Það er óttalegt vesen að vera prinsessa, eins og þær gera okkur ljóst söng- og leikkonurnar í Raddbandinu sem í gærdag frumsýndu í Tjarnarbíó eigin söngleik fyrir alla fjölskylduna, Hver vill vera prinsessa? Sara Martí leikstýrir og samdi verkið með þeim en Stefán Örn Gunnlaugsson samdi lögin ásamt prinsessu 9, Rakel Björk Björnsdóttur. Gullfallegar lifandi bakgrunnsmyndir skapaði teiknarinn Usman Naveed frá Pakistan en sviðið hannaði Auður Ösp Guðmundsdóttir. Friðþjófur Þorsteinsson og Kjartan Darri Kristjánsson sáu um lýsingu og vídjó en Stefania Adolfsdóttir um búningana sem voru alveg fyrirtak, rímuðu fullkomlega við texta og boðskap.
Prinsessurnar þrjár búa hver í sínum kastala og bíða eftir að boð berist frá prinsinum að hann bíði þeirra. Prinsessa 7 (Viktoría Sigurðardóttir) er prótótýpa allra prinsessa, undurfríð með síða ljósa lokka og kjóllinn hennar er bleikur með glitrandi stífu pilsi. Þegar hún fær bréfið frá prinsinum kaupir hún rós hjá blómasalanum til að færa honum. Prinsessa 9 (Rakel Björk) er öskuprinsessa, þræll stjúpu sinnar, druslulega búin og beygð og brotin hið innra í samræmi við örlög sín. Hún útvegar sér spegil til að færa prinsinum. En prinsessa 13 (Auður Finnbogadóttir) er öflug kvenhetja með boga um öxl og hún tekur með sér epli handa prinsinum. Epli eru ekki alltaf til góðs í prinsessuævintýrum og í þetta sinn (sem oftar) liggur við að illa fari – en ævintýrið endar auðvitað vel.
Þær leggja af stað, hver frá sinni höll, en svo illa vill til að norn nokkur leggur þær í einelti þannig að þær bíða án árangurs á prinsabiðstofunni. Úr álögunum komast þær ekki fyrr en þær finna sanna ást. En hvernig finnur kona sanna ást ef hún hittir aldrei prinsinn sinn? Það er hin brýna spurning þessarar sýningar og við henni fæst algerlega fullnægjandi svar!
Þetta er litrík, falleg og stórskemmtileg sýning með virkilega vel sömdum lögum sem þessar fínu söngkonur syngja af list.
Það fer vel á því nú þegar Frost er á lokametrunum í Þjóðleikhúsinu að önnur prinsessusýning taki við. Því má bæta við að boðskapur þessara tveggja leiksýninga er ekki ólíkur.
Silja Aðalsteinsdóttir