Saga, samtíð og flóknar heimildir
Guðmundur Magnússon: Séra Friðrik og drengirnir hans – Saga æskulýðsleiðtoga.
Ugla útgáfa, 2023.
Úr Tímariti Máls og menningar, 1. hefti 2024.
Engin þeirra bóka sem bárust með jólabókaflóðinu árið 2023 hefur vakið viðlíka viðbrögð og haft eins miklar opinberar afleiðingar og hin nýja ævisaga séra Friðriks Friðrikssonar (1868–1961) sem stofnaði meðal annars KFUM og íþróttafélögin Val og Hauka. Fyrstu fréttir bárust af henni þegar höfundurinn, sagnfræðingurinn Guðmundur Magnússon, kom í Kiljuna til Egils Helgasonar 25. október og greindi þar meðal annars frá því að hann hefði þurft að takast á við vandasamt verkefni við ritun bókarinnar: Hvernig fara ætti með heimildir, svo sem sendibréf og sjálfsævisöguleg skrif, sem sýndu fram á djúpstæða ást Friðriks á drengjum og ungum mönnum og mögulega kynferðislega misnotkun á börnum. Næstu daga og vikur fóru fram líflegar umræður í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum þar sem fólk kom ýmist af fjöllum eða sagðist hafa vitað af þessu áratugum saman. Sumir gagnrýndu Guðmund fyrir að varpa annarlegum skugga á arfleifð látins manns sem gæti ekki svarað fyrir sig en á sama tíma komu fram frásagnir fleiri manna sem greindu frá því að Friðrik hefði þuklað á þeim, kysst þá og farið yfir mörk þeirra, auk þess sem talskona Stígamóta greindi frá því að fleiri en einn þolandi hans hefði leitað til þeirra.
Opinber viðbrögð létu heldur ekki á sér standa. Forsvarsmenn KFUM og KFUK hvöttu þolendur til að hafa samband, buðu þeim faglega aðstoð og stuttu fyrir jól sendi hreyfingin frá sér tilkynningu þar sem sagði að vitnisburðir sýndu að hafið væri „yfir skynsamlegan vafa“ að Friðrik hefði í raun áreitt drengi kynferðislega. Í lok nóvember bárust enn fremur fréttir af borgarráðsfundi í Reykjavík um að stytta Sigurjóns Ólafssonar myndhöggvara af Friðriki með ungum dreng, sem stóð við Lækjargötu, yrði tekin niður og sett í geymslu og Valur hefur einnig fjarlægt styttu af Friðriki af lóð félagsins. Bók Guðmundar um séra Friðrik og drengina hans hefur með öðrum orðum haft mjög mikil áhrif á orðspor og opinbera minningu manns sem í heila öld var nánast talinn til dýrlinga og dýrkaður fyrir æskulýðsstarf sitt.
Það er ekki einfalt mál að skrifa svona bók og óhjákvæmilega vakna, bæði hjá höfundi og lesendum, ýmsar spurningar varðandi efnistök, aðferðafræði og framsetningu. Sumar þeirra kristallast í formlegri afsökunarbeiðni sem KFUM og KFUK sendu frá sér 20. desember þar sem þolendur Friðriks eru einlæglega beðnir afsökunar og harmað er „að félagið hafi ekki verið vakandi fyrir þessari hegðun stofnandans á sínum tíma“. Í þessum ummælum felst erfið spurning sem varpar ljósi á flókið samband nútíðar og fortíðar: Er hægt að vera „vakandi“ fyrir hegðun sem á þeim tíma var ef til vill liðin upp að ákveðnu marki? Sveifluvídd samfélagslegra siðferðispendúla var býsna mikil samfara nútímavæðingu íslensks samfélags á fyrri hluta 20. aldar. Í dag fordæmum við af öllu hjarta kynferðislega ágengni fullorðinna í garð barna en á sama tíma kippa fæstir sér upp við að fá boðskort í hjónavígslu Hreggviðs og Ásgeirs. Það er þó ekki ýkja langt síðan samkynja ástir jafningja og rómantísk eða jafnvel kynferðisleg ást fullorðinna á börnum var lögð að jöfnu. Hvernig nálgumst við heimildir sem eru bersöglar um hegðun og tilfinningar sem vekja með flestum óhug í dag? Og umfram allt: Hvernig á að fara með heimildir sem lýsa þessum óhugnaði á hversdaglegan og einlægan hátt, þvert á allar skrímslahugmyndir nútímans um barnaníðinga?
