Jón Kalman Stefánsson. Himnaríki og helvíti, Harmur englanna, Hjarta mannsins.

Bjartur 2007, 2009, 2012.

Úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2012

Mitt í miklu andstreymi og mannraunum finnur strákurinn, aðalsöguhetjan í trílógíunni Himnaríki og helvíti, Harmur englanna og Hjarta mannsins, lífsþrótt sinn í knýjandi þörf fyrir orð. Ástin á skáldskapnum, þessum heimi innan spjalda bókar sem er svo einkennilega sannur þrátt fyrir að vera utan við hversdagslegan raunheiminn, drífur hann áfram. Strákurinn er svo nátengdur þeirri tjáningu sem felst í orðunum að þegar hann opnar bók, „þreifar [hann] á lögun orðanna, hlustar eftir andardrætti þeirra, […]“ (HE bls. 541)

Orðin eru kynngimögnuð í þessum sögum og gegna lykilhlutverki. Þau eru þess megnug að verða manni að bana og halda öðrum lifandi. Þau eru alltumlykjandi, vangaveltur um orðin spretta fram sí og æ, frásögnin leiðir lesandann yfir fjöll og firnindi, á haf út og í gegnum verstu veður, en þegar allt kemur til alls er stundum eins og það sjónarspil sé einungis töfrabragð til að upplýsa hann nánar um orð – leið til að koma heimspekilegum bakgrunni orða á framfæri, ráðgátunni sem í þeim felst.

*

Í miðju verksins stendur strákurinn sem aldrei er nefndur með nafni heldur einungis skilgreindur með þessum hætti og verður því í huga lesandans ungur og óreyndur, saklaus og ómótaður, fulltrúi hins unga Íslands á mótum tveggja samfélaga og tveggja alda. Segja má að fyrsta bókin um hann Himnaríki og helvíti, fjalli um sjósókn eins og hún var stunduð á Íslandi rétt fyrir aldamótin 1900. Fyrri hluti sögunnar segir af verbúðalífi og róðrum, en sá seinni af verkunar- og verslunarleið fisksins í kringum sjósóknina í þorpinu. Í annarri bókinni, Harmi englanna, liggur leið stráksins upp á heiðar með landpóstinum Jens. Á því ferðalagi fær lesandinn að kynnast kotbúskap á afskekktum heiðum og í afdölum. Sauðkindin tekur við af fiskinum sem lífsviðurværi þeirra sögupersóna er strákurinn og pósturinn hitta. Sumstaðar eru þessi tveir meginstólpar íslenskrar afkomu reyndar samofnir og eru víða dregnar upp áhrifaríkar myndir af striti, einmanaleika og auðnuleysi fólks sem þó hefur yfir sér menningarlega reisn í þessum nöturlegu aðstæðum. Þriðja og síðasta bókin, Hjarta mannsins, fjallar svo um sjálft þorpið, mannlífið sem var að mótast í þéttbýliskjörnum þegar gufuskipin voru að taka við af þilskipum. Uppgangi kaupmanna og borgarastéttarinnar eru gerð góð skil og líka lífsbaráttu verkafólks. Ytri veruleiki verksins samanstendur þannig af flestum þeim þáttum þjóðlífsins sem mótuðu íslenska samfélagsmynd á sögutímanum fyrir röskum hundrað árum.

Hvað varðar þá þjóðfélagsmynd sem dregin er upp, atvinnuhætti, verklag, mataræði, aðbúnað, klæðnað og þess háttar, eru þessi verk Jóns Kalmans hreinasti fjársjóður. Lýsingar eru nákvæmar og trúverðugar, augljóslega byggðar á greinagóðri heimildavinnu og veita áhugaverða innsýn í lífshætti og lífsbaráttu þjóðarinnar á þessum tíma.

*

Vissulega má segja sem svo að allt séu þetta kunnugleg stef úr íslenskum bókmenntum í gegnum tíðina – margir sem Jón Kalman dregur fram á sögusviðið eru t.a.m. náskyldir þjóðþekktum persónum Halldórs Laxness og Gunnars Gunnarssonar, ekki síst í Sjálfstæðu fólki og Aðventu, jafnt sem þeirra höfunda seinni tíma er gert hafa sagnfræðilega arfleið að yrkisefni sínu. Spyrja má hverju Jón Kalman hafi þarna við að bæta; hvort honum takist að glæða þennan þjóðlega efnivið nýju lífi án þess að hann verði endurtekningum eða klisjum að bráð. Því er auðsvarað: það tekst honum svo um munar. Og það er ekki síst fyrir tilstilli frásagnaraðferðarinnar.

Öll verkin eru sögð í fyrstu persónu fleirtölu; af eins konar kór sem talar um „okkur“ og virðist samanstanda af öllum „hinum dauðu“, fram á okkar daga. Kórinn ávarpar lesandann beint af og til í skáletruðum köflum sem skera sig frá meginfrásögninni. Fyrir vikið verður til nokkurs konar andrými innan sögunnar sem tilheyrir fortíð sögusviðsins og þar sem engu er líkara en hinir dauðu tali handan sögutímans; og hlutverk þeirra sé að fleyta frásögninni áfram til okkar tíma. Í raun er Jón Kalman hér að beita áþekku stílbragði og í grískum leikuppfærslum fornaldar. Kórinn kemur af og til inn í frásögnina til að hafa orð á einhverju í framvindunni – útskýra, árétta eða hnika til sjónarhorni. Rétt eins og í grísku leikritahefðinni er stundum álitamál hvort kórinn skipti máli í megintextanum, en þegar upp er staðið og heildin skoðuð er ljóst að svo er. Kórinn leiðir lesandann áfram á meira abstrakt nótum en frásögnin annars myndi bera, hann skapar kjölfestu sem víkkar söguna út – stækkar hana langt út fyrir þau hversdagslegu atvik sem þar eru rakin.

