Björn Halldórsson / Mynd: Gassi

Björn Halldórsson / Mynd: Gassi

eftir Björn Halldórsson

Úr Tímariti Máls og menningar, 2. hefti 2021

 

 

 

Hann er mættur tímanlega fyrir utan raðhúsið á Álftanesinu, veifar Siggu í eldhúsglugganum og sér glitta í Hrein á bak við hana. Hún snýr sér við og segir eitthvað við Hrein, eða strákinn. Óttar hallar sér aftur að bílnum og bíður með hendur í vösum; heldur sig sín megin götunnar. Skömmu seinna opnast útidyrnar og sonur hans birtist, klæddur rauðri úlpu og derhúfu skreyttri tveimur illskeyttum augum. Sigga og Hreinn standa á tröppunum og veifa á eftir honum. Óttar veifar á móti, tekur síðan utan um son sinn og segir: „Sæll, félagi.“ Orri slítur sig strax lausan úr faðmlaginu og muldrar: „Hæ, pabbi.“

Þeir setjast upp í en þegar Óttar snýr lyklinum glymur of hátt stillt tónlist. Hann flýtir sér að slökkva á útvarpinu og vonar að Sigga og Hreinn hafi ekki heyrt.

„Ertu með allt sem þú þarft fyrir skólann?“ spyr hann áður en þeir keyra af stað. Sigga ítrekaði kvöldið áður að það væri heimaverkefni í trúarbragðafræði sem þyrfti að klára fyrir mánudaginn. Krakkarnir ættu að útbúa plaköt um mismunandi trúarbrögð með aðstoð foreldra sinna. Orra var úthlutað búddisma.

„Já,“ svarar strákurinn þegjandalega. Það er búin að vera einhver unglingaveiki í honum undanfarið, svo það er varla hægt að ná upp úr honum orði. Honum brá augljóslega við hávaðann í útvarpinu en er strax farinn að fitla við símann sinn.

„Við finnum út úr þessu saman, er það ekki?“ Hann fær ekkert svar frá stráknum svo hann kveikir aftur á útvarpinu. Stillir á eina af nostalgíu-stöðvunum sem leika tónlistina sem hann man eftir frá unglingsárum, en þar er verið að spila eitthvert boyband-kjaftæði svo hann heldur áfram að leita.

„Hvað finnst þér best að hlusta á?“ spyr hann son sinn.

Orri er niðursokkinn í símann í farþegasætinu. Síminn var gjöf frá Siggu og Hreini. Þau höfðu talað um að bíða með snjallsímann þar til hann fermdist en svo voru víst allir krakkarnir í skólanum komnir með svoleiðis. „Ha?“ segir Orri, án þess að líta upp.

„Hver er uppáhaldsstöðin þín? Á hvað hlustar þú mest?“ endurtekur Óttar.

„Veit ekki. Bara það sem er í gangi. Ég hlusta aðallega á símanum.“

„Á hvað?“

Strákurinn otar símanum að Óttari. „Á símanum.“

„Nei, ég meina, á hvað ertu að hlusta í símanum?“

„Bara. Tónlist og svoleiðis,“ svarar Orri, sökkvir sér síðan aftur ofan í tækið. Spilar vídeó af hundi sem lítur út eins og tuskubangsi og Óttar hækkar í útvarpinu til að yfirgnæfa gjammið í kvikindinu.

 

 

2

Þeir keyra heim í Grafarholtið. Óttar er nýfluttur inn, það eru ennþá stæður af kössum alls staðar og ekkert komið á veggina, en í herberginu hans Orra er skrifborð og skrifborðslampi úr IKEA og koja með stiga til að nýta betur gólfflötinn í herberginu, allt glænýtt. Óttar var að til þrjú um nóttina að skrúfa þetta saman, reyndi að fylgja leiðbeiningunum nákvæmlega en kojan vaggar samt ótæpilega þegar hann hristir hana til. Þetta er fyrsta íbúðin þar sem hann er með herbergi fyrir son sinn og þarf ekki að láta honum eftir rúmið sitt og bylta sér sjálfur á svefnsófanum alla nóttina. Undir kojunni er lítil bókahilla, líka ný, og í henni nokkrar gamlar barnabækur í slitnu bandi sem hann fann í geymslunni hjá mömmu sinni þegar hann var að tæma íbúðina hennar. Hann er að hugsa um að mála einn vegginn bláan, eða hvernig sem Orri vill svosem hafa hann á litinn, þegar tími gefst en þangað til er eini liturinn í herberginu innrammað plakat með málverki eftir Monet – vatnaliljur í ljósbláum og hvítum klessulitum. Plakatið er líka frá Dórótheu, mömmu Óttars. Það hékk inni í eldhúsi hjá henni og er orðið upplitað af sól; hann þurfti að skrúbba það allt með sápu til að ná ryk-og fitulaginu af glerinu. Óttar setti það fyrst upp inni í stofu en færði það síðan inn til stráksins því honum fannst herbergið svo tómlegt.

„Hvernig líst þér á nýja herbergið?“ spyr hann.

„Það er flott,“ segir sonur hans.

