðanum í stílnum og hafa orðræðuna sem allra nútímalegasta. Mér fannst það takast vel en eins og stundum áður leiðist mér þessi klifun á blótsyrðinu fokk og fokking. Það var mikill léttir þegar andskotinn fékk að leysa það af einstaka sinnum!