Innri tíma verkanna þriggja spannar nefnilega tiltölulega stutt tímabil, frá síðbúnu vori og fram á haust, en eigi að síður er tímasvið frásagnarmátans óravítt í skynjun lesandans. Því ekki einungis tekur það til allrar fortíðar sögusviðsins, eins og áður sagði, heldur einnig alls þess tíma sem liðið hefur fram á þessa daga. Höfundinum tekst m.ö.o. að skapa með lesandanum tilfinningu fyrir því að sá tími sem er undir frá því sagan átti sér stað, þegar strákurinn lagði upp í vegferð sína undir lok nítjándu aldar, brúi bilið þangað til lesandinn fær bókina í upphafi þeirra tuttugustu og fyrstu. Það er engu líkara en sagan – í merkingunni mannkynssagan – segi sig sjálf; fleyti þessari miklu sagnfræðilegu vídd áfram til okkar, eins og til að árétta þá staðreynd að við lesendur, rétt eins og strákurinn, erum einungis sandkorn á strönd eilífðarinnar. Átök lífsins, harmleikir og hamingja verða í senn óendanlega mikilvæg og óbærilega léttvæg vegna frásagnaraðferðarinnar; afstæði tilvistarinnar blasir við.

Í þessu forna sjónarhorni kórsins felst einkar áhugaverð sálfræðileg afstaða gagnvart efniviðnum. Fyrir tilstilli sjónarhornsins tekst höfundinum að samþætta fortíð, ritunartíma og nútíð, sögulegri arfleifð þjóðarinnar og hlutverki bókmennta sem hreyfiafls í gegnum aldirnar. Hið forna stílbragð verður m.ö.o. til þess að marka Jóni Kalmani listræna sérstöðu í samtímanum.

Frásagnaraðferðin auðveldar lesandanum að kynnast innri manni sögupers ónanna. Yfirgripsmikil reynsla kórsins, þessarar samsettu vitundar sem höfundur kallar „okkur“ og lætur miðla sögunni, gerir honum kleift að greina ótal tilfinningar sem bærast í litrófi mannlegrar reynslu af nákvæmni og næmi. Sú greining er nútímaleg og færir lesandanum heim sanninn um að mannlegt eðli breytist ekki. Samkennd, tilfinningar, væntingar og langanir, draumar og þrár þjappa mannfólkinu saman þvert á tíma og rúm fyrir tilstilli þessarar aðferðar. Lesendur lifa í stráknum og strákurinn lifir í lesandanum – rétt eins og við öll búum í þeirri rödd sem segir söguna, rennum saman við þennan alvitra kór allra tíma.

*

Öll þrjú bindi þessa mikla verks Jóns Kalmans búa yfir ákaflega myndrænni sýn. Textinn er fleygaður sterkum myndum, ekki síst af náttúrunni og fyrirbrigðum hennar. Hafið, himinninn, fjöllin og veðrið leika stórt hlutverk í frásögninni og höfundur beitir ýmsum brögðum til að koma samhengi þessara fyrirbrigða og náttúruaflanna við líf sögupersóna til skila. Þegar komið er inn í annað bindið örlar á tilfinningu fyrir því að myndmál þessu tengt sé farið að endurtaka sig; brot og hugleiðingar um fjöll, hafdjúpin, fiska, tengsl náttúrunnar við draumana og svefninn, himnaríki og helvíti taka að hljóma kunnuglega. Þegar litið er yfir heildina virka þessar endurtekningar þó sem vísanir fram og til baka í textanum, tilbrigði við atvik og stef sem þegar allt kemur til alls líkja eftir hljómi lífsins – hringrásinni og sífelldri endurtekningunni í sögulegri framvindu og persónulegu lífi. Frávikin eru jafnframt nægilega mikil í úrvinnslu þessara vísana til að lesandinn öðlist einnig tilfinningu fyrir þeim hendingum er greina líf og örlög að, skapa hverjum og einum sérstöðu og möguleika.

Það þarf nokkuð áræði til að gefa þessum endurtekningum í textanum jafn mikið svigrúm og Jón Kalman gerir í þessum þremur bókum – og hann dansar stundum nálægt hættumörkum þess að gera verk sitt óþarflega langdregið, ekki síst í miðbókinni Harmi englanna, en honum tekst að halda sig réttum megin við línuna. Umfram allt er þetta stílbragð fyrst og fremst til þess fallið að glæða skáldverkið einkennilegri mýkt; ljóðrænum eiginleikum sem verða einkar eftirminnilegir og sterkir sem mótvægi við þau harðindi sem sögupersónurnar þurfa að kljást við.

Himnaríki og helvíti

Himnaríki og helvíti (2007)

Þegar ljósið nær tilgangi sínum

Þótt fyrsta bindi þessarar trílógíu, Himnaríki og helvíti, segi eins og áður var getið sögu sjávarútvegs á Íslandi í tíð bátaútgerðar er það einungis umgjörð um annað meginþema: vináttuna. Sagan hverfist um samband tveggja manna, stráksins og Bárðar. Strákurinn er munaðarlaus, pabbi hans drukknaði í sjóferð, mamma hans og systir dóu skömmu síðar. Sambandið við Bárð er honum því allt, hann á engan annan að. Í verbúðarlífinu ganga þeir samsíða; „sem er langbest, því spor sem liggja saman vitna um samkennd og þá er lífið ekki eins einmanalegt“ (H&H bls. 12). [2]

Í fyrsta kafla bókarinnar þar sem þeir ganga úr Plássinu og yfir í verið, kemur í ljós að háskinn er þó aldrei fjarri þeim, náttúran og hennar öfl ógna stöðugt lífi mannanna norður við Dumbshaf: „Sjórinn er kuldablár og aldrei kyrr, risaskepna sem dregur andann, umber okkur oftast, en stundum ekki og þá drukknum við; saga mannsins er ekki ýkja flókin“ (H&H bls. 13). Fjallið sem þeir fara um er líka hættulegt; „kaðallinn slitnaði ekki, fjallið drap þá ekki með steinkasti“ (H&H bls. 13). Höfundur persónugerir þannig náttúruna sem þann dyntótta kraft er allir eiga líf sitt undir.