Drengirnir – og fjarvera stúlknanna
Það sem vekur einna fyrst athygli við bók Guðmundar er titillinn, Séra Friðrik og drengirnir hans, og sú ákvörðun að setja samskipti Friðriks við drengi og pilta í forgrunn. Þetta gæti virst nokkuð róttæk nálgun, það er að leggja sérstaka áherslu á þennan viðkvæma þátt í heilli ævisögu manns sem gerði vissulega ýmislegt markvert og hafði mikil áhrif á samtíma sinn. Þegar lesturinn hefst kemur hins vegar fljótlega í ljós að ást á drengjum og samvera með þeim er ekki bara einn þáttur af mörgum í ævi og sögu Friðriks heldur aðalatriði hennar og miðpunktur – allt hans starf og einkalíf á fullorðinsárum virðist hafa verið markað af löngun hans til að kynnast drengjum og piltum, vinna með þeim, sjá þá þroskast og dafna og vera í návistum við þá. Af þessari ástríðu sprettur hið umfangsmikla æskulýðsstarf sem Friðrik er frægastur fyrir. Það er því alls ekki óeðlilegt að leggja áherslu á þau hundruð ef ekki þúsundir drengja sem Friðrik starfaði með þegar saga hans er rituð. Málið flækist hins vegar þegar kemur að eðli samskiptanna eins og við víkjum betur að hér á eftir.
Drifkrafturinn og drengjaástin endurspeglast í andhverfu sinni: Stækri andúð Friðriks á stúlkum. Í bók Guðmundar kemur fram að allt starf hans miðaðist leynt og ljóst við drengi og í hugarheimi hans var aldrei gert ráð fyrir stúlkum. Vissulega var stúlkum ekki ætlað sama hlutverk og drengjum í íþrótta- og æskulýðsstarfi fram eftir öldinni, og þeim var oftast skipað skör neðar, en að ætla þeim ekkert rými er mögulega einsdæmi. Þessi heimssýn Friðriks endurspeglast einnig í útgefnum skáldverkum hans, til dæmis sögulegu skáldsögunni Sölva (1947–1948) sem fjallar um náið samfélag og vináttu drengja og karla en stúlkur koma nánast hvergi við sögu, jafnvel þótt söguhetjurnar séu piltar á kynþroskaaldri og kvænist.1 En stúlkur hrifust líka af atorkusemi Friðriks og reyndu að ná athygli hans og virkja krafta hans í sína þágu. Kostulegasta og ef til vill mest lýsandi dæmið er saga af stúlku á Akranesi sem klæddi sig upp eins og dreng til að komast nálægt Friðriki og þiggja koss og knús (bls. 408–409). Með öðrum orðum, stúlkur þurftu að verða að drengjum til að fanga athygli Friðriks.
Heimildirnar og saga kynverundar
Bókin er vel skrifuð og aðgengileg, henni fylgja margar myndir og textinn flæðir vel og er studdur ríkulegum tilvísunum í heimildir. Helst ber þar að nefna skjalasafn Friðriks sem er í vörslu KFUM og KFUK og inniheldur meðal annars sendibréf, minnisbækur, ræður og önnur skrif og óútgefnar endurminningar. Einnig styðst höfundur við endurminningabækur Friðriks sem komu út á dönsku og íslensku á árunum 1928– 1946, Bókina um séra Friðrik (1968) eftir Herstein Pálsson og önnur skrif um manninn, auk viðtala í blöðum og tímaritum. Loks ber að nefna bréfasafn Eggerts Claessen á Þjóðskjalasafni Íslands en bréf Friðriks til hans, skrifuð undir lok 19. aldar, urðu einmitt kveikjan að því að Guðmundur réðst í það verk að skrifa ævisöguna. „Það sem vakti athygli var að þau höfðu alla ásýnd ástarbréfa,“ segir Guðmundur í fyrrnefndum Kiljuþætti og nefnir réttilega að lítið sé um heimildir um samkynja ástir á Íslandi frá þessum tíma.2 Þessi bók er með öðrum orðum ekki bara enn ein ævisaga karls sem gerði merkilega hluti heldur frá upphafi hinseginsögulegt verkefni – merkilegt framtak á sviði sögu kynverundar – og því er ekki úr vegi að huga nánar að þeirri hlið bókarinnar.
