Eftir Þórdísi Helgadóttur

Úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2019

Þórdís Helgadóttir

Þórdís Helgadóttir. Mynd: Saga Sig

Á eyjunni eru engir bátar. Við Guðrún förum stundum niður í fjöru bara til að láta rokið lemja okkur í framan. Við komum heim með saltar varir og rauð eyru. Vindhviðurnar slípa á okkur húðina þannig að andlitsdrættirnir virðast skarpari, líkindin á milli okkar minni. Ég er alltaf með nefrennsli en einhvern veginn sleppur Guðrún. Hún er harðari af sér.

Ströndin er berangur. Þótt ég standi frammi fyrir opnu hafinu með óendanleikann á allar hliðar tekst mér ekki að losna við innilokunarkenndina. Himinninn er lágur og gleiður, eins og lok yfir eyjunni, mattur og hvítur. Mjólk en ekki vatn.

Ég spyr Guðrúnu hvort hún haldi að það séu til aðrar eyjar. Hún hristir höfuðið.

Kyrrðartíminn byrjar klukkan sjö á kvöldin. Eftir það er bannað að vera á ferli. Ég safna kjarki til að kvarta. Þetta er ekki sanngjarnt. Minn háttatími er ekki fyrr en níu – ég get alveg leikið mér gætilega.

Guðrún er ströng á svipinn. Ég á að vita betur. Reglan er út af litlu börnunum, sem eru að vaxa svo hratt og verða að fara snemma að sofa. Eins og ég veit vel. Það er ekki hægt að taka neina áhættu. Ekki með sálirnar þeirra.

Þannig að við breiðum yfir okkur sængurnar á slaginu sjö, með ísmolavatn og bækur á náttborðinu. Við flettum varlega, eins og blaðsíðurnar séu fiðrildavængir.

 

Bækurnar fjalla um aðrar eyjar. Sumar fjalla um báta. Stelpa sem ég er stundum að leika við úti í hrauni segir að bróðir sinn eigi kíki og hafi séð yfir á aðrar eyjar. Hún heitir Karen og ég hef oft staðið hana að því að ljúga. Hún segir að það megi alls ekki vera með kíkinn úti í hrauninu. Og að bróðir hennar vilji heldur ekki leyfa ókunnugum að prófa hann.

Einn morguninn kemur Karen ekki út að leika. Ég dunda mér ein, klifra, bý til drullukökur og skreyti með ljónsmunna og elftingu. Seinna um daginn frétti ég að það hafi komið til þeirra nýtt barn. Ég man hvernig sjórinn var um morguninn, hvað hann var úfinn og hvað brimið öskraði skyndilega hátt. Það hlýtur að hafa verið einmitt á því augnabliki þegar litla barnið fæddist.

Eftir nokkra daga er hún komin út með Karen. Lítil systir, bólstruð eins og bangsi og stöðug á stuttum, feitum fótum. Hún stingur upp í sig berjum og pissar í gjótu. Karen segir að hún eigi að heita Angela.

Ef það eru engar aðrar eyjar, hvaðan koma þá börnin? spyr ég Guðrúnu. Hvaðan kemur Angela? Guðrún hristir bara höfuðið, vonsvikin með mig. Finnst mér virkilega líklegt að pelabörn syndi hingað frá fjarlægum eyjum? Ég verð að viðurkenna að það er ekki sennilegt. Angela kann ekki einu sinni að hlaupa. Hún á erfitt með að labba nokkur skref án þess að detta á rassinn. Líkaminn er svo lítill að ég skil ekki einu sinni hvernig heil manneskja getur rúmast í honum.

 

Í kyrrðartímanum sit ég uppi í rúmi og les þegar ég tek allt í einu eftir einhverju sem hreyfist ofan á sænginni. Agnarlitlum punkti. Ég held niðri í mér andanum og hvísla nafn Guðrúnar, sem heyrir það í gegnum vegginn og svífur til mín eins og vindurinn. Hún krýpur hljóðlaust við rúmið.

Það er ekki hægt að taka neina áhættu.

Lengi segjum við ekki neitt en fylgjumst með kóngulónni feta sína leið eftir sænginni. Hún hverfur ofan í krumpu, birtist svo aftur og heldur að fótagaflinum, upp á bríkina, niður eftir rúmfætinum og loks alla leið niður á gólf. Þetta er ofurlítill dordingull, dökkbrúnn, með kúlulaga belg sem virðist mjúkur viðkomu. Hann þræðir gólffjalirnar og hverfur á endanum inn um skoru í gólflistanum. Ég sit frosin í langan tíma á eftir og þori ekki að sofna, sama þótt Guðrún sé góð við mig. Hún strýkur á mér hárið og segir að ég verði óhult á meðan ég sofi. En hún skilur ekki hvað það er sem ég er hrædd við.