Þeir strákurinn og Bárður eru ekki einungis saman til sjós heldur eiga trúnað hvor annars og bera í brjósti áþekka drauma er greina þá frá hinum sjómönnunum. Vinaböndin á milli þeirra hafa treyst vegna sameiginlegrar ástar þeirra á orðum, löngunar til að verða eitthvað annað og meira en þeir eru, brjóta af sér viðjar þrældóms og fyrirframgefinna örlaga. Strákurinn og Bárður deila sem sagt flestu: bókum, hugsunum, væntingum til lífsins og meira að segja rúmi í verbúðinni. Báðir njóta velvildar ráðskonunnar Andreu, eiginkonu Péturs formanns. Eins og aðrir í áhöfninni eiga þeir allt sitt undir Pétri formanni, hann ræður hvort og hvenær róið er, les í náttúruna, velur stað á fiskislóðinni, metur skýjafar og veðrabrigði til að koma þeim heim heilu og höldnu. Pétur er traustur og glöggur, en einnig harður og ósveigjanlegur líkt og kemur í ljós í samskiptum hans við Bárð og síðar Andreu.

Þótt Himnaríki og helvíti fjalli um vináttu stráksins og Bárðar er Bárður samt allur strax í fyrsta hluta sögunnar. Samkvæmt orðanna hljóðan er það ljóð sem verður Bárði að aldurtila. Þegar kallið í róðurinn kemur er hann með hugann við bók sem hefur að geyma Paradísarmissi Miltons og les fram á síðustu stundu. Bárður „hallar bókinni þannig að skíman af lampanum nái til hennar, ljós sem nær að lýsa upp góða ljóðlínu hefur áreiðanlega náð tilgangi sínum“, (H&H bls. 33) segir um þetta þýðingarmikla atvik í bókinni. Það býr einstök fegurð í þessu örlagaþrungna augnabliki. Í því er fólginn sá fyrirboði er hrindir allri atburðarás trílógíunnar af stað.

Fegurðarþráin og fróðleiksfýsnin verða öllu öðru yfirsterkari og í huga Bárðar býr þetta bókmenntaverk yfir slíkum töfrum að honum finnst hann verða að hafa þá með í róðurinn. Hann er með allan hugann við að læra brot úr verkinu utan að áður en hann fer í róðurinn og gleymir því stakknum sínum – sem verður honum að aldurtila. Hann frýs í hel í bátnum og skyndilega eru þessar fögru ljóðlínur orðnar að feigðarboða: „nú kemur kvöld / og kufli steypir / heldur húmleitum / yfir hvaðvetna / fylgdi þögn því“ (H&H bls. 33). Það húmar sem sagt skyndilega og alltof snemma í lífi Bárðar, tilgangurinn ljóssins er ekki lengur að lýsa upp hugskot hans heldur vara hann við, en orðin ástkæru ná ekki lengur til hans. Þögnin breiðist yfir.

Bárður er fleirum en stráknum harmdauði. Andrea, sem bíður þeirra í landi verður aldrei söm, og væntanlega heldur ekki Sigríður unnusta Bárðar, sem veit ekki einu sinni að hann er dáinn. Þunga sorgarinnar tekst Jóni Kalman að skila til lesandans með örfáum, hnitmiðuðum dráttum. Mennirnir taka Bárð úr bátnum, halda á honum „og stefna upp í búð. Það er næstum eins og jörðin svigni undan þunganum, samt er hún hörð af frosti, grjóti og milljónum ára, en dauður maður er svo miklu þyngri en sá sem lifir, ljósleiftur minninga orðið að dimmum, þungum málmi“ (H&H bls. 88).

*

Ljóðlínur Miltons (og Jóns Þorlákssonar frá Bægisá) búa yfir svo miklum styrk að einungis andartaki eftir að Bárður hefur verið lagður örendur á beitingaborðið er strákurinn farinn. Hann telur sig skuldbundinn vini sínum að skila Paradísarmissi beinustu leið til réttmæts eiganda, Kolbeins skipstjóra í Plássinu (sem er blindur eins og Milton). Strák urinn hirðir ekki einu sinni um að fylgja félaga sínum og besta vini til grafar en heldur rakleitt af stað gangandi til þorpsins. Hann velur sér erfiðari og lengri leið yfir heiðina, frekar en Ófæruna fyrir fjallið, því hann vill ekki vera í námunda við hafið framar, hvað þá feta spor þeirra Bárðar til baka einungis nokkrum klukkustundum eftir að þeir fóru þar um fullir vonar og hugljómunar. Strákurinn hefur þegar lifað sinn Paradísarmissi. Hann er búinn að missa alla og gælir við þá hugmynd að týna sjálfur lífinu á leiðinni, gefa sig á vald þögninni.

Það á þó ekki fyrir stráknum að liggja að hverfa úr þessum heimi enn sem komið er. Orðin sem urðu Bárði að bana, draga hann upp úr hverjum skaflinum á fætur öðrum þegar þögnin er komin ískyggilega nærri. Bókinni ætlar hann nefnilega að skila og það gerir hann, þótt það kosti hann næstum lífið. Enda veit hann manna best að dauðinn er ekki auðveld lausn, „það er ábyrgðarhluti að deyja“ (H&H bls. 99).

Með vissum hætti má segja að dauði Bárðar fleyti stráknum í átt að betra lífi. Hann eignast nýja vini í Plássinu; Geirþrúði, Helgu og Kolbein, en þau búa saman í einskonar andófi við valdamesta fólkið í þorpinu – aðhyllast viðhorf sem eru mun nútímalegri og umburðarlyndari en tímarnir í kringum 1900 þoldu. Strákurinn fær inni hjá þeim. Ást hans á orðum og trúmennska gagnvart stórvirki Miltons í eigu Kolbeins færir hann undir þeirra verndarvæng.

Strákurinn lifir sem sagt af og undir lok fyrsta bindis Himnaríkis og helvítis hefur hann snúið baki við sjómennskunni, við lífi því sem faðir hans og forfeður hafa lifað fram að þessu. Líf hans hefur tekið nýja stefnu, enda er hann kominn í annars konar samfélag. Þéttbýlið hefur tekið við af forneskjulegum kotbúskap og fiskiróðrum á árabátum. Sjálfstraust stráksins hefur einnig eflst til mikilla muna samhliða því að honum opnast nýir möguleikar. Hann er líka skemmtilega hégómlegur, áttar sig fljótt á því að það breytist einnig ýmislegt við að komast í þokkaleg föt í fyrsta skipti á ævinni.