„Ég verð kominn með gluggatjöld næst.“

„Þetta er fínt.“

Hann strýkur syni sínum um derhúfuna. „Flottur,“ segir hann. „Ertu tilbúinn í keilu?“

„Núna?“

„Já, það er tveir fyrir einn fyrir klukkan fimm.“

Það er eitthvert hik í stráknum. „Finnst þér ekki gaman í keilu?“ spyr Óttar.

„Jújú,“ viðurkennir strákurinn.

„Það er fínt að fara snemma. Þá höfum við staðinn út af fyrir okkur, engar raðir í þythokkíið heldur.“

„Ókei!“ segir Orri og hressist við. „Ég þarf samt líka að læra,“ bætir hann við og Óttari hlýnar af stolti. Svo samviskusamur, þessi litli gaur.

„Við verðum ekki lengi. Svo höfum við allan morgundaginn.“

Þeir drífa sig aftur út í bíl en þegar Óttar fer út Grafarvogsmegin á hringtorginu og beygir í átt að Reykjavík kemur fát á strákinn.

„Hvert erum við að fara?“ spyr hann.

„Nú, í Keiluhöllina, í Öskjuhlíðinni.“

„Hún er lokuð.“

„Neinei, það er alveg opið. Þau opna snemma en það eru fáir þar á daginn.“

Strákurinn hristir hausinn. „Það fara allir upp í Egilshöll núna.“

„Ha?“ hváir Óttar. „Ég hélt að það væri bíó.“

„Það er allskonar þar. Það er líka hægt að fara á skauta og í fótbolta. Gunni T var með keilupartý þar þegar hann átti afmæli. Hann bauð öllum bekknum.“

„Já, ókei,“ segir Óttar, órólegur. Þeir hefðu svosem alveg eins getað farið í Egilshöllina, ef það er það sem Orri vill. Það er mun styttra þangað úr Grafarholtinu en hann nennir ekki að snúa við úr þessu. „Við ætlum samt í Öskjuhlíðina. Það er rólegra og líka tveir fyrir einn.“

„En það er lokað í Öskjuhlíðinni!“ Óttari bregður þegar hann heyrir að strákurinn er farinn að snökta. Hann beygir inn á bensínstöðina í Ártúnsbrekkunni og finnur kyrrlátan stað á planinu til að stöðva bílinn. Orri virkar skelkaður, eins og hann búist við að pabbi hans muni hóta því að skila honum aftur heim til Siggu og Hreins.

„Heyrðu, kall,“ segir Óttar og reynir að vera mildur í tón. „Ég veit að þig langar að fara í Egilshöll af því að þér finnst það flottara, en við erum að fara í Öskjuhlíðina. Þau opna snemma um helgar en það er frekar rólegt frameftir degi, svo maður hefur staðinn út af fyrir sig. Sjáðu bara til, það er miklu skemmtilegra. Ókei?“ Orri situr álútur í sætinu, fitlar við læsinguna á hanskahólfinu til að komast hjá því að horfast í augu við pabba sinn. Ætli hann sé að gera of mikið úr þessu? Nei, maður verður að sýna smá festu, ekki leyfa krökkum að ráðskast með sig. Orri á eftir að þakka pabba sínum það þótt síðar verði. Það gengur ekki að fara að kjökra yfir svona smámunum. Jafnaldrar stráksins munu aldrei láta hann í friði ef þeir uppgötva að það sé svona auðvelt að hrista upp í honum.

„Kommon, þetta er ekkert til að skæla yfir, er það nokkuð?“ segir Óttar og reynir að hressa drenginn við. Hann bíður þar til Orri þerrar tárin og kinkar lúpulega kolli, ekur svo af stað og sveigir aftur inn í umferðina.

 

 

3

Það er krökkt á bílastæðinu fyrir utan Keiluhöllina. Óttari er létt að sjá að það er ekki lokað en hann var samt að vonast til að það væri lítið að gera þar í hádeginu. Að lokum finnur hann stæði og feðgarnir labba á milli bílanna í átt að innganginum, Orri í humátt á eftir pabba sínum. Inni er óttalegur hávaði. Þó ekki gamalkunnu drunurnar í keilum og kúlum heldur einhverjir dynkir og stunur, eins og það séu áflog í gangi. Fólk í skræpóttum íþróttafötum stendur í þyrpingu að spjalla og súpa vatn úr plastflöskum. Á bak við gler sér hann tvær stelpur í fangbrögðum. Skyndilega sveiflar önnur hinni yfir mjöðmina á sér og þær skella báðar í gólfið.

„Daginn,“ er sagt hressilega á bak við þá. Óttar snýr sér við og kemur auga á samanrekinn gaur sem stendur á bak við afgreiðsluborð og glottir. Hann er klæddur í stuttbuxur og hlýrabol, með svera upphandleggsvöðva sem eru undirlagðir húðflúrum; víkingabálför á annarri öxlinni og einhvers konar fuglahræða á hinni. „Hvað segið þið, strákar,“ segir hann. „Get ég eitthvað aðstoðað?“

„Við ætluðum nú bara að fara í keilu,“ útskýrir Óttar.

Gaurinn starir á hann. „Já, heyrðu. Þú ert eitthvað villtur, karlinn. Það eru mörg ár síðan það hætti. Þú verður að fara upp í Egilshöll ef þú ætlar í keilu.“

„Já, er það?“ segir Óttar, kann ekki alveg við tóninn í gaurnum, sem er töluvert yngri en hann sjálfur.

