Leikritið Nauðbeygð messa nýrra tíma eftir Einar Baldvin Brimar var sýnt hjá Afturámóti í Háskólabíó í sumar og hefur nú, sem betur fer, fengið framhaldslíf í Bæjarbíói í Hafnarfirði. Leikstjóri er Vignir Rafn Valþórsson, Brjánn Hróbjartsson hannar einfalda leikmyndina og Sara Sól Sigurðardóttir sér um skrautlegt búningasafnið.

Aðalpersóna verksins, Kláus Alfreðsson (Jakob van Ousterhout) liggur sofandi í sófa á miðju sviðinu þegar gestir ganga í salinn. Sófinn er of stuttur fyrir hann, það fer illa um hann og hann byltir sér órólegur. Prestur stígur á sviðið í fullum skrúða (Starkaður Pétursson) og messuþjónn með honum (Lísbet Sveinsdóttir), prestur teygar messuvín úr flösku sem messuþjónninn réttir honum og boðar viðburðinn framundan: Nauðbeygða messu. Hún er ólík guðsandamessu, ekki blessun heldur þjáning, öngþveiti og bönnuð börnum. Presturinn stígur niður af sviðinu og Kláus rumskar við símann. Það er móðir hans sem hringir (Berglind Alda Ástþórsdóttir), hún er uppgefin á atvinnulitla og metnaðarlausa leikaranum syni sínum og skammar hann heitum skömmum meðan hann klæðir sig. Áður en varir ryðst fyrrverandi eiginkona inn (Katla Njálsdóttir), uppáklædd í fríkaðar tískuflíkur og máluð eins og brúða, og heimtar að Kláus taki vel til í íbúðinni því að nú eigi að halda upp á fermingu einkadóttur þeirra, sex ára gamla (hún er sko undrabarn). Á næsta rúmum klukkutíma rekur hver undarlega heimsóknin aðra hjá veslings Kláusi sem veit ekki sitt rjúkandi ráð, þær verða æ súrrealískari og fljótlega fer áhorfanda að gruna að Kláus sé í raun ennþá sofandi. Martröðin hafi byrjað með messu prestsins (sami leikari leikur föður Kláusar) og haldi áfram allt til enda.

Eða hvað? Vaknar Kláus raunverulega í lokin og heldur sína eldmessu með fullu ráði? Ég styð það. Messan er alltént vel hugsuð, holl og eftirminnileg þó að hún sé helst til löng.

Leikurinn var fjörlegur og persónurnar vel skapaðar þótt skrítnar væru. Berglind Alda bjó til fínar týpur bæði úr móður Kláusar og sálfræðingi hans til fimm ára, þær eru báðar jafnuppgefnar á drengnum. Pilates-liðið (Arnór Björnsson, Lísbet og Selma Rán Lima) var pirrandi á mjög sannfærandi hátt. Katla var alveg ekta óþolandi sem sú fyrrverandi. Og ofsalega hamingjusama parið þeirra Selmu Ránar og Mikaels Emils Kaaber var ekta skopmynd af einu slíku. Aumingja Ágúst Wiigum fékk ekki mikinn tíma á lífi sem básúnukennari Kláusar en fór vel með hann. Mest mæddi auðvitað á dreymandanum sjálfum, Kláusi, sem Jakob lék af einlægni og sannfæringu. Hann er einkar aðlaðandi og fríður ungur maður (minnir ofboðlítið á Ingvar E. ungan) og ég hlakka til að sjá hann í Þjóðleikhúsinu í vetur eins og fleiri leikara í þessari sýningu.

Ef draumskýring mín er rétt er fullkomlega eðlilegt hvað leikritið er brotakennt. Þarna rekur hver martröðin aðra í órólegum svefni Kláusar. Samtölin eru lifandi og skemmtileg og sýningin rennur vel hjá Vigni Rafni leikstjóra þrátt fyrir sketsukenndan stílinn. Hinum unga lögfræðimenntaða heimspekingi, Einari Baldvini Brimar, liggur mikið á hjarta og ég vonast til að fá meira að heyra frá honum áður en of langt líður.

Silja Aðalsteinsdóttir