Af einhverri tilviljun hafði ég hvorki séð né lesið Hamingjudaga Samuels Beckett fyrr en í gærkvöldi, bara lesið um þá og það var skrítin lesning: kona í moldarhaug, föst upp að mitti og talar látlaust við mann sem bregst sjaldan við. En í gær sá ég Eddu Björgu Eyjólfsdóttur túlka þessa konu, hana Vinní, á Nýja sviði Borgarleikhússins en í boði Edda Bjargar sjálfrar og Leikfélags Akureyrar, og það var ekki nærri því eins skrítið og ég bjóst við. Raunar mátti það varla raunsærra vera!
Leikritið var fyrst sýnt 1961 og þótt það væri vissulega skrumskæld mynd af lífi millistéttarhjóna á þeim árum þá var hún óþægilega nærri lagi. Vinní (Edda Björg) er föst í sinni holu (bak við eldavélina?). Hún er orðin miðaldra, efnin eru ekki mikil eins og sést á því að flestir gripirnir sem hún tínir upp úr tuðrunni sinni eru gamlir og slitnir – sólhlífin varla „hlíf“ lengur. Henni þykir samt vænt um sitt og hún heldur í gleðina, fagnar deginum þótt hann hefjist á andstyggilegum glymjanda sem kveður við aftur og aftur ef hún leyfir sér að dotta. Þetta skal vera enn einn hamingjudagurinn enda verður hann alveg eins og allir hinir dagarnir því ekkert breytist nokkurn tíma. Maðurinn hennar, hann Villi (Árni Pétur Guðjónsson), sést ekki allan daginn (á skrifstofunni?) en felur sig bak við dagblaðið á kvöldin.
Vinní hefur verið fríð kona á yngri árum og kynþokkafull og í fyrri þættinum eimir töluvert eftir af hvoru tveggja. En það er til lítils, Villi hvorki heyrir hana né sér, jafnvel þótt hún þrábiðji hann um það innan um annað sem hún klifar á. Hún er löngu buguð kona sem vill bara láta stjórna sér og fyrirgefur allt sem henni er gert í mót. Þetta var auðvitað svo yfirmáta sorglegt að það var ekki hægt annað en að hlæja að því! Vinní og Villi búa við stöðugt, sterkt sólskin og eiga sífellt á hættu að sólbrenna og mér varð ósjálfrátt hugsað til allra jafnaldra minna sem dvelja á fjarlægum sólarströndum ár út og inn, fjarri afkomendum sínum. Sá Beckett fyrir þá þróun? Alla vega ber verkið aldurinn svo vel að það gæti verið glænýtt.
Edda Björg Eyjólfsdóttir vinnur ótvíræðan leiksigur í þessari sýningu. Hún var skemmtilega tvíræð í allri túlkun sinni í fyrri þættinum, leikandi glöð á yfirborðinu en sár óánægjan kraumandi rétt undir. Það er ekki heiglum hent að leika án þess að geta hreyft sig en Edda Björk notaði andlitið óspart, svipbrigðin voru mörg og margvísleg og sögðu allt sem orðin gátu ekki tjáð. Í seinni þættinum hefur tími liðið, Vinní er sokkin dýpra ofan í hauginn og orðin gróf og ergileg kerling sem nú getur bara hreyft höfuðið! Eddu Björgu varð furðu mikið úr þessum þröngu aðstæðum.
Verkið er lengst af eins og einleikur eða uppstand því að Árni Pétur fékk lítið að gera í fyrri þættinum annað en lesa upp úr blaðinu stöku setningar sem vöktu athygli hans. En í lok seinni þáttar er dregin upp nöturleg mynd af hlutskipti hans sem gekk verulega nærri manni. Auðvitað átti hann eins ömurlega ævi og Vinní, það var bara í takti við hans karlmannseðli að þegja frekar en masa. Og ekki skildi hún hann frekar en hann hana.
Þýðingin er eftir Árna Ibsen en yfirfarin af Hafliða Arngrímssyni og hljómaði vel, staðfærslan sem stundum var beitt var vel hugsuð. Haugurinn hennar Vinníar og allur búnaður og búningar voru vel leystir af Brynju Björnsdóttur en um lýsinguna sá Ólafur Ágúst Stefánsson. Hamingjudagarnir eru fleiri en einn eins og geta má nærri og ljósin létu sólarhringana líða. Tónlist Ísidórs Jökuls Bjarnasonar var þung og þrungin en tranaði sér þó ekki fram. Utan um allt saman heldur Harpa Arnardóttir af djúpum skilningi og festu. Þetta er sannkölluð menningarsending frá Akureyri.
Silja Aðalsteinsdóttir