Mestu skiptir þó að lífsviðhorf fólksins í húsi Geirlaugar mótast af ást á bókum, jafnræði og samhjálp, sem minnir á viðhorfin sem móðir stráksins hefur lýst í bréfum sínum til hans þar sem hún segir af sér og föður hans til að halda vakandi minningum hans um þau og þá drauma sem þau áttu sér. Strákurinn er í einhverjum skilningi kominn í „föðurhús“ í fyrsta sinn frá því að pabbi hans drukknaði og heimilið var leyst upp. Gildir þá einu þótt kvenmaður sé í forsvari fyrir húsinu á tímum sem rétt mörkuðu árdaga kvenréttinda – Geirþrúður er nefnilega á við hvaða karl sem er. Og það er sem sagt í hennar húsi sem við finnum strákinn í upphafi annars bindis trílógíunnar, Harmi englanna.

Harmur englanna

Harmur englanna (2009)

Orð sem hjálparsveitir

Harmur englanna er tákn fyrir snjóinn. Það er engu líkara en svo margir hafi drukknað að englarnir geti ekki hætt að gráta. Af snjó er því svo sannarlega nóg í þessum miðhluta sögunnar af stráknum. Og ef saga vináttunnar við Bárð var sögð í tengslum við hafið í Himnaríki og helvíti, þá þroskast vináttan við Jens landpóst í réttu hlutfalli við fannfergið í Harmi englanna. Meðfram því að gera þorpslífinu skil er þetta miðjubindi trílógíu Jóns Kalmans þó fyrst og fremst saga af lærdómi og orðum. Af átökum þeim tengdum, áhrifamætti þeirra og hversu langt menn ganga til að koma orðum og visku til skila.

Það virkar með nokkrum ólíkindum á lesandann, þegar strákurinn er loksins hólpinn í þorpinu, hefur augastað á ungu faktorsdótturinni í versluninni, og er jafnvel farinn að hafa ofan af fyrir sér með bréfaskriftum fyrir hina og þessa auk þess að snatta fyrir Geirþrúði og Helgu, að höfundurinn skuli áræða að senda hann strax aftur á fjöll. Sú listræna ákvörðun á þó sinn þátt í því að auka skilning lesandans á aðstæðum í þessu skáldverki; Ísland var einfaldlega þannig á sögutímanum að ekki var hægt að víkja sér undan veðrinu eða náttúrunni, ekki einu sinni þótt maður viti að heimskautavindarnir séu „fullir af drápslöngun“ (H&H, bls. 125).

Pósturinn þarf til að mynda að komast til skila hvað sem tautar og raular svo læknirinn í þorpinu, sem einnig er póstmeistari, notar tækifærið til að senda Jens landpóst, sem gistir í húsi Geirlaugar á ferðum sínum, í óvissuverð sem hann vonar að verði til þess að hann losni við hann úr þjónustu sinni. Ákvörðunin er grimmileg og afhjúpar vel hversu fátæklingar máttu sín lítils, og gilti þá einu hvort þeir væru heljarmenni að burðum líkt og Jens.

Þær Geirþrúður og Helga vita sem er að Jens, vinur þeirra, er svo sjóhræddur að hann mun tæpast klára sig af þessu ferðalagi og grípa því til þess ráðs að senda strákinn með honum – strákurinn kann á sjóinn, Jens á fjöllin. Undirliggjandi þáttur í ákvörðun þeirra er auðvitað löngun til að veita yfirvaldinu mótspyrnu, að láta lækninn, sem tilheyrir fjölskylduveldi þeirra sem drottna yfir þorpinu, ekki hafa sitt fram.

*

Ferðalag stráksins og Jens landpósts hefst með ósköpum þar sem engu munar að Jens drukkni. Strákurinn kemur honum til bjargar og á milli þessara manna; hálfstálpaðs stráksins og heljarmennisins Jens skapast traust og að lokum vinátta þar sem vart má á milli sjá hvor bjargar hverjum í veðráttu sem nærri verður þeim báðum að fjörtjóni. Grundvöllur vináttu Jens og stráksins er nánast fullkomin andstæða við vináttuna sem ríkti á milli Bárðar og hans – enda var hún öll byggð á ást þeirra á orðum.

Upp úr Jens dregst hins vegar varla nokkurt einasta hljóð, það er engu líkara en hann búi í heimi handan orða, jafnvel handan tilfinninga. Smátt og smátt kemur þó í ljós hvern mann hann hefur að geyma. Hann er eina fyrirvinna örvasa föður og systur „sem fæddist með svo mikla heiðríkju í höfðinu að þar rúmast fáar hugsanir, en þar festast heldur engar syndir“ (HE, bls. 19). Hann er einnig ástmaður konu sem varð illvirkjanum, manninum sínum, að bana.

Það mætast sem sagt margir örlagaþræðir í öðlingnum Jens. Og allir segja þeir sína sögu um hversdagslíf, samfélagsgerð, afdrif og aðbúnað almennings á Íslandi fyrir rúmri öld. Sú saga breikkar síðan og verður fyrirferðarmeiri með hverri nýrri sögupersónu sem verður á vegi þeirra stráksins í afskekktum smákotum í þessari hrakningaför, ýmist fyrir helbera tilviljun eða góða forsjón.

Sá viðurgjörningur sem þeir njóta á leiðinni er út af fyrir sig eftirtektarverður. Jens og stráknum er veitt eins vel og heimilin þola og sinnt af fremsta megni. Það sem strákurinn sér og skynjar af afstæðari gildum í þessum kotum vegur þó þyngst í upplifun lesandans; fróðleiksfýsnin, löngunin til að víkka sinn innri sjóndeildarhring, fegurðarþráin, vonin fyrir hönd barnanna. Eins og strákurinn hefur reynt á eigin skinni geta orð verið „byssukúlur, en þau geta líka verið hjálparsveitir“ (HE, bls. 89). hann veit því sem er að „orðin eru stærri en hann“ (HE, bls. 89).