„Þið viljið kannski fara inn og skoða?“ spyr afgreiðslumaðurinn. „Þetta er gott sport, töluvert meira aktíft en keila, sko.“

Óttar hristir höfuðið. „Nei, takk,“ svarar hann og hlær, nikkar í átt að glerveggnum handan afgreiðslunnar, þar sem stelpurnar byltast ennþá um á gólfinu. „Svona gamnislagir eru held ég best geymdir á skólalóðum.“

Það sljákkar í nagginum og hann virðist hálfmóðgaður, þótt Óttar hafi nú bara ætlað að gera að gamni sínu: „Þú um það,“ segir hann, þurr á manninn. „Skemmtið ykkur í keilu.“

„Takk, við gerum það,“ svarar Óttar til að leyfa honum ekki að eiga síðasta orðið en þegar hann snýr sér við áttar hann sig á að sonur hans er á bak og burt.

„Orri!“ kallar hann og skimar yfir anddyrið og inn í salinn.

Afgreiðslumaðurinn sér aumur á honum og bendir í átt að útganginum. „Hann fór út á bílastæði.“

 

Hann finnur strákinn handan við hornið, undir vegg sem hann áttar sig nú á að búið er að skreyta með risastórum Þórshamri. „Þú mátt ekki hlaupa svona í burtu,“ segir hann hastur. „Ég vissi ekkert hvað hafði orðið af þér.“

„Ég sagði þér að Keiluhöllin væri hætt!“ segir Orri æstur. „Hún hætti fyrir löngu. Hreinn fer stundum hingað að lyfta ketilbjöllum.“

„Já, það var rétt hjá þér, fyrirgefðu,“ segir Óttar sefandi röddu, reynir að róa strákinn sem er aftur kominn með tárin í augun. „Mér fannst bara eitthvað svo stutt síðan við komum hérna síðast, manstu?“ Hann áttar sig allt í einu á að Sigga var með í þeirri heimsókn, sem þýðir að strákurinn getur ekki hafa verið meira en sex ára eða svo. „Sorrí, það er líklega lengra síðan en ég hélt.“ Hann dæsir og virðir fyrir sér Þórshamarinn sem hangir yfir þeim eins og spurningarmerki. „Jæja, félagi, hvað gerum við þá?“

Orri svarar ekki, segir ekki orð meir um Egilshöll. Pabbi hans virðir fyrir sér kjarrið í kringum bílastæðið og bláan himininn yfir þeim

„Eigum við kannski bara að koma í göngutúr?“ stingur hann upp á.

 

 

4

„Hérna,“ segir Óttar við son sinn þegar hann klifrar niður af veggnum sem skilur gryfjurnar frá bílastæðinu. „Hérna var herinn. Enginn veit hvað þeim stóð til með þessum gryfjum, það var alveg top secret. Þeir notuðu þetta í einhverjar æfingar en sumir segja að þetta hafi líka átt að verða síðasta víglínan, svona eins og skotgrafir.“

Strákurinn virðir fyrir sér gryfjuna. Á miðju svæðinu eru leifar af bálkesti og það liggja bjórdósir og sígarettustubbar úti um allt. „Hvað eru skotgrafir?“ spyr hann.

„Það er svona eins og þeir voru með í fyrri heimsstyrjöldinni, hefur þú ekki lært um það í skólanum? Það eru skurðir sitt hvorum megin víglínunnar sem hermennirnir eru ofan í og svo plaffa þeir á hvor annan. Alveg hrikalegt.“

„Það er mikið af drasli hérna,“ segir Orri.

„Já, alveg ótrúlegt hvað sumt fólk er illa upp alið,“ samsinnir Óttar annars hugar. „Komdu, ég skal sýna þér hvar við bjuggum til virki í gamla daga.“

 

Það tekur hann dálitla stund að finna staðinn en á endanum ramba feðgarnir á hátt grenitré sem Óttar kannast við. Neðstu greinarnar skaga út yfir dæld í jörðinni og á bak við það stór klettur.

„Hérna, sérðu,“ segir Óttar. „Hérna skriðum við undir til að fela okkur. Við hlóðum sprekum í kring og þá var maður kominn með fínasta virki.“

Orri virðir fyrir sér molduga holuna og sveran föður sinn. Það er auðsýnilegt að myndin kemur ekki heim og saman í huga hans. „Af hverju voruð þið að fela ykkur?“ spyr hann.

„Ja, við vorum nú kannski ekki beint að fela okkur, nema kannski fyrir Hrabba túttu. Þetta var bara góður staður til að lesa Andrés eða fara í byssó. Eða ef mamma var búin að fá nóg og vildi fá mann út úr húsi.“

„Hver er Hrabbi tútta?“

„Hann var aðalhrekkjusvínið í hverfinu, algjör fantur,“ útskýrir Óttar. „Núna stýrir hann sértrúarsöfnuði í Kópavogi. Hann átti alltaf auðvelt með að fá fólk í lið með sér.“

„Af hverju hét hann Hrabbi Tútta?“ spyr Orri, uppfullur af áhuga á þessari goðsagnapersónu úr fortíð föður síns.

„Út af túttubyssunum. Hann var alltaf með túttubyssu á sér og notaði hana til að hóta manni. Þið eruð ekkert ennþá að gera túttubyssur í dag, er það nokkuð?“

Orri hristir hausinn.