Aðferðin sem Guðmundur beitir við skrifin er að láta heimildirnar tala án þess að draga of miklar ályktanir. Þetta er oft áhrifamikið því heimildirnar eru stórmerkilegar, ekki síst skrif Friðriks sjálfs, og gríðarlegur fengur fyrir sagnfræðinga og annað áhugafólk um sögu samkynja ásta, kynverundar og tilfinninga fyrir miðja 20. öld. Hvað þýðir það til dæmis þegar 23 ára gamall Friðrik segir um 16 ára gamlan ungling: „Ég þráði hann á hverjum degi“ og „það var unun að sjá hina ungu karlmennsku hans“? (bls. 55) Eða þegar hann skrifar 14 ára gömlum dreng, segist unna honum meira en öllum öðrum og sendir honum „sannan vinarkoss“ (bls. 61–64)? Hvaða merkingu hefur það að strax í kringum tvítugt er Friðrik farinn að safna í kringum sig drengjum á kynþroskaaldri og að hann haldi því áfram út ævina? Eða að hann hafi alla tíð lagt sig eftir því að gefa sig á tal við ókunnuga drengi á götum úti og vingast við þá? Ritaðar lýsingar hans á útliti og fasi drengja og pilta eru ítarlegar og munúðarfullar – hann hikar ekki við að lýsa þeim sem fallegum, yndislegum og vel vöxnum – en hann sýnir konum nær enga athygli, allra síst munúð eða þrá.
Allt eru þetta spurningar sem gaman hefði verið að fá svör við, eða í það minnsta umræðu um, en tilraunir til túlkunar eru því miður fáséðar í bók Guðmundar. Lesendum er látið eftir að draga eigin ályktanir út frá heimildunum, sem gæti þótt vænleg aðferð en ef samhengið vantar er hætt við að myndin verði skökk og jafnvel skæld. Það er rétt hjá Guðmundi að tiltölulega fátt er vitað um samkynja ástir í kringum aldamótin 1900 en það þýðir ekki að við vitum ekkert – þvert á móti hefur ýmislegt verið ritað um það efni í íslensku samhengi á undanförnum árum. Sem dæmi má nefna rómantíska vináttu og ástarsambönd pilta í Lærða skólanum í Reykjavík en Friðrik gekk einmitt í þann skóla á árunum 1886– 1893, örfáum árum á eftir Ólafi Davíðssyni þjóðsagnasafnara.3 Í rammagrein (bls. 66–67) ræðir Guðmundur stuttlega Lærða skólann, sveinaástir Forn- Grikkja sem piltarnir kynntust í gegnum námsefnið þar og dagbókarfærslur Ólafs sem lýsa ástarsambandi hans við skólafélaga sinn. Hann staðsetur Friðrik lauslega í þessu samhengi en hér hefðu margir lesendur eflaust haft gagn af nánari umfjöllun um samtímahugmyndir um kynverund, svo sem rómantíska vináttu og hómósexúalisma, sem eru talsvert frábrugðnar hugmyndum dagsins í dag. Það hefði í það minnsta getað auðveldað þeim að draga ályktanir út frá heimildunum sem höfundur leggur fram.
