Eftir Kristínu Eiríksdóttur

Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2013.

Kristín Eiríksdóttir

Kristín Eiríksdóttir / Mynd: Saga Sig

Þau gátu ekki annað en tekið íbúðina. Hundrað og fimmtíu fermetrar á hundrað þúsund kall var fáránlega vel sloppið. Vinir þeirra hírðust margir hverjir í gluggalausum kjallaraherbergjum og borguðu svipað. Staðsetningin var líka fín, ekki frábær, ekki beinlínis í bænum, en samt ágæt. Leigusalinn virtist líka alveg ákveðinn í að þau væru framtíðarleigjendurnir. Ekkert annað virtist koma til greina.

Svo þau sögðust ætla að flytja inn um mánaðamótin. Um leið og þau misstu þrjátíu fermetra risíbúð í Norðurmýrinni sem þau höfðu leigt á hundrað og þrjátíu þúsund síðasta árið. Dóttir eigandans var óvænt á leið heim úr námi og þar sem Dáni og Æsa leigðu svart var ekkert hægt að gera. Þau fengu tvær vikur til að finna sér annað og tæma íbúðina.

Guð minn almáttugur, höfðu vinir þeirra, Katla og Gummi, sagt; þið endið í barnaherberginu hjá einhverjum fjarskyldum ættingja. Ástandið hefur versnað síðan þið voruð á leigumarkaðnum.

Fyrir ári síðan? hikstaði Æsa og Katla hristi höfuðið. Versnað um helming, þið trúið því ekki hvað viðgengst núna. Svo dró hún fram tölvuna sína og fann auglýsingu sem gengið hafði á facebook. Fjörutíu fermetra gluggalaus hellir í efra-Breiðholtinu á 170.000.

Skilurðu núna? spurði hún og Æsa fékk kökk í hálsinn. Dáni varð pirraður.

Þetta reddast alveg, sagði hann, í versta falli tjöldum við í Laugardalnum og það verður fínt. Við Æsa verðum bara í útilegustemningu þangað til restin flytur til Noregs og það losnar um íbúðir.

Honum er alveg sama, sagði Æsa og ætlaði að vera hneyksluð en varð samt svolítið stolt, honum væri í alvörunni sama þó að þau þyrftu að búa á götunni.

Hann vill að við lendum á götunni, flissaði hún.

Þið eruð heldur ekki með börn, sagði Katla og nú var hún orðin pirruð. Gummi bætti við að þar til börnin kæmu til sögunnar, skipti raunveruleikinn engu máli.

 

Um kvöldið þegar þau voru lögst til að sofa varð Æsa aftur áhyggjufull. Hún fór í huganum yfir alla sem hún þekkti og reyndi að rifja upp hvort einhver ætti sumarbústað sem stæði ónotaður, helst í innan við klukkutímakeyrslu frá Reykjavík. Hún vann í fatabúð við Laugaveg og þyrfti auðvitað að mæta í vinnuna.

Dáni var myndlistarmaður. Síðan hann útskrifaðist hafði hann bara ekki fengið nein tækifæri. Æsu fannst hann þurfa að sækjast meira eftir þeim en Dáni fullyrti að með hruninu hefði starfsvettvangur hans endanlega þurrkast út á Íslandi. Í bili kallaði hann atvinnuleysisbæturnar litlu listamannalaunin og naut þess að sinna myndlistinni frá morgni til kvölds. Þegar hann kæmi til með að missa réttinn á bótunum gæti hann farið á sjóinn en þangað til vildi hann ekki eyða tímanum í áhyggjur.

Hann vann semsagt heima og væri sama þótt þau dagaði uppi í draugabæ á Vestfjörðum. Reyndar hafði hann stundum talað um að þau gætu fundið eyðibýli fyrir vestan og gert það upp í rólegheitunum, eins illa og þeim sýndist, og ræktað jörðina.

Henni fannst það yfirleitt góð hugmynd í hálfa mínútu eða þangað til hún mundi hver hún var og að hún kæmi til með að sálast úr leiðindum ef hún fengi aldrei að hitta neinn nema Dána. Tortímast úr leiðindum ef hún þyrfti að horfa á sömu heiðina frá morgni til kvölds og bíða eftir að eitthvað grænt kæmi upp úr mold.