Í Harmi englanna er Jens landpóstur og bréfburðarmaður vitaskuld sendiboði orðanna. Það er því viðeigandi að spyrða þá saman hann og strákinn því strákurinn er ómeðvitað og af innri þörf einnig sendiboði orða. Eins og vikið var að hér í upphafi stjórna orðin lífi hans og margra annarra sögupersóna nánast með bókstaflegum hætti. Í síðustu bókinni, Hjarta mannsins, skrifar strákurinn til að mynda Andreu, vinkonu þeirra Bárðar bréf sem verður til þess að hún fer frá Pétri formanni. Strákurinn áttar sig seint um síðir á eigin ábyrgð í þessu sambandi því hann hafði alls ekki hugsað út í hvað gæti orðið um hana í kjölfarið, einungis að hún gæti kannski fundið „lífið aftur“ (HE bls. 89). Einnig skrifar hann bónorðsbréf til Rakelar, ungrar verkakonu á eyrinni, og þarf sjálfur að kljást við afleiðingar orðgnóttar sinnar sem hræðir stúlkuna svo mjög að hún misskilur bréfið og tapar annars óbugandi gleði sinni þar til strákurinn hefur leyst málið og hún þekkist bónorðið.

Bréf móður stráksins til hans sjálfs sem höfundur dregur fram af og til í frásögninni, fá aukið vægi eftir því sem strákurinn les þau meira, sérstaklega í Harmi englanna. Einnig í þessum bréfum er máttur orðanna margþættur og mismunandi eftir því hver les og hvenær. Hann skilur loks að móðir hans sá fyrir endalok sín og skrifaði honum með það í huga. „Þetta voru þá bréf til framtíðarinnar, til hans í þeirri framtíð sem hún missir af, hún og Lilja. Áköf orð, en mettuð sárum trega, bara svo fínlegum að hann finnur hann varla. Þessi orð eru bátar sem ferja líf hennar, Lilju og föður hans, í átt frá gleymsku og algerum dauða“ (HE bls. 78).

Snjórinn, harmur englanna, er hvítur – en strákurinn er farinn að átta sig á margbreytileika tilverunnar; veit sem er að „sum orð hafa fleiri liti en regnboginn“ (HE bls. 54). Hann skilur líka að „orðin eru það eina sem tíminn virðist ekki geta stigið léttilega yfir“ (HE bls. 82). Þau þola eyðileggingarmátt tímans. Í Harmi englanna setur strákurinn traust sitt á þessa vitneskju og hegðar sér í samræmi við það. Jóni Kalman tekst einstaklega vel upp við að afhjúpa innra líf þessarar nafnlausu sögupersónu sinnar í gegnum eilífar hugleiðingar hans um orð; að tengja hana sálarlífi þjóðarinnar og sögu. Honum tekst að halda myndmálinu um orðin lifandi, orðin eru í senn bjargvættur, (í þeim skilningi að þau víkka veröldina svo um munar) og ógn (sem getur drepið mann ef maður gleymir sér um of líkt og Bárður, eða verður úti við að koma þeim til skila eins og póstarnir tveir, fyrirrennarar Jens).

Orðin eru aukinheldur undirstaða skáldskaparins sem þessi trílógía fjallar öðrum þræði um, því „[s] káldskapurinn er heimurinn á bak við heiminn“ (HE bls. 123) eins og strákurinn útskýrir fyrir faktorsdótturinni hrokafullu sem gerir lítið úr lærdómi og bókaást Gísla skólastjóra í Plássinu. Afstaða verksins gagnvart orðunum og skáldskapnum er því hin sama og stráksins, sem finnur sig knúinn til að vera orðunum trúr og verja skáldskapinn. Því í honum felst mótvægið við raunveruleikann, vonin í brjósti mannanna og sú hugljómun sem dregur þá áfram.

Í kotunum sem þeir Jens leita skjóls í á hrakningum sínum sér strákurinn aðstæður sem minna hann á foreldra hans, hörmuleg örlög þeirra og eigin uppvöxt. Hann tekur að sér að miðla bókum, koma orðum til skila, og þeir Jens skilja eftir pappír svo börnin geti notið þess ímyndaða heims er felst í teikningum og stöfum á blaði. Bókaást þjóðarinnar er þannig miðlæg í þessu öðru bindi trílógíunnar, bækurnar og orðin eru ljósið í myrkrinu, hvíldin frá erfiðinu, hátíðin í hversdeginum. Án bókanna og orðanna er í raun lítið sem ekkert eftir til að ferja mannfólkið í gegnum ósegjanlega harða lífsbaráttuna á hjara veraldar – goðsögnin um hlutverk orðanna og lærdómsins sem þau eru lykillinn að í íslenskri menningu, fær þarna byr undir báða vængi.

*

Ferðalag þeirra félaga, stráksins og Jens, er allt með miklum ólíkindabrag. Það vísar í bókmenntasöguleg kennileiti, svo sem ferð Bjarts bónda í Sumarhúsum upp á öræfin þar sem hann þarf að kljást við hvort tveggja í senn, sjálfan sig og arfleifð goðsagna eða yfirnáttúrlegra krafta. Einnig í Aðventu Gunnars Gunnarssonar, enda hefur Jón Kalman sjálfur fjallað um aðdáun sína á veðurlýsingum Gunnars, sem hann segir taka öðrum fram, nema ef til vill Joseph Conrad. [3] Einnig kallast lýsingarnar á við þjóðlegan fróðleik svo sem Söguþætti Landpóstanna og Hrakningar og heiðavegi. Og loks mætti nefna lýsingar Thors Vilhjálmssonar á landi og veðri. Strax með fyrsta manni sem þeir Jens og strákurinn hitta í leit sinni að skjóli er spurt hverjir séu á ferð, „lifandi manneskjur eða draugar?“ (HE bls. 151). Um leið veit lesandinn að hann er kominn aftur í rammíslenska forneskju, þægindi þéttbýlisins eru víðsfjarri og ljóst að á hinni einangruðu Vetrarströnd gilda önnur lögmál en í Plássinu þar sem nútíminn hefur rutt á brott trú á hindurvitni og yfirnáttúru.

Það fer enda svo að lokum að ferðalagi þeirra félaganna lýkur á hádramatískum töfraraunsæisnótum. Þeir taka að sér að ferja með póstinum lík kotbóndakonu yfir fjall og niður í næsta þorp, með fulltingi vinnumanns á bænum þar sem konan stóð uppi er þá bar að garði. Vinnumaðurinn, Hjalti, er jafnvel meira heljarmenni en Jens enda ekki heiglum hent að ýta líkkistu á sleða upp á heiðina í hríðarbyl. Eftir mikla hrakninga, villur og ófærur, birtist stráknum þúst í þreifandi bylnum. Hann telur látnu konuna vera þar á ferð, en í myndmálinu rennur hún saman við móður hans sjálfs og hugsanlega allar þær mæður sem leitt hafa mannanna börn í gegnum erfiðleika á lífsins vegi þegar ekkert virðist blasa við nema dauðinn. Þeir Jens missa sjónar af Hjalta vinnumanni og sögunni lýkur þar sem þeir renna af stað í snjóflóði og „skella loks af miklu afli á einhverju hörðu“ (HE bls. 358).