„Gott,“ segir Óttar.

Feðgarnir stara eilítið lengur á holuna og Óttar gefur syni sínum hornauga, reynir að sjá hvort eitthvað af þessu sé að síast inn í hann. Hann ímyndar sér Orra sem fullorðinn mann, í göngutúr í Öskjuhlíðinni með fjölskyldunni, að segja börnunum sögur af afa þeirra. Eitthvað heitt og þungt gýs upp í brjóstkassanum á honum og þrengir að hálsinum þar til hann verður að ræskja sig.

„Jæja,“ segir hann. „Eigum við að koma okkur heim?“

 

 

5

Þeir ná sér í Dominos-pítsur á leiðinni heim. Óttar er búinn að vera að éta þær alla vikuna, því það er ennþá allt á rúi og stúi í eldhúsinu eftir flutningana, en hann passaði að fara með pítsukassastaflann út í tunnu áður en strákurinn kæmi. Stúlkan í afgreiðslunni er nokkrum árum eldri en Orri og brosir bjart við feðgunum á meðan þeir eru að ákveða sig. Óttar skemmtir sér við að fylgjast með feimninni í stráknum, hvernig hann felur sig undir derhúfunni á meðan Óttar segir pabbabrandara við stelpuna sem flissar kurteislega á móti og reynir að ná augnsambandi við þann næsta í röðinni.

Heima setur hann nýlega ofurhetjumynd í gang á meðan þeir borða pítsurnar. Hann hlóð henni niður á flakkarann svo að þeir gætu horft á hana saman en Orri lítur varla upp úr símanum.

„Ertu ekkert að horfa?“ spyr Óttar.

„Ég hef séð hana,“ segir strákurinn.

„Af hverju sagðirðu það ekki? Ég get sett eitthvað annað í gang.“

Orri ypptir öxlum án þess að svara, hefur ekki augun af símanum, þar sem eitthvað tölvuleikjamyndband er í gangi.

„Halló, við erum að tala saman,“ segir Óttar og hrifsar af honum símann.

Orri bregst hinn versti við. „Æi, pabbi! Kommon!“ Hann reynir að teygja sig eftir símanum en Óttar stingur honum í skyrtuvasann og hneppir fyrir.

„Nei, þetta er orðið gott í kvöld.“ segir hann. „Það er ekki hollt að vera með nefið alltaf ofan í einhverjum skjá. Svo er það líka ókurteisi. Þú færð hann aftur á morgun.“

„En ég þarf símann til að læra,“ mótmælir strákurinn og Óttar man skyndilega eftir heimaverkefninu. Þeir klára samt myndina, þótt hvorugur sé í raun að horfa. Óttar á erfitt með að einbeita sér að plottinu og hefur gætur á syni sínum. Svipurinn er óræður. Hvað ætli hann sé að hugsa? Er hann að óska þess að hann væri frekar á Álftanesinu, hjá Siggu og Hreini?

Klukkan er orðin margt þegar myndin klárast en þeir breiða samt úr pappaspjaldinu á eldhúsborðinu og fletta í gegnum skólabókina í leit að einhverjum krassandi staðreyndum sem þeir geta notað á plakatið. ÞAÐ ERU ENGIR GUÐIR Í BÚDDATRÚ skrifar Orri á blað og vandar sig við að teikna hástafina og láta orðin passa á línurnar.

 

BÚDDATRÚ ER FJÓRÐU STÆRSTU TRÚARBRÖGÐ Í HEIMI OG Á SÉR FYLGJENDUR Í ÖLLUM HEIMSÁLFUM.

BÚDDA, SEM ÞÝÐIR „HINN UPPLÝSTI“, HÉT Í RAUN SIDDHARTA OG FÆDDIST INN Í RÍKA FJÖLSKYLDU EN AFSALAÐI SÉR EIGUM SÍNUM TIL AÐ LEITA UPPLJÓMUNAR.

 

„Verst að við erum ekki með prentara,“ segir Óttar og virðir fyrir sér mandöluna sem hann er að reyna að teikna eftir mynd sem þeir fundu á netinu. Línurnar eru allar skakkar og skældar og trélitirnir sem Orri kom með sjást ekki almennilega á pappírnum. „Þá gætum við bara prentað þetta út frekar en að þurfa að föndra svona.“

Þegar komið er að því að klippa út og líma kemur í ljós að skærin vantar í pennaveskið. Óttar er búinn að snúa öllu við í kössunum í eldhúsinu í leit að eldhússkærunum þegar síminn hans hringir. Þetta er Íris, kærastan hans. „Gáðu hvort þú finnur skæri í skrifborðinu mínu inni í svefnherbergi,“ segir hann við son sinn, fer síðan fram í forstofu og lokar á eftir sér áður en hann svarar.

„Hvernig gengur?“ spyr Íris. Það er hávaði á bak við hana. Þegar hún frétti að hún gæti ekki gist um helgina af því að strákurinn væri að koma ákvað hún að skella sér á glens með vinkonunum sínum. „Girls night out!