Helst vildi hún búa við Bankastrætið, geta lúskrast heim af djamminu hvenær sem var og stokkið síðan út á það aftur. Heyra niðinn af því þegar hún kaus að djamma ekki neitt. Kannski myndi hún drekka minna ef hún heyrði alltaf lætin í fólkinu. Þá hætti henni kannski að líða alltaf svona eins og hún væri að missa af einhverju.

 

Leiguíbúðin var auglýst á bland. Dáni fann hana og hafði samband við eigandann. Hann sagði að íbúðin hefði staðið tóm um nokkurt skeið og að þau mættu koma og skoða hvenær sem væri, hann byggi skammt frá og gæti komið með stuttum fyrirvara. Þau fóru strax og alla leiðina talaði Æsa um hvað Reykjavík væri ömurleg fyrir austan Snorrabraut.

Láttu ekki svona, sagði Dáni og fullyrti að Vogahverfið væri mjög gróið og notalegt hverfi. Kannski er garður, bætti hann við og Æsa sagðist glætan nenna að púla í leigðum garði.

Þú ert svo mikill eignarhaldsseggur, sagði hann alvarlegur og Æsa sagðist ekki einu sinni vita hvað það þýddi.

Að þú hugsar í gróða en ekki í raunverulegum gildum, reyndi hann að útskýra og fljótlega voru þau farin að rífast. Æsa táraðist við tilhugsunina um að Dáni teldi hana vera níska. Vegna þess að það var svo rangt en Dáni var heldur ekki að segja að hún væri nísk. Hann var að segja að hún væri upptekin af eignarhaldi almennt og það er annað en níska. Á endanum þurfti hann samt að endurtaka nokkrum sinnum að Æsa væri örlátasta manneskja sem hann þekkti – sem var líka satt – og þá varð hún aftur glöð, en engu nær um merkingu orðsins eignarhald.

Íbúðin var á efri hæð í tvíbýlishúsi og aftan við það var lítill illa hirtur garður, fullur af illgresi, drasli og háu gulu grasi. Leigusalinn stóð á tröppunum, kæfugrár eldri maður með skyggð gleraugu og í síðri úlpu. Hann var í hóstakasti þegar þau bar að húsinu en jafnaði sig síðan og rétti þeim höndina sem hann hafði borið fyrir hóstann skömmu áður.

Hann kynnti sig sem Hinrik og sagði útidyrnar vera bólgnar og kviklæstar en hann lofaði að láta laga það áður en þau flyttu inn.

Þau komu inn í flísalagt anddyri þar sem héngu yfirhafnir og skógrindin var full af skófatnaði. Lyktin var strax óþægileg, súr keimur af pípureyk. Æsa fitjaði upp á nefið og pírði augun inn á þröngan myrkvaðan gang.

Húsgögnin standa hérna enn, sagði Hinrik afsakandi og að það myndi henta honum langsamlega best ef þau fengju að vera þarna áfram.

Eru þetta þín húsgögn? spurði Æsa en maðurinn sagði að eigandinn hefði skilið við þetta svona og að enginn hefði fengist til að fjarlægja búslóðina.

Er hann dáinn? spurði hún og hann sagðist hreinlega ekki vita það. Hann hefði búið þarna í þrjátíu ár og síðan horfið sporlaust einn daginn. Hinrik var lögfræðingur systur hans sem lét auglýsa eftir honum og var áberandi í fjölmiðlafárinu sem fylgdi en svo hafði þessi systir harðneitað að skipta sér nokkuð af praktískum hliðum málsins. Til dæmis hafði hún aldrei komið heim til bróður síns og tekið hlutina hans. Allt var þetta mjög undarlegt, fannst Hinrik.

Og þér fyndist sem sagt best ef við byggjum með hlutunum hans án þess að breyta neinu? spurði Dáni.

Ja, þið getið náttúrulega róterað þessu alveg eins og þið viljið, þannig séð … bara ekki henda neinu sem virðist hafa eitthvert persónulegt gildi. Málið er semsagt að það verða að líða sjö ár frá mannshvarfi áður en hægt er að, já …

Og þú treystir okkur alveg til þess að meta hvað hefur gildi og hvað er drasl?

Já, þú meinar … Hinrik varð ráðvilltur á svip. Hvað með smádótið? Eins og fötin og svoleiðis?

Það væri í raun best ef þið kæmuð því öllu fyrir í einu herbergi. Þið þurfið nú örugglega ekki alla hundraðogfimmtíu fermetrana fyrir ykkur tvö.

