Gunnella Hólmarsdóttir býður nú áhorfendum í Tjarnarbíó að vera viðstaddir matreiðsluþátt í beinni útsendingu í sjónvarpi í einleiknum Hvað ef sósan klikkar? Hún tekur myndarlega á móti okkur þegar við mætum í „sjónvarpssal“, kennir okkur að brosa, hlæja og klappa á ólíkan hátt á ólíkum stöðum og þegar klukkan er komin hefst hún handa við eldavélina. Hún ætlar hvorki meira né minna en að elda klassískan jólamat, hamborgarhrygg með öllu tilheyrandi – og þar skiptir sósan auðvitað höfuðmáli eins og allir Íslendingar vita. Gunnella semur textann sjálf og sér um leikmyndina en hún hefur sér til halds og trausts Andrés Þór Þorvarðsson sem sér um hljóðmyndina og Kjartan Darra Kristjánsson sem stýrir ljósunum. Þeir áttu báðir sinn þátt í leiknum líka þótt ekki sæjust þeir á sviðinu.
Þetta er 45 mínútna þáttur og mikið að gera hjá kokkinum að ná öllu á réttu hitastigi á réttri mínútu og ekki fer allt eins og hún ætlast til. Ekki eru annirnar heldur alltaf jafnmiklar, til dæmis er suðan lengi að koma upp á kartöfluvatninu, og þegar hún er búin með allan fróðleikinn sem hún hefur undirbúið þarf hún að grípa til annarra ráða til að halda áheyrendum góðum. Raunar langar hana kannski meira til að syngja fyrir okkur eða kenna okkur leikfimisæfingar Jane Fonda, einhvern veginn lenti hún bara í eldamennskunni.
Þegar hlé verða á upptökunni (auglýsingahlé?) heyrum við samtöl Gunnellu við móður sína og ömmu sem eru greinilega báðar hressir og sjálfsöruggir kokkar og skemmtilegar konur. Gunnella þráir að vera líkari þeim, einkum ömmunni. Þær eru báðar sérstakir snillingar í sósugerð og hápunktur einleiksins er einmitt sósugerðin undir lokin. Spennan verður illbærileg: Hvað ef sósan skyldi klikka?
Nú er ég ekki sérlegur áhugamaður um matreiðsluþætti en af þeim sem ég hef horft á undanfarin ár ræð ég að Gunnella sé fremur gamaldags í listinni. Hún er klædd í kjól sem ekki virðist vera sérlega þægilegur í eldhúsverkin þótt snotur sé og hælaháa skó. Enda kemur í ljós að viðmið hennar er Julia Child sem var virkust á 7. og 8. áratug síðustu aldar. Kannski ætti hún fremur að taka mið af Nigellu sem alltaf er svo sallaróleg. En Gunnella ætlar sér ekki beint að kenna okkur að matreiða heldur skemmta okkur og það tekst alveg ágætlega. Sjálfsagt gátu flestir tengt við vandann sem hún glímdi við þarna á sviðinu og rifjað upp sínar bestu og verstu stundir í eldhúsinu.
Silja Aðalsteinsdóttir