„Það er bara næs hjá okkur,“ segir hann. „Við erum að klára heimalærdóminn.“

„Æ, en sætt,“ kurrar í henni. „Þú ert svo góður pabbi.“

Óttar þegir og bíður. Hann á erfitt með Írisi þegar hún drekkur. Stundum minnir hún hann á mömmu hans, sem átti það til að verða þung og tilætlunarsöm þegar hún var í glasi, eins og hún var annars blíð.

„Stelpurnar eru að fara heim,“ segir Íris. „Er ekki séns að þú getir komið og sótt mig? Mig langar ekki að vera heima hjá mér í nótt. Soffía og kærastinn eru þar.“

Voru þau ekki búin að útkljá þetta? „Eins og ég sagði, það gengur ekki í kvöld,“ segir hann. „Strákurinn er hérna, hann hefur ekki hitt þig.“

„Já, en finnst þér ekki vera kominn tími til að ég kynnist honum?“ maldar Íris í móinn. „Við getum gert eitthvað skemmtilegt saman á morgun, öll þrjú.“

Óttar hikar, kann ekki við þessa ýtni. Þó þau Sigga séu búin að vera skilin í fleiri ár þá hrýs honum hugur við að Orri komi heim með fréttir af nýju kærustu pabba síns, sem er töluvert yngri en þau bæði. Hann getur rétt ímyndað sér svipinn á Siggu. „Ekki strax,“ segir hann. „Það kemur að því.“

„Skammastu þín eitthvað fyrir mig?“

„Nei, ástin mín, auðvitað ekki. En ég heyri alveg að þú ert búin að vera að fá þér. Ég get ekki boðið Orra upp á það.“

„Búin að vera að fá mér?“ hváir Íris. „Vá. Ókei, takk! Gott að vita!“

„Æi, Íris. Láttu ekki svona,“ segir hann með þreytu í röddinni en hún er búin að skella á. Óttar stendur einn eftir í forstofunni og hugsar með sér að þetta sé nú að verða komið gott hjá þeim.

Þegar hann kemur aftur fram í stofu stendur Orri í gættinni á svefnherberginu og fylgist grannt með honum. „Var þetta mamma?“ spyr hann.

„Nei, þetta var bara félagi minn,“ lýgur Óttar. „Hvað ertu með þarna?“ spyr hann síðan til að breyta um umræðuefni. Orri er laumulegur, heldur á einhverju. Hann opnar lúkuna og sýnir pabba sínum ryðgaðan vasahníf sem Óttar átti sjálfur þegar hann var strákur. Hnífurinn hefur lúrt í skrifborðsskúffunni árum saman, Óttar var eiginlega búinn að gleyma honum. Strákurinn reynir að opna hnífinn en tekst það ekki.

„Hérna, sjáðu,“ segir Óttar, tekur hnífinn og sýnir syni sínum litlu sveifina sem læsir blaðinu. Blaðið er bitlaust og orðið stíft af ryði og Óttar liðkar það fram og aftur áður en hann réttir hnífinn til baka.

„Áttu vasahníf?“ spyr hann. „Þú mátt eiga þennan, ef þú vilt.“

Orri lokar hnífnum með smelli og horfir stóreygður á pabba sinn. „Er það?“

„Jájá, bara ekki neinn óvitaskap. Þetta er bara til að nota í ferðalögum. Þú mátt ekki fara með hann í skólann eða út að leika. Þetta er bara verkfæri, eins og hamar eða skrúfjárn eða hvað annað. Skilurðu?“

Orri kinkar kolli, alvarlegur, og setur hnífinn í vasann. „Takk fyrir,“ segir hann.

„Ekkert að þakka,“ svarar Óttar og getur ekki varist brosi yfir formlegheitunum. Hann hefði kannski átt að ræða gjöfina fyrst við Siggu, þarf að muna að láta hana vita, en réð bara ekki við sig. Hann fékk hnífinn sjálfur í afmælisgjöf þegar hann var á aldur við strákinn, frá Sigurði, einum af kærustum mömmu sinnar. Þau voru nú ekki lengi saman en hann hugsaði alltaf hlýtt til Sigurðar. Hann man að hann spurði eftir honum einn daginn þegar hann hafði ekki sést heima lengi og mamma hans varð ofboðslega sorgmædd, fór inn í svefnherbergi og lokaði að sér. Skömmu síðar sá hann Sigurð í bíó, að kaupa popp og kók í afgreiðslunni. Óttar lét lítið fyrir sér fara og fylgdist með honum afhenda veigarnar konu og tveimur krökkum á aldur við hann sjálfan. Krakkarnir fengu sitthvorn popppokann en Sigurður og konan deildu einum stórum. Sem betur fer var mamma hans ekki með honum. Hann var orðinn nógu gamall þá til að fara einn í bíó.