 

Stofan var brúnmáluð. Sófasettið var bútasaumað úr hnausþykku leðri og allstaðar þar sem voru auðir fletir hafði verið komið fyrir minjagripum, fílum, strengjabrúðum og míníatúrum af hofum og kastölum.

Eldhúsið var snyrtilegt en á borðinu var diskur með mylsnu og tómur kaffibolli.

Hvað er langt síðan hann hvarf? spurði Dáni og maðurinn hugsaði sig um. Kannski ár núna, sagði hann, jú ætli það sé ekki liðið heilt ár.

Er þetta eftir hann? spurði Æsa og benti á diskinn og bollann.

Já, þetta … svaraði maðurinn. Ég hef það bara ekki í mér að vaska þetta upp.

Og þú vilt semsagt að við gerum það? spurði Dáni. Eða viltu að við búum hérna með þessum diski, mylsnunni og bollanum alveg ósnertu?

Maðurinn gretti sig. Ég veit að þetta virkar skrítið, sagði hann, málið er bara að það borgar sig ekki að íbúðin standi auð en í sjálfu sér má ég ekki snerta neitt. Systir hans samþykkti að ég setti hana í leigu en hún vildi ekkert skipta sér af því. Við erum svolítið í lagalegu tómarúmi hérna …

 

Svefnherbergið var stórt, glugginn vísaði út í garðinn og á hjónarúminu voru sængurfötin svört og kuðluð á gráu teygjulaki. Einn vegginn huldi fataskápur og á öðrum vegg hékk upplitað eftirprent af málverki eftir Gauguin. Nakin svarthærð stúlka sneri baki í áhorfandann, hélt hárinu í tagli og horfði á baksvip annarrar svarthærðrar stúlku sem kraup. Veggirnir voru málaðir eggjaskurnsbláir.

Við setjum hlutina hans hingað inn, sagði Dáni ákveðinn og Æsa kinkaði kolli. Hana langaði ekkert til þess að sofa í svefnherbergi horfna mannsins og þar að auki var þetta stærsta herbergið í íbúðinni fyrir utan stofurnar.

Já, sagði leigusalinn. Og svo er vinnustofan.

 

Veggi vinnustofunnar huldu bækur. Við gluggann var stórt skrifborð þakið pappírum og á því miðju stóð gömul kassalaga heimilistölva. Dáni rannsakaði kilina á meðan Æsa spjallaði við Hinrik. Engin skáldverk voru meðal bókanna, bara fræðirit og mestmegnis bækur um stjórnmál, ævisögur þjóðarleiðtoga og samtalsbækur. Flestar þeirra fjölluðu um kalda stríðið.

Hvað gerði hann? spurði Æsa, … eða gerir?

Hann er stjórnmálafræðingur, svaraði Hinrik, en ég veit samt ekki til þess að hann hafi unnið við það … eða hvort hann var kannski stundakennari í Háskóla Íslands? Eitthvað rámar mig í það.

Átti hann engin börn?

Nei, hann var, ef ég á að segja þér alveg eins og er, dálítið sérstakur. Systir hans sagðist ekki vita til þess að hann hefði nokkurn tímann verið við kvenmann kenndur.

Áttu ljósmynd af honum?

Ha … já, bíddu við. Hérna fann ég myndina sem var notuð þegar lýst var eftir honum í fréttunum … Hinrik opnaði skjalaskáp og tók upp glæra möppu með nokkrum ljósmyndum. Æsa blaðaði í gegnum þær og hafði á orði að þær væru allar frekar gamlar. Ein myndin var af tvítugum manni með stúdentshúfu, hinar voru eldri. Af litlum strák á tréhesti eða að leika sér með kassabíl. Hann var alltaf einsamall á myndunum.

Hann er svo mikið krútt, sagði Æsa brosandi og Dáni sagði að bækurnar væru nánast allar frá því fyrir fall Berlínarmúrsins.

Hann var mjög upptekinn af kalda stríðinu, sagði Hinrik annars hugar, og kjarnorkuvopnum. Hann minntist á atómsprengjur í hvert skipti sem við hittumst, held ég.

Þú þekktir hann semsagt?

Já, ekki mikið en ég hjálpaði systkinunum með dánarbú móður þeirra fyrir nokkrum árum síðan.

 

Þú gerir þér grein fyrir því, sagði Æsa, þegar þau voru komin í strætó og á heimleið, að þetta verður eins og að búa með manninum?

Já … svaraði Dáni og þagði um stund. Hundrað og fimmtíu fermetrar á hundrað þúsund kall er samt fáránlega vel sloppið.