Lesendur eru heldur ekki settir vel inn í lagalegt og samfélagslegt samhengi hómósexúalisma þegar komið er inn á 20. öldina. Höfundur greinir frá stórmerkilegum heimildum sem eru bréf til Friðriks frá klæðskera að nafni Guðmundur Bjarnason, en hann var mjög virkur í starfi KFUM og góður vinur Friðriks. Árið 1913 trúir hann Friðriki fyrir mestu raun lífs síns og biður um fyrirbæn, „jeg er født homoseksual,“ segir hann og slík er skömmin að hann getur ekki sagt þessi merkingarþrungnu orð á íslensku (bls. 310). Ellefu árum síðar, í lok mars 1924, skrifar hann Friðriki um sjálfsvígshugsanir sínar, segist vera að yfirgefa landið vegna sífelldrar sorgar og eirðarleysis og vitnar í orð Jesú til lærisveinanna: „Ef hönd þín eða fótur tælir þig til falls, þá sníð hann af og kasta frá þér.“ Guðmundur Magnússon nefnir að bréfið frá 1913 sé elsta dæmið sem fundist hafi um orðið homoseksual í rituðu máli hér á landi og tekur vissulega fram að kynmök fólks af sama kyni hafi verið bönnuð lögum samkvæmt á Íslandi frá 1879 (bls. 310). Hann undirstrikar enn fremur tilvísun Guðmundar B. í orð Krists en lætur lesandanum eftir að klára hugsunina og tengingarnar, til dæmis að augljóst sé að Guðmundur B. hafi í mars 1924 verið að glíma við hugsanir sem teldust synd samkvæmt kristinni trú, sem sagt hómósexúalisma.
Hér vantar enn fremur mikilvægt samhengi sem er sú staðreynd að þegar Guðmundur B. skrifar Friðriki og segir honum að hann sé að yfirgefa Ísland, fullur sjálfshaturs, standa yfir réttarhöld í Reykjavík þar sem Guðmundur Sigurjónsson, glímukappi og ólympíufari, er ákærður fyrir að hafa átt samræði við karlmenn, en hann varð að lokum fyrsti og eini maðurinn sem sakfelldur var fyrir slíkan glæp á Íslandi.4 Réttarhöldin vöktu nokkra athygli í blöðum og voru umtöluð í Reykjavík einmitt þessa fyrstu mánuði ársins 1924. Þau hljóta því að hafa haft mikil áhrif á Guðmund Bjarnason – og mögulega Friðrik líka. Hér vakna óhjákvæmilega spurningar um að hve miklu leyti Friðrik samsamaði sig hugmyndum um hómósexúalisma og örlögum Guðmundanna tveggja. Auðvitað er ómögulegt að svara slíku fyrir víst en umræða um efnið hefði bætt mikilvægri vídd við bókina.
Djöfullinn og snörur hans
Trúin og sú heittrúarstefna sem Friðrik aðhylltist eru eðlilega einnig mikilvægt stef í bók Guðmundar. Ein forvitnilegasta birtingarmynd trúarinnar í hugmyndaheimi Friðriks og samhengis hennar við ástríðu hans til drengja er samband hans við KFUMprestinn Olfert Ricard sem hann kynnist í Kaupmannahöfn árið 1895. Þeir urðu bestu vinir og sálufélagar, og ævisöguritari Ricards lýsti sambandi þeirra síðar sem einu „undarlegasta vináttusambandi“ sem hann hefði séð (bls. 99), líklega meðal annars af því að þegar þeir hittast eftir langan aðskilnað faðmast þeir og kyssast og láta eins og elskendur (t.d. bls. 368–369). Ricard fór ekki í grafgötur með ást sína á körlum og drengjum fremur en Friðrik, hann skrifar vini sínum að hann elski og sé ástfanginn af mönnum (bls. 106) og þótt það mál hafi ekki verið gert upp hefur Guðmundur eftir sóknarpresti í Garnisonkirkju, þar sem Ricard þjónaði, að það hafi verið opinbert leyndarmál í Danmörku að hann hafi misnotað drengi (bls. 106–107). Þeir félagarnir eiga með öðrum orðum ýmislegt sameiginlegt og Friðrik segir í endurminningunum að Ricard hafi verið sér „ut alter ego“ eða tvíburasál (bls. 98). Hér er að því er virðist um að ræða ástarsamband jafningja, sem sýnir að þótt Friðrik hafi líklega verið haldinn því sem við myndum nú kalla pedófílíu eða barnagirnd var hann líka trúlega hneigður til karla. Kynverund hans er flóknari en svo að hægt sé að afgreiða hana með barnaperrastimpli samkvæmt nútímaviðmiðum.
