Nýtt verk Sigurðar Pálssonar, Utan gátta, sem er sýnt í Kassanum í Þjóðleikhúsinu, hefur fengið virkilega fín viðbrögð gagnrýnenda eins og það á skilið. Þetta er dásamlegt verk, fyndið og furðulegt en sýnir okkur samt ofan í regindjúp mannlegrar reynslu, án þess að rembast nokkurn tíma. Að óreyndu hefði ég ekki ímyndað mér að hægt væri að skrifa svona verk – hvað þá setja það upp á eins hugmyndaríkan og frjóan hátt og Kristín Jóhannesdóttir hefur gert.
Leikritið er frá hendi Sigurðar fyrir tvær raddir, óljósar að kyni og stöðu í veröldinni í tíma og rúmi, en sem eru fulltrúar okkar, þeirra sem ekki ráða neinu en feykjast til og frá undan pólitískum vindum og náttúruhamförum. Þetta er fólkið sem þolir allt, umber allt, bíður bara meðan stormurinn gengur yfir, kemur sér kannski í skjól, óttast og kvíðir, en er furðufljótt að jafna sig nóg til að fara að hugsa um eigin búksorgir, gantast og þrefa. Hinn eilífi maður, án takmarks og tilgangs, sem Steinn Steinarr orti svo vel um. Við getum öll heyrt til okkar sjálfra í þessum röddum.
Snilld leikstjórans felst meðal annars í því að skipta replikkunum á fjóra leikara í stað tveggja sem jók mjög á fjölbreytni og vídd verksins. Þar að auki var sviðið frábærlega gert af Gretari Reynissyni, í senn einfalt og táknrænt, og búningarnir vel hugsaðir. Sýningin var óumræðilega fyndin og skemmtileg sem myndverk inni í þessari umgerð, leikurinn með innkomur og útgöngur leikaranna fjögurra var engu líkur. Sumar skyndimyndirnar reyndi maður að festa sér í minni til að geta kallað fram seinna, en fjöldi þeirra varð smám saman minninu ofviða.
Það sem endanlega gerir þessa sýningu þó algert möst fyrir alla sem áhuga hafa á leikhúsi er sjálfur leikurinn – list leikarans á sviðinu. Þvílík færni sem þau sýna, svipbrigði, hreyfingar, kómísk og harmræn viðbrögð, takmarkalaus innsýn í verk höfundar. Við höfum tekist á um það hér á heimilinu hver beri af og ekki orðið sammála, enda hygg ég að hver einn og einasti áhorfandi eigi sér sinn eftirlætistúlkanda. Það er líka nóg að telja þau upp, við vitum öll hvað þau geta þegar þau gera sitt ýtrasta: Kristbjörg Kjeld, Arnar Jónsson, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Eggert Þorleifsson. Þetta er, elsku vinir, bara toppurinn. Fyrir alla muni: Ekki missa af þessari sýningu.
Silja Aðalsteinsdóttir