Við þurfum að gera svo margt. Ég get til dæmis ekki búið í kúkabrúnni stofu og þegar við verðum búin að fylla öll herbergi af draslinu hans verða varla nema áttatíu fermetrar eftir. Og sástu baðherbergið? Ef það er ekki einhver viðbjóðs astma-sveppur undir þessu plastveggfóðri veit ég ekki hvað …

Hvað? Tókstu eftir því að hann minntist aldrei á það hversu lengi við fáum að vera þarna. Að minnsta kosti sex ár, Æsa, hugsaðu þér, við sleppum við leigumarkaðinn í sex ár. Kallinn vill bara losna við að hugsa um íbúðina. Sérðu ekki hvað þetta er gott tækifæri? Þar að auki langar mig í þessa vinnustofu. Það er fullt af bókum þarna sem ég get notað.

 

Það tók þau viku að þrífa íbúðina og koma henni í stand. Þegar Æsa minntist á það við Hinrik að hana langaði til þess að mála kom á hann sársaukagretta sem hún túlkaði samstundis sem neitun.

Hvað ef hann kemur aftur? spurði hún Dána. Hvað ef Hinrik veit einhvern veginn að maðurinn er ekkert dáinn og að hann gæti birst hvenær sem er. Þess vegna vill hann ekki að við málum og þess vegna má engu henda …

Líkurnar á því að maður sem hefur verið horfinn í heilt ár skili sér eru mjög, mjög litlar, Æsa. Í alvörunni.

En ef hann var svona sérstakur, þessi maður, getur þá ekki verið að hann hafi bara farið í heimsreisu og gleymt að láta vita af sér?

 

Þau fluttu inn um mánaðamótin. Svefnherbergið var stútfullt af minjagripum og drasli. Í borðstofunni var svefnsófi sem þau tóku út á hverju kvöldi og notuðu sem rúm. Fötin þeirra héngu á slám sem lokuðu gættinni yfir í hina stofuna. Þau áttu svo lítið af húsgögnum eftir að hafa þvælst á milli framleiguíbúða í nokkur ár að þau gerðu sér húsgögn mannsins að góðu. Brúna bútasaums-leðursófasettið stóð þarna ennþá, túbusjónvarp og palísander sófaborð með brunafari eftir sígarettu. Allt var samt tandurhreint. Æsa hafði skrúbbað hvern millimetra með undraefninu Leysigeisla og henni leið á meðan eins og hún væri að fjarlægja himnu af þornuðu slími af heimilinu.

Hún brenndi reykelsi og hengdi upp teikningarnar hans Dána, klingdi bjöllum og skvetti vatni í öll horn.

Komi þeir sem koma vilja, fari þeir sem fara vilja, veri þeir sem vera vilja, mér og mínum að meinalausu, muldraði hún.

 

Dáni vaknaði yfirleitt um hádegisbil, hellti upp á kaffi og settist inn á nýju vinnustofuna sína, sem hafði á hann hrollvekjandi aðdráttarafl. Hann fór í gegnum persónulega pappíra horfna mannsins, las í bókunum hans og fór í gegnum skjölin í tölvunni. Hann skoðaði hvert smáatriði vandlega og með hverjum degi sem leið fékk hann heildstæðari mynd í höfuðið. Í fyrstu var hann viss um að maðurinn hefði verið haldinn einhvers konar ofsóknarbrjálæði eða ranghugmyndum. Hann fann dagbækur þar sem allar færslurnar fjölluðu um njósnir Bandaríkjahers á Íslandi en þegar hann var búinn að lesa þær í gegn var það sem sat eftir í honum rökviss, kaldur tónn sem minnti engan veginn á mann í geðrofum.

Stundum fór hann á kaffihús eða á barinn með vinum sínum en honum fannst best að sitja heima í vinnustofunni, drekka bjór og lesa eða skissa mögulegar útfærslur á viðfangsefni sínu: kalda stríðinu í höfði horfna mannsins. Hann tók stöku bækur og skar út úr þeim setningar sem hann límdi á pappír. Hann reif síður úr dagbókum mannsins og notaði sem grunn og bjó til klippiverk sem líkti eftir útblásnu smáatriði á einni af ljósmyndunum af honum sem barni. Æsa kom heim seint á kvöldin, yfirleitt of drukkin til þess að vera samræðuhæf og fór aftur út áður en Dáni vaknaði.