Úr sambandi Ricards og Friðriks má lesa ýmislegt um tengsl trúar, syndar og kynverundar og þótt heimildir skorti sem sýni hvernig Friðrik leit á sig og sínar hneigðir má spegla hann í skrifum Ricards. Hér, eins og áður, missir höfundur hins vegar af tækifæri til að túlka heimildirnar á áhugaverðan hátt. Í rammagrein (bls. 128–130) vitnar hann í bréf Ricards til Friðriks þar sem sá fyrrnefndi segist þrá að játa misgjörðir sínar og syndir fyrir vini sínum og viðurkennir að djöfullinn hafi lagt fyrir sig snörur. En hvaða og hvers konar syndir, misgjörðir og djöflasnörur er Ricard að tala um? Þekkt er að trúarorðræða var notuð sem skálkaskjól fyrir „ástina sem ekki þorir að nefna nafn sitt“ meðal samtímafólks Ricards og Friðriks, það er sem rammi utan um samkynja langanir sem ekki mátti ræða beinum orðum og jafnvel sem leið til að komast hjá því að horfast í augu við slíkar kenndir og gjörðir.5 Það var auðveldara að kenna djöflinum um freistingarnar en að gangast við því að hneigjast til þeirra og mögulega er þetta ein af ástæðum þess hve heittrúaður Friðrik var.
Trúmennirnir Friðrik og Ricard voru uppi á tímamótum hvað varðar hugmyndir um hómósexúalisma eða samkynhneigð á Vesturlöndum (sem á þeim tíma var líklega talin verri löstur en barnagirnd). Hún var að færast frá því að vera álitin glæpsamleg synd, og þar með viðfangsefni kirkjunnar og dómstóla, yfir í að vera talin sjúkdómur.
Allar þessar hugmyndir endurspeglast í bréfum Ricards og Friðriks sem gefur þeim ákveðið val um hvernig þeir túlka og staðsetja eigin tilfinningar. Báðir vita að það er glæpsamlegt athæfi að ganga of langt kynferðislega með drengjum, enda var forystumaður dönsku KFUMhreyfingarinnar og góðvinur Ricards, Axel Jørgensen, kærður fyrir að leita kynferðislega á unglinga árið 1895 og í kjölfarið rekinn úr hreyfingunni. Ricard fræðir Friðrik um mál Jørgensens allt frá upphafi og segir hann haldinn „sjúkdómi af hræðilegustu tegund“ (bls. 102). Líklegt má telja að tal hans um snörur djöfulsins frá svipuðum tíma hafi verið tilraun til að fjarlægja sig frá þessum sama sjúkdómi. Friðrik virðist líka vera meðvitaður um að hluti af hans eigin tilveru liggi utan við samfélagsleg viðmið, alla vega á ungdómsárunum í Kaupmannahöfn. Hann talar þá um að dansa á dýnamíti og forðast að vekja athygli þegar hann er einn með drengjum (bls. 82–84) en slíkt er minna áberandi í skrifum hans eftir að hann hefur fundið þrá sinni til drengja farveg á Íslandi. Hann vakti þó svo sannarlega athygli – um það vitna fjölmargar sögur um umgengni hans við drengi sem ekki öllum þótti þægileg.