Hjarta mannsins

Hjarta mannsins (2011)

Ekkert er mér indælt utan þín

Hjarta mannsins (2011), lokabindi sögunnar af stráknum, hefst í sjúkraherbergi í læknishúsinu á Sléttueyri. Þar liggja þeir saman hann og Jens eftir að hafa slengst utan í húsvegginn með snjóflóðinu. Þeir eru ekki einungis komnir til byggða heldur einnig á annað og hefðbundnara tilverustig en það sem þeir brutust í gegnum á fjöllum. Draugar leiða þá ekki lengur áfram, og fljótlega kemur í ljós að Hjalti vinnumaður, með sína tröllslegu krafta, virðist ekki hafa verið til nema í hugskoti þeirra félaga þegar neyðin krafðist meira afls en þeir bjuggu yfir sjálfir. Jón Kalman gerir blessunarlega enga tilraun til að útskýra tilvist Hjalta, hann treystir lesandanum sjálfum til að kunna skil á flóknum tengslum hugaróra, þjóðsagna og raunsæis. Frásögnin er tryggilega komin til byggða, þótt enn eigi veður eftir að geysa.

Í þessum þriðja hluta er höfundur búinn að undirbyggja sögu sína svo vel hvað myndmál, vísanir og persónur varðar að honum reynist leikur einn að herða framvinduna nokkuð. Það er enda búið að kynna svo marga til sögunnar; rekja svo margvísleg örlög að marga hnúta þarf að hnýta ef verkið á ekki bara að rakna upp í erindisleysu. En það gerir það svo sannarlega ekki.

Eins og áður var getið hverfist þessi síðasti hluti á yfirborðinu mest um þorpslífið og þá þróun sem myndun þéttbýliskjarna fylgir. En þar fyrir utan er ástin fyrirferðarmikil í þessu bindi sem og valdabarátta og stéttaskipting. Jón Kalmann færir enn út efnistök sín og fjallar í þessu bindi einnig á afgerandi hátt um karlmennskuna og hlutskipti kvenna.

*

Þegar hér er komið við sögu er strákurinn búinn að átta sig á því að það var ekki bók sem varð Bárði að bana. Bárður dó ekki af því að lesa ljóð Miltons, heldur vegna þess að Pétur formaður sneri of seint til baka í land. Hann dó vegna þess að „hér skiptir fiskurinn meira máli en lífið“, (HM bls. 1384) eins og strákurinn orðar það. Það var sem sagt græðgi manna sem draga fisk úr sjó sem drap Bárð. Dæmigerðir rammíslenskir karlmenn á borð við Pétur formann og Jens landpóst – einnig Bjart í Sumarhúsum og Benedikt í Aðventu ef út í það er farið – „þora“ nefnilega, eins og Jens orðar það, þegar hann og strákurinn rífast yfir áttunum í óveðrinu undir lok Harms englanna: „Karlmennskan snýst um það að þora. Gefast aldrei upp. Og aldrei að beygja sig!“ (HE bls. 275). Strákurinn svarar: „Stundum eru menn eins og þú bara huglausir, þora ekki að hætta við. Pabbi drukknaði í skítaveðri, þeir fóru á sjóinn þrátt fyrir vont útlit en flestir fóru ekki neitt. Pétur þekkti formanninn. Mikið karlmenni, sagði hann, hræddist ekki neitt, aldrei. Þú hefðir átt að sjá augu Péturs þegar hann talaði um þennan formann, hefðir átt að sjá hvernig þau ljómuðu þegar hann lýsti hugrekki mannsins sem þorði ekki að víkja sér undan veðrinu, þorði ekki að víkja sér undan áhættunni. Þeir fórust allir sex. Og veistu hversu mörg börn misstu föður sinn? Hversu margar fjölskyldur voru leystar upp vegna karlmennsku formannsins?“ (HE bls. 275).

Í þessu rifrildi á fjöllum verða ekki einungis þáttaskil í lífi Jens heldur einnig í sögunni sem heild eins og síðan kemur fram í Hjarta mannsins. Þverhausinn Jens áttar sig nefnilega og tekur ekki meiri áhættu á forsendum karlmennskunnar eftir hrakninga þeirra stráksins, heldur snýr heim í faðm Salvarar og til að forða systur sinni og föður frá örlögum niðursetninga. Eftir dvölina í húsi Geirþrúðar veit strákurinn sem er að ekki getur farið öðruvísi en illa þegar ábatavon og áhættusækni er yfirsterkari öllu. Hann hefur orðið vitni að græðgi manna í fisk úti á sjó og einnig græðgi manna í fisk uppi á landi. Það fer ekki framhjá honum hvernig verslunareigandinn í þorpinu, sá sem allir nema Geirþrúður eiga líf sitt undir, reynir að knésetja Geirþrúði til að ná yfirráðum yfir fiskvinnslunni.

Geirþrúður er um margt merkileg kvenpersóna. Hún er sjálfstæð, ræður yfir fjármagni og hefur um leið nokkur völd. Hún er ástkona bresks skipstjóra sem kemur af og til í Plássið og lætur sig einu gilda þótt hann sé giftur og hún forsmáð fyrir saurlifnað. Hún hefur hafnað hefðbundnu kvenhlutverki af því tagi sem lýst er undir lok Harms englanna og kallast á við þá karlmennskuímynd er krefst þess að konan þjóni manninum: „[…] því þannig hefur það alltaf verið, […] þær sofna seint en vakna á undan öllum, undirbúa og þjónusta á meðan þeir hvíla sig, meðan þeir lesa, læra að skrifa, meðan þeir mennta sig og ná forskoti, vald kallar alltaf á óréttlæti og þó lífið sé hugsanlega fagurt þá er manneskjan ófullkomin“ (HE bls. 281–2).