 

Sem betur fór þurfti hún ekki að vera heima allan daginn eins og Dáni. Reyndar gerðist það æ oftar að hún fékk sér bita í bænum með vinkonum sínum og kíkti á barinn. Svo kom hún heim með síðasta strætó eða gekk ef hún missti af honum. Á virkum dögum þurfti hún að vakna snemma til þess að fara í vinnuna og aðra hvora helgi vann hún á hjúkrunarheimili. Staðreyndin var sú að henni leið ömurlega í nýju leiguíbúðinni. Henni fannst eins og þau byggju þarna þrjú: Hún, ósýnilegi kaldastríðs-kverúlantinn og Dáni sem talaði ekki um neitt annað en kalda stríðið.

Það sem hún hafði áður upplifað sem róttækt – jafnvel anarkískt – viðhorf til lífsins var farið að hljóma meira eins og eitthvað upp úr bók. Lærðar ræður sem byggðu allar á svarthvítri hugsun sem skipaði fólki í tvo flokka: illmenni og góðmenni. Þessar ræður hljómuðu kunnuglega og minntu hana á rifrildin í fjölskylduboðum æsku hennar. Afi hennar var vanur að skipa sér á bekk með góðmennum og ásaka viðskiptafræðinginn föður hennar um að vera sjálfhverfur arðræningi.

Allir voru sjálfhverfir og þá kannski sérstaklega Æsa, sem afinn áleit vera haldna þeirri ranghugmynd að hún gæti fengið allt fyrir ekkert. Þegar hann var ungur maður og barðist með verkalýðsfylkingunni fyrir bættum kjörum alþýðunnar hafði hann ekki órað fyrir að árangurinn lýsti sér í húðlötum ungmennum sem steyptu efnahag landsins á hvolf með því að komast á vanskilaskrá fyrir þrítugt og úða svo í sig gullflögum til að fagna.

Þetta er ekki svona einfalt Dáni, sagði hún einhverju sinni þegar Dáni var nýbúinn að láta dæluna ganga um heilaþvott bandarískrar menningar. Heilaþvotturinn fólst í því að láta fórnarlambið telja sig eiga val en berstrípa það síðan öllu og þar með væri skorturinn lítilmagnanum sjálfum að kenna.

Ekki svona einfalt? sagði Dáni og kveikti sér í pípunni sem hann hafði fundið í skúffu horfna mannsins og vanið sig á að reykja nýlega – í sparnaðarskyni. Útskýrðu endilega fyrir mér hvernig þetta er eitthvað flóknara?

Ég meina bara að það hlýtur að vera hægt að hugsa um þetta á annan hátt, sagði Æsa. Heimurinn er ekki Hringadróttinssaga, það eru ekki bara kommúnista-hobbitar versus kapítalista-Sauron …

Hvað er ameríska heimsveldið annað en Sauron? sagði Dáni kátur. Frábær samlíking hjá þér …

 

Það sem fór kannski mest af öllu í taugarnar á henni voru litlu breytingarnar. Stórkarlalegur tónninn í röddinni var jafnvel verri er alhæfingarnar og svo var eins og sjálf lyktin af honum væri önnur. Píputóbakslyktin var eitt en svo var einsog bæst hefði við undirliggjandi lykt af elli. Henni datt ekki betra orð í hug þegar hún reyndi að útskýra þetta fyrir vinkonu sinni.

Hún reyndi að tala við hann einn morguninn þegar hann aldrei þessu vant fór á fætur með henni. Það var vegna þess að hún tók eftir því að hlutirnir sem þau höfðu troðið inn í svefnherbergi voru komnir á stjá um íbúðina. Útskorin mynd af afrískri konu með bala á höfðinu hékk nú yfir símaborðinu og Gauguin eftirprentunin var komin upp á vegg í stofunni þar sem þau sváfu.

Dáni hló bara að henni og sagðist ætla að nota þessa hluti í innsetningu sem átti að fjalla um byltinguna á Kúbu.

Afhverju gerirðu ekki frekar verk um Arabíska vorið? spurði Æsa en Dáni lét eins og hann heyrði ekki í henni og brast í ræðu um Che Guevara og Kennedy. Á meðan hann lét móðan mása tróð hann í pípuna og Æsa sá ekki betur en að hann væri orðinn hokinn, eða einhvern veginn minni.