Að lokum
Bók Guðmundar Magnússonar um séra Friðrik og drengina hans lýkur á þessum orðum:
Séra Friðrik Friðriksson reynist hafa verið margslungin persóna. Reynt hefur verið án tilfinningasemi og hlutdrægni að varpa ljósi á fleiri hliðar á persónu hans en gert hefur verið fram að þessu með það að markmiði að sýna manninn sjálfan af holdi og blóði með verðleikum sínum og veikleikum. Lesendur verða síðan sjálfir að vega og meta það sem hér er dregið fram. (bls. 440)
Höfundur kann sannarlega listina að draga heimildir ljóslifandi fram og láta þær tala sínu máli. Hann undirstrikar gjarnan áherslur sínar á hómóerótík og drengjaaðdáun Friðriks í kaflafyrirsögnum og laumar stundum inn mögulegum túlkunum, gjarnan í formi spurninga, í lok kafla. Þær verða því aldrei ágengar og trufla ekki lesendur sem vilja fá að draga sínar ályktanir í friði. Bókin er af þeim sökum aðgengileg og þægileg aflestrar um leið og hún opnar glugga inn í hugarheim sem nútímalesendur þekkja líklega fæstir vel.
Í þessari framsetningu liggur hins vegar einnig stærsti ágalli verksins. Eins og áður hefur verið vikið að er heimildasafnið sem Guðmundur hefur úr að moða efnismikið og einstakt í sinni röð, sérstaklega bréfasafn Friðriks. Þrátt fyrir að standa viðfanginu nærri eru heimildir á borð við sendibréf ekki milliliðalaus tengiliður við fortíðina. Þau eru flókið samskiptaform sem getur falið í sér einlægar lýsingar á innstu sálarkimum, miskunnarlausar lygar og blekkingar og allt þar á milli. En umfram allt eru sendibréf sviðsetning, bundin í klafa tíðarandans, tungumáls hans og hugmyndaheims.6 Guðmundur er meðvitaður um takmarkanir persónulegra heimilda og dregur fram ósamræmi, til dæmis milli endurminninga Friðriks og bréfasafns hans. Þegar um svona flóknar heimildir er að ræða, þar sem viðfangsefnið er tilfinningar sem eru svo rækilega staðsettar utan við samfélagsleg viðmið að það er eiginlega ekki hægt að orða þær upphátt – nema kannski á dönsku – reynir hins vegar á hlutverk sagnfræðingsins sem túlkanda. Hugmyndakerfi 21. aldar um ást, rómantík, kynlíf og hvernig við drögum mörkin milli hins leyfilega og óleyfilega er ekki sérstaklega gagnlegt tól til að greina slíkar heimildir. Þær og Friðrik sjálfur eru í bók Guðmundar ekki nema mjög lauslega staðsettar í samhengi hinsegin sögu og sögu kynverundar, sem verður að teljast löstur á verki sem spratt upp af löngun til að kanna samkynja ástir. Hér hefði höfundur með öðrum orðum gjarnan mátt stíga ákveðnar til jarðar.
Eitt augljósasta dæmið um samhengi sem lesendur skortir upplýsingar um eru hugmyndir um hómósexúalisma annars vegar og pedófílíu hins vegar, sem nú til dags eru aðskildar, gjarnan á mjög afgerandi hátt, og rammaðar inn af skrímslaorðræðu þar sem barnaníðingar eru ógeð og samkynhneigð eðlileg. Hvort tveggja var hins vegar hluti af sömu orðræðu í upphafi 20. aldar, orðræðu sem er í grundvallaratriðum gerólík hugmyndum samtímans. Dæmi um spurningar sem aldrei er beinlínis varpað fram í bókinni eru: Hver og hvað var Friðrik í þessu samhengi? Hvaða augum leit hann sjálfan sig og hvaða augum er eðlilegt að líta hann miðað við siðferðismat samtímans? Eins og áður segir er ólíklegt að hægt sé að svara slíkum spurningum á haldbæran hátt en umræðan er engu að síður mikilvæg.
