Aðstandendur Hunds í óskilum, fjölhæfu grínistarnir Hjörleifur Hjartarson og Eiríkur G. Stephensen, byrja nýju revíuna sína, Öldina okkar, á því að koma manni rækilega á óvart. Þeir flytja textann hans Kris Kristoffersonar, Help me make it through the night, undir fornu rímnalagi. Fyrir utan að vera morðfyndið atriði geymir textinn auðvitað gott mottó fyrir grín á borð við Öldina okkar: „Gærdagurinn er dauður og horfinn og morgundagurinn ennþá ókominn. Það er ömurlegt að vera aleinn. Hjálpaðu mér til að lifa nóttina af.“
Það reynist algerlega vandalaust að lifa kvöldið og nóttina af með þeim félögum á Nýja sviði Borgarleikhússins. Þeir fara á sínu sérstæða hundavaði yfir síðustu tvo áratugi í lífi þessarar þjóðar (sem jafnframt er líftími Hunds í óskilum), hvert atriðið rekur annað í söng og leik og jafnvel dansi: stjórnmál (bæði landsins og heimsins), skólamál, bankamál, bláa höndin. Kristnihátíðin á Þingvöllum árið 2000 fær sinn góða skammt, DO og Dóri og valdatími þeirra sömuleiðis, Jóhanna, Steingrímur og villikettirnir. Falun Gong og árásin á tvíburaturnana; búsáhaldabyltingin og Hörður Torfason. Sum þessara atriða voru svo fyndin að ég fékk magakrampa.
Ennþá skemmtilegri voru þó atriðin þar sem hagmælska höfundar fékk virkilega að njóta sín og Hjörleifur flutti ýmist í söng eða tali. Söngurinn um Indriða á Sandi sem stundaði vændi, stundum með hundum og kindum, á heimsmet í -nd- innrími. Söngurinn um konuna sem skipti um kyn tölu og fall átakanlega ljóðið um einmana, blanka bankamanninn sem endar á þessu áhrifamikla erindi:
Minn hugur er snauður, hendurnar tómar
og hjartað er bugað af sorg.
Ég er útlánafulltrúinn ástvinalausi
í erlendri milljónaborg.
Mun margur íslenski milljónamæringurinn í útlegð, týndur sínu fólki, geta tekið undir þennan söng.
Toppurinn var þó langa rímaða minningargreinin um Sigurlinna þar sem ég held að bróðurparturinn af íslenskum örnefnum hljóti að vera saman kominn, því Sigurlinni fór víða og snerti líf fólks frá hreint öllu landinu. Þvílíkur snilldarbragur!
Eins og eðlilegt er í svona revíu-yfirliti nær maður ekki öllu og ekki höfðar allt til allra en þeir Hjörleifur og Eiríkur eru miklir grínmeistarar og leikstjórinn Ágústa Skúladóttir hefur á þeim hæfilegan aga svo að úr verður dæmalaust góð skemmtun.