Pétur Eggerz gerir það ekki endasleppt við Skaftárelda og Móðuharðindi. Haustið 2013 frumsýndi hann einleikinn Eldklerkinn um séra Jón Steingrímsson, sem hann byggði á ævisögu Jóns, og núna fyrir viku frumsýndi hann í Tjarnarbíó frumsamda verkið Eldbarnið um örlög lítillar stúlku í þeim voðalegu hamförum. Leikstjóri hans er sem fyrr Sigrún Valbergsdóttir.

Eldbarnið

Eldbarnið

Eldbarnið Sólveig (Andrea Ösp Karlsdóttir) á sér ekki eina beina fyrirmynd. Hún er skálduð persóna en allt sem hún gengur í gegnum á sér sjálfsagt fleiri en eina stoð. Hún hefur nýlega misst pabba sinn þegar leikritið hefst og nú standa eldtungurnar upp úr fjöllunum og logandi hraunelfur flæða niður í byggðina. Þegar móðir Sólveigar sér að kotið þeirra verði brátt undir hraunstraumnum leggja þær mæðgur af stað út í óvissuna. Við fáum skyndimyndir af ömurlegum aðstæðum fólks, yfirgefnum bæjum, örbjarga heimilum, yfirfullum baðstofum á býlum þar sem enn er tekið við fólki, hungri og vosbúð. Og það er styrkur þessa verks að þar birtast glöggar myndir bæði af góðu fólki og miskunnsömu og vondu fólki og ómerkilegu. Óreiða, bjargarleysi og upplausn kalla fram það versta í sumum manneskjum og það verður að vera með. Á hinum endanum er svo sjálfur Jón Steingrímsson sem öllum vill hjálpa og bjargar Sólveigu að lokum frá örlögum sem eflaust hefðu orðið verri en dauðinn.

Frásögnina um Sólveigu setur Pétur í nútíðarramma. Þar fer stúlka með mömmu sinni í heimsókn á ættarslóðir móðurinnar austur í Skaftafellssýslu og heyrir frá gömlum manni söguna af Sólveigu formóður sinni sem hún lifir sig inn í. Mér fannst Andreu Ösp takast afar vel að segja og sýna okkur þessa sögu þótt allar umbúðir utan um sýninguna séu einfaldar. Áhrifamest í leikmynd Guðrúnar Øyahals eru baktjöldin sem taka á sig eldsblæ þegar því er að skipta en kassarnir sem koma í stað húsbúnaðar og alls annars voru svolítið fyrirferðarmiklir. Þó bjuggu þeir til dæmis til sannfærandi bát á dramatískum punkti í frásögninni. Með sér hefur Andrea Pétur sjálfan og Öldu Arnardóttur sem leika allar aðrar persónur og nota einfalda fylgihluti, höfuðbúnað, gleraugu og yfirhafnir, til að skipta um hlutverk. Þetta gekk allt smurt og aldrei vafi á hver væri hvað. Stundum varð leikur þeirra Péturs og Öldu helst til yfirborðslegur enda kannski erfitt að lifa sig inn í hverja persónuna af annarri á svona stuttum tíma.

Það er sannarlega þörf á því á okkar eldsumbrotatímum að sýna börnum á öllum aldri hvað áhrifin af slíkum náttúruhamförum geta orðið hrikaleg. Ekki er að efa að skólastjórnendur nýti sér tækifærið og sendi nemendur í Tjarnarbíó. Ég fór með tvo unglinga og einn tæplega sjö ára og öll höfðu þau bæði gagn og gaman af sýningunni.

Silja Aðalsteinsdóttir

Eldbarnið