Í upphafi Hjarta mannsins er strákurinn vakinn upp – nánast frá dauðum – með kossi. Sú sem kyssir hann heitir Álfheiður, ung kona sem eignast hefur barn í lausaleik og vinnur fyrir sér á Sléttueyri, þorpi sem er enn minna en Plássið. Hún skilur heiminn á áþekkan hátt og Geirþrúður og hefur um leið alla burði til að láta að sér kveða. Hún bendir stráknum á að ef guð hefði raunverulega viljað breyta heiminum; „… hefði hann sent dóttur sína, ekki soninn. Dóttir Guðs hefði dregið fram það allra versta í manninum, hún hefði verið barin og svívirt og niðurlægð og Rómverjarnir nauðgað henni fyrir krossfestinguna. Hún hefði afhjúpað það versta í okkur og það hefði kannski dugað til að breyta ykkur. Þið karlmenn hefðuð ekki komist hjá því að reyna að skilja hvað það þýðir að vera kona, hvað við höfum þurft að þola, hvað það þýðir að vera alltaf undir, hvað það þýðir að fæðast annarsflokks. En Guð skilur ekki konuna og sendi því son sinn“ (HM bls. 63).

Þessi sannleiksorð ber Álfheiður fram við jarðarför konunnar sem strákurinn og Jens drógu yfir heiðina, á meðan hundarnir í þorpinu taka lífið fram yfir dauðann með því að „ríða undir kistunni“ (HM bls. 63). Atvikið er í senn gætt djúpvisku og húmor, skáldlegum hálfkæringi sem minnir á Halldór Laxness. Það þjónar jafnframt þeim tilgangi að stilla Álfheiði upp sem yngri hliðstæðu Geirþrúðar. Ef framtíð stráksins var ekki endanlega ráðin af kossi Álfheiðar, þá ræðst hún undir þessum lestri hennar. Hann og Álfheiður hljóta að enda saman, þótt hann átti sig reyndar ekki til fullnustu alveg strax og þurfi að flækjast svolítið fyrst til að koma öðrum sögupersónum á viðunandi stað í bókarlok. Enda fer það svo að í Hjarta mannsins verða til ólíkindalegustu sambönd á milli karla og kvenna, ekki síst þegar hilla fer undir sögulok.

Geirþrúður hefur sankað undir sinn verndarvæng fólki af ólíku sauðahúsi. Allt á það þó sammerkt að hafa brotið af sér einhverja fjötra hefðbundins lífs og á þar af leiðandi í fá önnur hús að venda. Undir hennar þaki verður til sundurleit menningarklíka sem hugsanlega gæti risið í borgarastétt án þess að verða græðginni að bráð eins og þeir sem standa með Friðriki faktor og Tryggva verslunareiganda – manninum sem lifir í vellystingum erlendis og kemur einungis heim einu sinni á ári til að láta dást að sér og treysta völd sín.

Auð sinn hefur Geirþrúður eignast með hagsmunasamböndum, í upphafi við fyrsta eiginmann sinn, síðan við bókasafnarann Kolbein, og loks Snorra, sveimhugann tónelska sem á Snorraverslun og er í vonlausri samkeppni við hið raunverulega auðvald Tryggvaverslunar. Auk þessara fjárhagslegu hagsmunaaðila eru aðrir í húsinu sem gegna mismunandi hlutverkum svo sem Helga, trúnaðarvinkona Geirþrúðar sem er sigld og kann ensku, Andrea sem flúið hefur undan Pétri formanni, Ólafía sem leitar stundum til þeirra í ógöngum sínum vegna drykkju eiginmanns síns, og Einar sem líkt og Andrea og strákurinn flýr ofríkið í verinu. Raunar má bæta Gísla skólastjóra við þennan hóp því svo fer að Geirþrúður telur hann á að giftast sér eftir að henni hafa verið settir afarkostir af valdamönnum þorpsins. Giftingin þjónar hagsmunum beggja, breski skipstjórinn hefur á þessum tímapunkti farist í sjóslysi svo Geirþrúður tekur ákvörðun um hjónaband rétt eins og hver önnur viðskipti, því að öðrum kosti mun hún missa allt.

Sögunni lýkur á ferðalagi þessa fríða hóps yfir á Vetrarströndina þar sem Geirþrúður og Gísli eru pússuð saman. Jafnframt kippir Helga Einari upp í til sín en áður hafði Jens snúið til sinnar Salvarar, Andrea tekið saman við kotbóndann sem missti konu sína í miðjubókinni, Oddur náð saman við Rakel og meira að segja Snorri kaupmaður fundið samhljóm með Huldu, ófríðu stúlkunni af hótelinu. Öll þessi sambönd sem verða til eru í sögunni merkilegur vitnisburður um hugrekki til að breyta högum sínum, taka áhættu og lifa, frekar en búa í einsemd eða við kúgun.

*

Enn eitt ástarsamband til viðbótar er í burðarliðnum á þessum tímapunkti í verkinu, en það þarf þó eina átakasenu á hafi úti til viðbótar – vitaskuld í óveðri – til að koma því heim og saman. Strákurinn lætur það eftir Kolbeini blinda að ferja hann á litlum báti yfir á Sléttueyri þegar allir aðrir eru í brúðkaups- og ástarbríma í húsi prestsins á Vetrarströndinni. Ferðin hefur líka tilgang fyrir strákinn sjálfan og enn eru það orðin sem toga hann af stað. Á Sléttueyri bíður nefnilega Álfheiður og vonast eftir því að strákurinn hlýði því kalli sem hún hefur sent honum bréfleiðis. Kolbeinn ætlar sér þó aldrei að fara ferðina á enda, heldur steypa sér í sjóinn með Milton innanklæða.

Frásögnin af þessari síðustu bátsferð er með áhrifaríkustu köflum í öllum þessum mikla bálki Jóns Kalmans um strákinn og ekki síðri en upphafskaflinn með Bárði. Ef kaflinn í Himnaríki og helvíti var hlaðinn óhugnanlegu raunsæi, þá er sá síðari mótaður af töfraraunsæi. Hann er ekki síður myndrænn en sá fyrri og tvinnaður táknum sem lifað hafa verkið út í gegn. Segja má að höfundinum takist að draga alla þræði sögu sinnar saman; hugleiðingar um hafið, um dauðann, um fallvaltleikann, lærdóminn, hamingjuna og ekki síst orðin. Tilfinningaríku hinsta bréfi móður stráksins er loks teflt fram í heild. Það endar á ákalli: „Lifðu, eins og þú getur, lifðu!“ (HM bls. 370), sem loks skýrir ákafan lífsvilja stráksins í gegnum allar þær hremmingar sem honum hafa mætt. Ósk móðurinnar virðist þó ekki eiga að rætast, því það sem strákurinn óttast mest, að drukkna eins og pabbi sinn, virðist skyndilega ætla að verða að veruleika. Kolbeinn er svo klaufskur við að steypa sér útbyrðis að hann hvolfir bátskelinni svo þeir lenda báðir í sjónum.