Í þessu samhengi er áhugavert að velta fyrir sér hugmyndum Friðriks um vináttuna en eins og Guðmundur dregur fram er hún grunnstef í hugarheimi hans; allt hans starf með drengjum og þrá hans eftir návistum við þá var undir þeim formerkjum. En hvað átti Friðrik við með vináttu? Lagði hann sama skilning í hana og drengirnir sem hann þráði svo heitt að stofna til vináttusambands með? Sagnfræðingar á sviði kynverundar hafa löngum rannsakað óljós mörk vináttu og ástar og hvernig samkynja ástarsambönd fundu sér stað innan hugmynda um vináttu. Flestir þeirra hafa þó beint sjónum sínum að samböndum fullveðja einstaklinga, enda er auðveldara að skrifa um ástir í meinum og elskendur sem ekki gátu unnast út af sögulega fjandsamlegum samfélagsviðmiðum en um þrá fullorðinna eftir börnum og unglingum. Slíkt er töluvert flóknara og Guðmundur á hrós skilið fyrir að hafa lagt af stað í slíka vegferð.
Það þarf hugrekki til að skrifa bók á borð við Séra Friðrik og drengirnir hans og þótt við höfum í þessum ritdómi kallað eftir annars konar nálgun á efnið – og hér skal tekið fram að við erum báðar fræðikonur á sviði hinsegin sögu og menningar – er rétt að ítreka mikilvægi verksins, bæði fyrir sögu kynverundar á Íslandi og samfélagslega umræðu um kynferðislegt ofbeldi. Til þess að geta horfst í augu við það samfélagsmein sem kynferðislegt ofbeldi gegn börnum er þurfum við að viðurkenna að slíkar kenndir eiga sér, líkt og allar aðrar kenndir, langa og flókna sögu. Ofbeldi getur verið kerfisbundið og þrifist innan samfélagsgerðar hvers tíma, eins og saga Friðriks sýnir, og saga kynferðisofbeldis er oft samofin valdastofnunum líkt og kirkjunni. Til þess að vinda ofan af slíku þurfum við að þora að rannsaka þessa sögu og Guðmundur Magnússon hefur tekið stórt skref í þá átt með þessari bók.
Ásta Kristín Benediktsdóttir og Hafdís Erla Hafsteinsdóttir
Tilvísanir
1 Sjá Ásta Kristín Benediktsdóttir. 2012. „Það var sem undraeldur brynni. Um mögulega hinsegin skáldsögu.“ Spássían 3,3: 22–25.
2 Egill Helgason. Kiljan. RÚV, 25. október https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/kiljan/32201/a005hv/sr-fridrik-og-drengirnir-hans-gudm-magnusson
3 Sjá Ólafur Davíðsson. 2018. Hundakæti: Dagbækur Ólafs Davíðssonar 1881–1884. Reykjavík: Mál og menning; Þorsteinn Vilhjálmsson. 2018. „„Að hafa svo mikið upp úr lífinu sem auðið er“: Ólafur Davíðsson og hinsegin rými í Lærða skólanum á nítjándu öld.“ Saga 56,1:49–79.
4 Sjá Þorvaldur Kristinsson. 2017. „Glæpurinn gegn náttúrlegu eðli: Réttvísin gegn Guðmundi Sigurjónssyni 1924.“ Svo veistu að þú varst ekki hér: Hinsegin sagnfræði og hinsegin saga á Íslandi. Reykjavík: Sögufélag, bls. 107–146.
5 Sjá umfjöllun um samtímakonur Friðriks, Ingibjörgu Ólafsson, framkvæmdastjóra KFUK, og sambýliskonu hennar Despinu Karadja: Ásta Kristín Benediktsdóttir, Hafdís Erla Hafsteinsdóttir og Íris Ellenberger. [án árs] „Rómantík og tilfinningar.“ Huldukonur: Hinsegin kynverund kvenna á Íslandi fyrir 1960. https://huldukonur.is/romantik-og-tilfinningar/ Sjá einnig John Boswell. 2015. Christianity, Social Tolerance, and Homosexuality: Gay People in Western Europe from the Beginning of the Christian Era to the Fourteenth Century. Frumútgáfa 1980. University of Chicago Press.
6 Sjá til dæmis Erla Hulda Halldórsdóttir. Ég er þinn elskari: Bréf Baldvins Einarssonar til Kristrúnar Jónsdóttur 1825–1832. Reykjavík: Háskólaútgáfan.