Það er óperuhátíð í Reykjavík. Þrjár óperur, tvær gamlar, ein ný, eru nú sýndar í þrem húsum í höfuðstaðnum. Svo skemmtilega vill til að þær fjalla allar meira og minna um sama fólkið og eins og það sé ekki nóg þá tengjast sýningarnar innbyrðis á hinn skondnasta máta: aðaldívan í einni er hljómsveitarstjóri í annarri, illmenni í einni er einfaldur garðyrkjumaður í annarri, sama söngkonan er ung og spræk Barbarína í einni en afturganga Barbarínu í annarri og einn aðaltenórinn fær að vera ungur og ástfanginn Almaviva greifi í einni en miðaldra og frekar lúinn Almaviva í annarri.
Pierre Beaumarchais samdi á sínum tíma þrjú leikrit um rakarann Fígaró sem öll hafa orðið tónskáldum yrkisefni. Rossini samdi Rakarann frá Sevilla eftir fyrsta leikritinu sem segir frá ævintýrum Fígarós á unga aldri, Mozart samdi Brúðkaup Fígarós eftir miðleikritinu og nú hefur Þórunn Guðmundsdóttir samið leikrit eftir því síðasta. Á frönsku heitir það leikrit La mère coupable (Hin seka móðir) en Þórunn kallar sitt verk Hliðarspor – og það verk var frumsýnt í Gamla bíó í gærkvöldi við mikinn fögnuð. Leikstjóri er Ágústa Skúladóttir, tíu manna hljómsveit stjórnar Sólveig Sigurðardóttir. Hljómsveitarútsetningu af verkinu gerði Hrafnkell Orri Egilsson. Afar fjölbreytta og eftirminnilega búninga hannaði Bryndís Ósk Þ. Ingvarsdóttir. Jóhann Friðrik Ágústsson hannaði lýsingu en smink og hár var á vegum Ninnu Körlu Katrínar og Halldóru Óskar Helgadóttur (sem einnig leika, dansa og syngja í sýningunni).
Það er mun meira um að vera á sviðinu í þessari óperu en þeim sem eru sýndar í Sjálfstæðissalnum og Borgarleikhúsinu. Þar munar mest um að hér eru ekki aðeins lifandi persónur þátttakendur heldur iðar sviðið af draugum fortíðar, aðallega látnum ástkonum Almaviva greifa (Þórhallur Auður Helgason). Þær eru sex auk Marcellinu, móður Fígarós (Sólrún Hedda Benedikz), Bartolos föður hans (Davíð Ólafsson), Barbarínu (Vera Hjördís Matsdóttir) og Cherubino (Tinna Þorvalds Önnudóttir). Sá mikli kvennamaður er ungur og kátur í Brúðkaupi Fígarós en féll í stríði skömmu eftir að því verki lauk. Þessir draugar eru mikið sjónarspil, gervin eru stórkostleg, bæði smink og búningar, og þau syngja og dansa af ótrúlegri fimi miðað við, þið vitið. Ágústa leikstjóri er víðfræg fyrir glæsilegar fjöldasenur í sýningum sínum og hér fá þeir hæfileikar virkilega að njóta sín.
En þá að sögunni. Tuttugu ár eru liðin frá brúðkaupi Fígarós og Súsönnu (Gunnlaugur Bjarnason, Björk Níelsdóttir). Almaviva og Rósína greifynja (Guðrún Brjánsdóttir) eiga einn son á lífi, Leon (Erla Dóra Vogler), en auk hans býr á heimilinu „fósturdóttir“ greifans, Florestine (María Konráðsdóttir), dóttir Barbarínu sem hafði látist af barnsförum. Greifinn þolir ekki Leon og grunar að hann eigi ekkert í honum – eins og kemur á daginn. Rósína hafði stigið hliðarspor með Cherubino og Leon var ávöxtur þess. Leon og Florestine fella hugi saman en greifinn getur ekki hugsað sér að leyfa þeim að eigast. Inn í hirð greifans hefur laumast lúmskur „Tartuffe“, svikahrappur með illt í hyggju sem Kristofer Krapp nefnist (Hafsteinn Þórólfsson) og honum hyggst greifinn gefa Florestine og allar eigur sínar með henni. Krapp getur varla beðið og er því afar pirraður á bréfunum sem þjónninn hans (Karl Friðrik Hjaltason) er sífellt að færa honum. Þau benda til að hann sé raunar kvæntur maður í öðru landi.
Florestine vill ekki giftast Krapp en hún ræður auðvitað engu. Þá kemur til kasta hinnar slóttugu Súsönnu og bónda hennar Fígarós og það tekur þau (aðallega Súsönnu sem beitir kynþokkanum óspart) ekki nema um það bil hálftíma að bjarga málum. Þeim til óvæntrar aðstoðar birtist eiginkona Krapps í eigin persónu (Þórgunnur Anna Örnólfsdóttir), hirtir bónda sinn eins og hund og fer með hann burt. Allt er gott þegar endirinn er góður.
Texti Þórunnar er mikill og allur fagurlega bundinn, hún er einstaklega hög á mál og stíl. Svo er hann líka bráðfyndinn. Tónlistin tekur svip af efninu hverju sinni, alvarlegir kaflar, sorgarsöngvar, laufléttar gleðiaríur, ísmeygilegar aríur, kórkaflar. Sérstaka kæti vakti þegar Þórunn skreytti sínar aríur eða söngles með laglínum úr óperum Rossini og Mozarts enda var það ævinlega smekklega gert. Aríur draugakórsins eru sérlega skemmtilegar, til dæmis þegar vofurnar rifja upp yndi lífsins sem þær sakna, handa, vara og snertingar greifans: „Hamslausan losta hann verður að hemja, en holdið er torvelt að temja…“ Alskemmtilegasti dúettinn er þeirra Krapp-hjóna þegar hún telur upp kvalir sínar meðan hún hélt að hann væri dauður og hann reynir að skjóta orði að en hún lemur hann niður jafnóðum með orði og verki! Búningar þeirra hjóna studdu fagurlega við persónusköpunina en Bryndís Ósk fór beinlínis fram úr sér í snilld þegar hún skapaði lokabúning frú Krapp.
Söngurinn er yfir heildina prýðilegur, bæði einsöngur og kórsöngur. Af kvenröddunum ber Björk af, bæði er röddin tær og fögur og textaframburður fínn. Bestu karlarnir eru Þórhallur Auður og Hafsteinn enda mikilvægt að þeir skili hlutverkunum vel. Mörg önnur nöfn mætti nefna en ég læt nægja að minna á þau sem ég hef þegar nefnt í pistlinum. Hljómsveitin studdi við sönginn eins og best varð á kosið undir stjórn dívunnar Sólveigar.
Þetta er firna skemmtilegt verk og fjörug sýning. Henni er óskað langlífis í óperuheiminum.
Silja Aðalsteinsdóttir