Síminn pípir í vasanum, kominn aftur í gang. Skilaboð frá Írisi. Hann les fyrstu línurnar og líst ekki á blikuna, virðir fyrir sér föndrið og bækurnar á eldhúsborðinu og er allt í einu alveg örmagna. „Það er eiginlega kominn háttatími,“ segir hann við strákinn. „Við klárum þetta á morgun, áður en ég skutla þér til mömmu þinnar.“

 

 

6

Þeir eru seinir á fætur. Óttar er dauðþreyttur eftir að hafa sent skilaboð eftir skilaboð til að reyna að fá Írisi til að tala við sig, og síðan rætt við hana í símann fram undir morgun. Hún féllst loks á að hitta hann um kvöldið þegar Orri væri farinn heim. Vonandi tækist þeim að ljúka þessu bara í eitt skipti fyrir öll. Þetta var spennandi fyrst en sambandið er farið að taka á. Þegar þau byrjuðu að hittast var hann svo uppfullur af hvolpaást að hann mundi ekki eftir öðru eins síðan á unglingsárum. Þau byrgðu sig inni kvöld eftir kvöld og höfðu það kósí. Kannski fór hann út í þetta af svona miklum ákafa af því hann var svo viss um að þetta gæti ekki enst lengi og gerði ráð fyrir að hún myndi sjá um að slíta sambandinu þegar þar að kæmi. Hún hlyti að fá leið á honum, láta hann róa fyrir einhvern á sínu reki. Samt stendur hann sig að því að tala um fyrir henni í hvert sinn sem slitnar upp úr hjá þeim; lofar öllu fögru og sannfærir hana um að gefa sér annan séns.

Feðgarnir borða morgunmat við eldhúseyjuna og hlusta á malið í útvarpinu, stara dáleiddir út um eldhúsgluggann á bílana sem streyma í röðum eftir Vesturlandsveginum. Íbúðin er með stórum gluggum og útsýni yfir Reykjavík og Gufunesið. Hún er miklu stærri en íbúð mömmu hans í Hlíðunum, sem hann gat þó selt á svo uppsprengdu verði að hann er með hagstætt lán og sæmilega stóran eignarhlut hérna. Það er hálftómlegt að horfa yfir gömlu búslóðina í öllu þessu plássi.

Mjólkin er orðin súr svo þeir borða þurrt seríós með skeið og skola því niður með gúlsopum af Bónuseplasafa. Orri er hæstánægður með þessa skrítnu blöndu og segist ætla að biðja mömmu sína um að kaupa Bónuseplasafa svo hann geti fengið sér svona morgunmat oftar. Óttar kímir en segir ekki neitt, getur vel ímyndað sér hvað Sigga og Hreinn hafi að segja um Bónuseplasafa og seríós, með allt sitt ketófæði og möndlumjólk.

Hann er hálfráðalaus um hvernig hann eigi að hafa ofan af fyrir stráknum þar til hann skilar honum til mömmu sinnar um fimmleytið. Venjulega eru þeir saman fram yfir kvöldmat og geta því drollað í gegnum daginn og síðan fengið sér að borða á einum af skyndibitastöðunum í kringum Smáralind sem Orri er svo hrifinn af, en Sigga bað hann um að skila stráknum fyrr því þau eru að fara í mat til foreldra Hreins. Óttar möglaði aðeins yfir þessu en var líka dálítið feginn, þótt hann vildi ekki viðurkenna það.

Hann finnur loksins skærin í verkfærakassanum inni í geymslu og þeir dunda sér við að klippa út og líma á spjaldið fyrir skólann. Orri er með sífelldar áhyggjur af því hvort allt passi rétt og hvernig þetta komi út, og Óttar reynir að róa hann og hrósa verkinu. Kannski þarf hann að ræða þetta við Siggu og Hrein; hvort þau séu að gera of miklar kröfur til sonar hans. Það er einkennilegt hvernig Orri er alltaf á nálum yfir minnstu smámunum. Það þarf lítið til að koma honum í uppnám. Hann man ekki eftir að hafa verið svona sjálfur, en kannski er það lítið að marka.

 

 

7

Þegar heimaverkefnið er tilbúið drífur Óttar þá út í bíltúr og lofar ísstoppi á leiðinni. Þeir taka öfugan hring frá Grafarholtinu, keyra austan við Úlfarsfell og framhjá Hafravatni, svo Suðurlandsveginn til baka í Heiðmörk, sem er fjólublá af lúpínu. Í Garðabænum stoppa þeir til að fá sér ís en Óttar sér sér leik á borði og rennir fyrst inn á þvottaplanið – ætlar að slá tvær flugur í einu höggi: hafa ofan af fyrir stráknum og þrífa bílinn í leiðinni. Það eru bara tveir kústar tengdir en enginn annar bíll á planinu.

„Við verðum enga stund að þessu saman,“ segir hann og réttir syni sínum annan kústinn. „Þú sérð um þessa hlið, ég tek hina.“

Orri grettir sig þegar hann tekur um blautt og kalt kústskaftið, en það er ekkert miðað við svipinn á honum þegar Óttar skrúfar frá vatninu og kústurinn tekur kipp í höndunum á honum. Hann missir hann strax í jörðina og hörfar frá á meðan vatnið sprautast í boga yfir planið. Óttar skrúfar aftur fyrir. „Hvað er þetta, þú verður að halda í kústinn,“ fussar hann. Hann otar kústinum að stráknum sem tekur hikandi við honum aftur. „Hananú,“ segir Óttar og skrúfar aftur frá, en varlega í þetta sinn og ekki alveg í botn.

Orri heldur áfram að gretta sig en tekur þó til við að skrúbba aðra hliðina á bílnum. Það er kominn leigubíll fyrir aftan þá og bílstjórinn fylgist fýldur með þeim. „Taktu felgurnar líka,“ kallar Óttar til sonar síns en fær ekkert svar nema vatnsgusu yfir þakið. „Jæjajá!“ Hváir hann og sendir aðra gusu á móti í glensi en Orri orgar upp yfir sig eins og helsærður. „Ekki pabbi! Þú bleytir mig!“

„Hvaða hvaða, þetta er bara vatn,“ tautar Óttar en gætir þess að beina kústinum niður á við á meðan hann klárar verkið.