 

Einn daginn, um það bil hálfu ári eftir að þau fluttu inn áttaði Dáni sig á að hann hafði varla horft framan í kærustuna sína í marga daga. Viðfangsefni hans hafði náð honum algerlega á sitt vald, sem hafði gerst svo oft áður, en þá var hún vön að sjá til þess að tengingin á milli þeirra rofnaði ekki. Í þetta skiptið var eins og hún hefði gefist upp. Í þessi fáu skipti sem þau höfðu drukkið kaffi saman eða legið hlið við hlið í rúminu var hún þögul og fjarlæg. Samskiptin voru vinsamleg en yfirborðsleg og hann hafði verið of upptekinn til þess að taka almennilega eftir því.

Hann hringdi til hennar í vinnuna og spurði hvort hún kæmi ekki heim í kvöldmat. Hún sagðist hafa ákveðið að hitta vinkonu sína en Dáni lofaði að elda. Hún samþykkti treglega að aflýsa stefnumótinu og koma beina leið heim. Dáni fór í búðina og keypti ýsuflak og kartöflur, gekk svo í Ríkið og fékk hvítvínsbelju. Hann eyddi eftirmiðdeginum í að þrífa íbúðina og elda. Þegar Æsa kom heim var hann búinn að kveikja á kertum og ýsan lá pönnusteikt á eldhúsborðinu, hvítvínið var komið í karöflu og Æsa brosti vandræðaleg í gættinni.

En fínt sagði hún. Í hvaða peysu ertu? Dána hafði orðið kalt og hann hafði klætt sig í peysu sem legið hafði á stólbaki á vinnustofunni. Mynstruð vélarprjónspeysa með götóttum olnbogum.

Er þetta peysa af kallinum? spurði hún og Dáni horfði niður eftir sér.

Ja … svaraði hann og fann fyrir snarpri skömmustutilfinningu sem hann vissi ekki hvaðan kom.

Ég tala ekki við þig í fötunum hans.

Dáni klæddi sig úr peysunni og henti henni í ruslið.

Ég get ekki talað við þig meðan ég veit af peysunni í ruslinu, sagði Æsa og Dáni fór út með ruslið. Þegar hann kom aftur inn sat Æsa við eldhúsborðið, ennþá í kápunni og hafði ekki snert við matnum.

Ég get ekki búið hérna, sagði hún og tók sér gaffalinn í hönd, potaði í fiskinn og sagðist missa matarlystina bara við að koma inn á heimilið. Kalda stríðið er búið, hélt hún áfram, ég meina, ég gæti alveg eins flutt inn til afa eins og að búa með þér.

Kalda stríðinu er kannski lokið, sagði Dáni, en það eru samt heilu kynslóðirnar sem sjá heiminn ennþá í ljósi þess og það eru einmitt þessar kynslóðir sem sitja við völd. Baby-boomerarnir eru aldir upp í kalda stríðinu, kynslóðin sem mótaði þann veruleika sem við búum við. Til þess að skilja samtímann verðum við að skilja hvernig þau hugsa. Það er eitthvað mjög mikilvægt þarna sem okkar kynslóð skilur ekki, gildin týndust á leiðinni til okkar.

Baby boomeragildi? spurði Æsa. Ertu að tala um fólkið sem fékk allt upp í hendurnar, rústaði plánetunni, drap á eftir sér velferðarkerfi eftir að hafa vaxið upp úr því, og situr núna á öllum völdum, neitar að sleppa þeim, kallar okkur ábyrgðarlaus og er algerlega ófært um að hugsa um heiminn nema í svörtu eða hvítu … Hvað ertu að segja?

Ég er að segja að það er ekki alveg rétt hjá þér, að kalda stríðið sé búið, og þar að auki; hvenær er stríði lokið? Þegar sá síðasti sem ber ör af völdum þess deyr? Hvað með ósýnilegu örin …

Ég flyt út í kvöld, sagði Æsa og starði framan í Dána. Hann leit undan, fékk sér á diskinn, rétti úr bakinu og byrjaði að borða.

 

Hún pakkaði bara því nauðsynlegasta. Dáni heyrði hana tala í símann við vinkonu sína og skömmu síðar heyrði hann að bíl var lagt á gangstéttina utan við húsið. Hann var búinn af disknum, hellti sér í glas og kallaði á hana.

Hvað? sagði hún úr gættinni og hann sá ekki betur en hún hefði grátið svolítið.

Þú mátt búast við regni eyðileggingar af himnum, eins og aldrei hefur sést áður á þessari jörðu, sagði Dáni lágt.