Í þessum bókmenntalega óði til sjómanna fortíðar, sem trílógían um strákinn vissulega er, kemur nokkrum sinnum fram sú undarlega staðreynd að íslenskir sjómenn um aldamótin 1900 kunnu ekki að synda. Og það kann strákurinn ekki heldur og er því bjargarlaus í hafinu. Þá kemur aftur til kasta Álfheiðar, stúlkunnar sem kyssti hann til lífsins í læknishúsinu, því hún er flugsynd. Hún hefur fylgst með bátnum, beðið hans, og nær að draga strákinn úr hrammi hafsins inn í hellisskúta í sjávarklöpp.

*

Það fer vel á því að höfundur gefi ekki upp hvort sú ástarstund er þau njóta þar strákurinn og stelpan er þeirra síðasta; óljóst er hvort hafið mun taka þau með sér eða þyrma þeim. Ýmis björt teikn hvað það varðar eru á lofti frá höfundarins hendi ef taka má mark á vísunum í bókmenntaarfinn. Álfheiður nútímaleg stúlka og því ekki fisjað saman frekar en öðrum kvenpersónum sem kunna að synda í bókmenntasögunni. Sund hefur í sögum kvenna ýmist verið tákn frelsis þeirra eða hæfileikans til að lifa af. Nægir að nefna Ednu, söguhetju Kate Chopin í Sálin vaknar, sem syndir á vit frelsisins og kýs að deyja þannig fremur en beygja sig undir feðraveldi og smáborgaraskap. Einnig Esther Greenwood, í Glerhjálmi Sylviu Plath, sem er svo góð sundkona að henni tekst ekki að drukkna sama hvað hún reynir, og loks stúlkuna í smásögunni meistaralegu Sund, eftir Svövu Jakobsdóttur, sem lærir að fleyta sér á meðan líf ömmu hennar, markað kvenlegri þjónustulund fyrri tíma, fjarar út.

Annað teikn er skilur lesandann eftir með þá von í hjarta að „lifðu!“, ákall móður stráksins rætist, eru ljóðlínur Paradísarmissis sem skjóta upp kollinum líkt og í kaflanum um dauða Bárðar. Þessar línur móta söguna í hring, því þótt Bárður í upphafi Himnaríkis og helvítis hafi ekki fengið að njóta Sigríðar sinnar eins og strákurinn fær að njóta Álfheiðar í hellinum, þá gafst hann aldrei upp á orðunum. Ekki einu sinni þótt hann þyrfti að deyja þeirra vegna. Þvert á móti notaði hann síðustu orkuna til að hvísla að stráknum ljóðlínunni sem hann var búin að læra og hafði vitnað til í hinsta bréfi sínu til unnustu sinnar; „ekkert er mér indælt utan þín!“ (H&H bls. 81).

Þetta voru síðustu orðin sem Bárður mælti í lífinu, og þau eru ekki einungis skáldskapur í þeim kringumstæðum sem hann mælir þau, heldur sannur og karlmannlegur hetjuskapur sem hann blæs stráknum í brjóst; ástarjátning og óður til lífsins frekar en dauðans. Þessi sömu orð hrópar strákurinn þegar hann er að drukkna í sjónum; „Hrópar það í þrígang og af öllum kröftum, sendir það upp eins og neyðarblys […]“ (HM bls. 378). Og þessi kynngimögnuðu orð Miltons og Jóns frá Bægisá verða til þess að Álfhildur kemur auga á hann. Orðin verða stráknum til bjargar, að minnsta kosti um sinn – rétt eins og þau verða Bárði að bana. Og svo mikið er víst að ef strákurinn lifir þá á hann góða von um að láta draum foreldra sinna um að lifa upplýstu lífi rætast, með nútímakonunni Álfhildi og undir verndarvæng Geirþrúðar.

*

Jón Kalman hefur unnið þrekvirki með þessu mikla verki sem er óvenju vel skrifað og ígrundað. Frásagnarmátinn er eins og áður sagði einstakur; í senn áleitinn og ljóðrænn. Höfundinum tekst að gera grein fyrir samfélagsþróun, þjóðháttum og mannlífi á Íslandi rétt áður en nútíminn hélt innreið sína, í sömu andrá og hann greinir þýðingu heimsbókmenntanna fyrir þessa bókelsku þjóð; hlustar eftir andardrætti orðanna, eftir heiminum á bak við heiminn, eins og segir í Harmi englanna.

Í þessum þremur bindum býður höfundurinn upp á ýmsar snjallar myndir af helvíti (og einstaka himnaríki): „Helvíti er dáin manneskja“ (bls. 88), „helvíti er að hafa handleggi en engan til að faðma“ (bls. 40), „[h]elvíti er að vita ekki hvort maður er dáinn eða lifandi“ (bls. 103) og himnaríki er „kaffi og rúgbrauð“ (H&H bls. 84). Heitasta helvítið af öllum miðað við boðskap þessara bóka hlýtur þó að vera heimur án orða.

Fríða Björk Ingvarsdóttir

 

Tilvísanir

  1. HE: Harmur englanna eftir Jón Kalman Stefánsson, Bjartur, 2. útgáfa 2010.
  2. H&H: Himnaríki og helvíti eftir Jón Kalman Stefánsson, Bjartur, 2. útgáfa, 2. prentun 2010.
  3. Sjá; „Um Gunnar Gunnarsson, Aðventu og skuggann í höfði okkar“, Jón Kalman Stefánsson, Lesbók Morgunblaðsins, 14.01.2006.
  4. HM: Hjarta mannsins eftir Jón Kalman Stefánsson, Bjartur, 1. útgáfa 2011.