Þegar hann fer hringinn til að sjá hvernig stráknum hefur gengið sér hann að þar er allt í skellum. Hann þrífur kústinn af syni sínum og byrjar að skrúbba. Strákurinn bíður álengdar og fylgist með á meðan hann klárar að renna yfir hliðina. Þeir hrökkva báðir í kút þegar leigubílstjórinn þeytir flautuna á þá.

„Hvaða æsingur er þetta?“ kallar Óttar í átt til hans og baðar út örmum með kústinn í annarri hendi. „Slakaðu á, maður!“

„Þið eruð að taka allt planið,“ svarar leigubílstjórinn í gegnum opinn gluggann, lítill karl með skalla og skyggð gleraugu. „Maður getur ekki verið að bíða eftir þessu!“

„Við erum að verða búnir,“ segir Óttar. Hann veifar í átt að stráknum og bætir ásakandi við: „Ég er hérna með syni mínum!“

Hann færir bílinn undir fjandsamlegu augnaráði leigubílstjórans sem brunar í hlaðið, vindur sér út og byrjar að vefja upp slöngurnar sem feðgarnir skildu eftir í belg og biðu.

Í sjoppunni pantar Óttar ís í boxi með heitri sósu og Nóakroppi. Orri vill brauðform með dýfu. „Viltu ekki frekar fá í boxi, svo það fari ekki í bílinn?“ stingur Óttar upp á en sér svipinn á stráknum og er fljótur að bakka. „Neinei, allt í lagi. Einn barnaís í brauðformi,“ segir hann við unglinginn á bak við afgreiðsluborðið. Sá kinkar kolli en er eitthvað annars hugar. Á meðan hann er að útbúa ísana hefur hann gætur á rónalegum manni sem situr við gluggann, svo að Óttar fer að gefa honum hornauga líka. Gaurinn er sjúskaður, í rifnum íþróttabuxum og hettupeysu, hárið rakað í hliðunum en hártoppur lafir niður í augu. Það hangir slitinn plastpoki úr annarri hendi hans, troðfullur af fötum og dóti. Frekar en að setjast hjá þessu illfygli, sem er greinilega í annarlegu ástandi, stýrir hann syni sínum út á plan og þeir tylla sér á lágan vegg við bílastæðið. Á meðan þeir borða ísana finnst honum líkt og náunginn í glugganum sé að fylgjast með þeim og gerir sitt besta til að hafa gætur á honum án þess þó að gefa honum ástæðu til að koma út að tala við þá. Engu að síður opnast dyrnar á sjoppunni þegar hann er að henda ísboxinu sínu og mannrenglan kemur út og tekur stefnuna til hans.

„Halló, félagi! Bíddu aðeins!“ kallar hann á eftir Óttari, sem læst ekki heyra. Dópistinn nær honum við bílinn.

„Hérna, eruð þið nokkuð á leiðinni niður í bæ?“ spyr hann rámri röddu. Hann er allur á iði, augljóslega á einhverju.

„Nei, því miður,“ svarar Óttar og reynir að gefa Orra bendingu um að setjast inn í bíl.

„Mig vantar svo að komast í bæinn,“ nauðar dópistinn. „Var í einhverju partíi og nú er ég fastur hérna.“ Hann virðist hafa verið á vökunni í nokkra daga, andlitið grátt og sokkið. Það er klessulegt húðflúr á hálsinum og hann er með rispur á kinninni og storknað blóð á öðru eyranu en það er samt eitthvað strákslegt við hann, hettupeysan of stór og trosnaðar ermarnar teygðar yfir hendurnar. „Get ég kannski fengið að hringja hjá þér? Hann vildi ekki leyfa mér að hringja í sjoppunni.“

„Ég er ekki með síma,“ lýgur Óttar.

„Þú ert með síma,“ segir aðkomumaðurinn snögglega við strákinn, sem auðvitað er með símann sinn í hendinni eins og venjulega. Áður en Óttar nær að stoppa það réttir Orri gerpinu símann. Maðurinn hrifsar hann til sín og arkar af stað í átt að sjoppunni.

„Halló! Bíddu!“ kallar Óttar og hraðar sér á eftir honum. Dópistinn er með símann klesstan við eyrað og læst ekki heyra í honum.

„Mikki! Halló, Mikki?“ kallar hann í símann. „Hvar í fokkinu eruð þið? Þú þarft að koma og sækja mig!“ Óttar þarf að greikka sporið til að ná honum, rífur í hettuna á peysunni hans, snýr upp á og rykkir honum niður á jörðina. Maðurinn fellur eins og slytti aftur fyrir sig.

„Skilaðu símanum!“ hvæsir Óttar á hann.

„Hvað ertu að gera, maður,“ hváir dópistinn skrækróma, „Slepptu mér! Ég þarf að hringja.“ Þeir lenda í stimpingum. Dópistinn er grindhoraður og hefur ekki roð við Óttari, sem er þyngri og sverari og heldur honum auðveldlega niðri, en hann er svo handsterkur að Óttar þarf að pilla fingurna lausa einn af öðrum. Þegar hann er loksins búinn að ná símanum aftur hraðar hann sér á fætur og hálfhleypur í átt að bílnum. Dópistinn bröltir á fætur líka og kallar á eftir honum: „Hvað er að þér, maður! Ertu fokking klikkaður?“

Orri stendur við bílinn, ísinn hans bráðnaður og út um allt. „Við skulum koma okkur,“ segir Óttar hraðmæltur en sonur hans horfir bara stjarfur á hann, hreyfir sig ekki.

„Hentu ísnum! Við erum að fara!“ hreytir hann í strákinn, sem lifnar við og gerir það sem honum er sagt. „Spenntu beltið,“ bætir Óttar við áður en þeir spæna út af planinu. Hann er svo upptekinn við að fylgjast með hvort dópistinn sé að elta þá að þegar hann beygir út á götuna keyrir hann í veg fyrir stóran jeppa. Sá þarf að sveigja háskalega yfir á hinn vegarhelminginn til að forðast árekstur og þeytir flautuna. Hjartað í Óttari hamast enn þegar þeir eru komnir út á Reykjanesbrautina og hann þarf að anda djúpt til að róa sig, áttar sig síðan á að hann er að keyra langt yfir hámarkshraða og hægir á sér. „Þú hefðir ekki átt að láta hann hafa símann,“ segir hann við strákinn. „Svona fólki er ekki treystandi.“

Orri starir niðurlútur í kjöltu sér, aftur farinn að fitla við læsinguna á hanskahólfinu, fingurnir flekkóttir og klístraðir eftir ísinn. Óttar veit um leið að allt er ónýtt; öll helgin, allt saman.

„Fyrirgefðu,“ segir hann. „Ég hefði ekki átt að hvessa mig svona. Þú verður bara að passa þig. Það er alls konar fólk í heiminum.“ Hann kreistir öxlina á stráknum, strýkur honum um derhúfuna. „Fyrirgefðu,“ segir hann aftur en Orri svarar ekki, vill ekki líta við. Helvítis síminn byrjar skyndilega að hringja þar sem hann stakk honum á milli sætanna. Óttar nær honum áður en sonur hans hefur færi á að svara. Númerið er óþekkt. Hann leggur á og slekkur á símanum áður en hann réttir hann til baka. „Þú skalt ekkert vera að svara svona,“ útskýrir hann. „Þessi óþekktu númer eru alltaf eitthvert rugl.“

 

 

8

Þeir skilja á planinu á Álftanesinu. Óttar fer út úr bílnum til að ná í plakatið úr skottinu og afhendir stráknum það.

„Ertu með allt dótið þitt?“ spyr hann og nær að stilla sig um að biðja son sinn um að segja ekki neitt við Siggu og Hrein um atvikið á bensínstöðinni. Hann verður að vona að strákurinn átti sig sjálfur á því að þetta komi þeim ekki við. „Líka allt skóladótið?“

Orri kinkar kolli, hefur ekki sagt orð alla leiðina. Óttari til undrunar færir hann sig nær og tekur utan um pabba sinn. Hann beygir sig niður og endurgeldur faðmalagið, heldur þéttingsfast um son sinn eins lengi og hann getur, þarf að neyða sig til þess að sleppa þegar hann finnur að strákurinn er búinn að fá nóg.

„Takk fyrir helgina, pabbi,“ segir Orri, snýr sér svo við og hleypur yfir götuna, upp tröppurnar og inn um ólæstar útidyrnar sem hann skilur eftir galopnar. Óttar heyrir hann kalla eitthvað til Siggu og Hreins. Eitt augnablik birtist Sigga í gættinni, veifar Óttari yfir götuna og lokar síðan dyrunum.

 

Á heimleiðinni spilar plötusnúðurinn á Rás 2 gamalt og væmið Cat Stevens-lag sem Óttar hefur ekki heyrt í fjöldamörg ár. Heita tilfinningin í brjóstkassanum vellur upp að nýju og hann verður að beygja út í kant, setur aðvörunarljósin á og grætur með ekkasogum undir stýri á meðan lagið klárast. Hann grét ekki mikið hér áður fyrr en hann hefur verið svo meyr síðan mamma hans kvaddi. Síðustu vikur Dórótheu á líknardeildinni grét hann ekki neitt, en eftir að hún fór er eins og stífla hafi brostið innra með honum. Nú ræður hann ekkert við þetta.

Þegar lagið er búið nær hann sér aftur á strik og þurrkar sér um hvarmana, hristir hausinn og hlær að sjálfum sér fyrir að vera orðinn svona mikil kveif. Hann finnur strax að hann er aðeins léttari á sér, loksins búinn að losa um eitthvað af spennunni og stressinu sem hefur setið í honum alla helgina. Það getur verið ágætt að gráta aðeins, hefur hann uppgötvað. Það hreinsar mann alveg. Hann þarf að bíða lengi eftir glufu í bílaröðinni en það kemur ekki að sök. Sólin skín og það er verið að spila Fleetwood Mac í útvarpinu. Stevie Nicks syngur svo fallega um rigninguna og einsemdina og hann raular með laginu á meðan hann bíður í vegkantinum, með stefnuljósið á.