Eftir þetta hætti ég að kvarta yfir kyrrðartímanum.

 

Karen segist hafa séð þegar sálirnar fara á stjá. Heima hjá henni deila þau öll einu svefnherbergi. Bróðir hennar er kvöldsvæfur, segir hún. Ég er tortryggin. Bróðir hennar Karenar er unglingur eins og Guðrún, og hún sofnar alltaf löngu á eftir mér.

En svo er það Angela. Hún er svo lítil að hún þarf alltaf að vera að leggja sig. Karen svæfir hana stundum, syngur þar til hún sér litlu systur sína detta út af. Þegar augnhárin eru lögst niður á kinn líða ekki nema nokkrar mínútur, segir Karen, þar til hún sér sálina koma skríðandi út um vinstra eyrað á Angelu. Hún spinnur mjóan þráð, tiplar þyngdarlaus upp veggina og finnur sér leið út um opinn glugga. Ég fæ gæsahúð. Hvernig er hún á litinn? spyr ég. Svört, segir Karen. Pínulítil, loðin og kolbikasvört.

 

Guðrún hefur aldrei tíma til að leika með mér úti í hrauni lengur. Ég reyni að fá hana niður í fjöru að fá saltskrúbb hjá rokinu, en hún er upptekin. Hún situr í stóra hægindastólnum í stofunni og les. Angela er lasin, svo Karen kemst heldur ekki út. Göturnar eru auðar og baðaðar hörðu sólskini. Vindurinn er hvass. Ég gleymdi að taka með mér vettlinga, svo hendurnar á mér verða rauðar og stífar í kuldanum. Ég geng um allt þorpið en hitti engan. Það lekur hor niður á efri vör og ég vorkenni sjálfri mér. Ég kem allt of seint heim.

 

Angela er dáin. Við erum vaktar með nístandi vondu hljóði. Kok sem er að kafna úr gráti. Öskur sem virðist ætla að rífa í sundur raddböndin í unglingsstrák. Bróðir Karenar heldur á líki yngstu systur sinnar og skelfur eins og beinagrind. Hann er að reyna að koma upp einhverjum orðum en þau drukkna í hinum hljóðunum – þessum sem koma úr honum án þess að hann búi þau sjálfur til.

Það kemur fljótlega í ljós hver er ábyrgur. Ég var að vona að þau myndu segja að þetta hefði verið slys. En nú er búið að finna þann seka. Það er strákur á aldur við Guðrúnu. Hann er ljótur, með djúpa brúna bauga undir augunum. Hann á engin systkini og það sést oft til hans niðri í fjöru, að grýta máva eða brenna rekavið. Karen segist hafa séð hann vera að sniglast í kringum húsið þeirra kvöldið sem Angela dó. Hann beið úti í ljósaskiptunum, segja þau, og sætti lagi.

Hann neitar allri sök og þess vegna trúir honum enginn. Kannski ef hann héldi því fram að þetta hefði verið óvart, segir Guðrún. Það væri trúverðugt. En hvernig getur nokkur verið svona viss í sinni sök?

 

Við erum send út á meðan eldri krakkarnir funda. Karen vill ekki fara út í hraun þannig að við stefnum á fjöruna. Við finnum tvö góð prik. Ég krota parís í sandinn. Karen lemur sínu priki í fjörugrjót svo það verður smám saman að skæðadrífu af litlum, reiðum flísum.

 

Guðrún er að elda graut handa okkur þegar ég kem heim. Við borðum í hljóði og ég reyni að láta ekki á neinu bera. Reyni að láta Guðrúnu ekki sjá hvernig ég þarf að ýta á eftir matnum ofan í háls fram hjá hjartanu sem situr þar fast. Eftir matinn leggst hún í sófann meðan ég geng frá. Hún er eldri á svipinn. Með lokuð augun líkist hún fullorðinni konu og ég hugsa um börnin í bókunum okkar, á stórum fjarlægum eyjum, sem öll eiga mömmur. En Guðrún er ekki sofandi. Hún opnar augun þegar ég sest hjá henni. Horfir upp á stofuskápinn.

Þar er kassi.

Ekki, segir Guðrún, þegar ég byrja að klifra. En ég ætla ekkert að snerta, bara skoða með augunum þennan nýja hlut sem hefur birst uppi á skápnum. Þetta er lítill kassi úr glæru plasti. Ég þarf ekki að opna hann til að sjá hvað er inni í honum.

Kónguló.

Brún með gular rákir á bakinu. Hún er fullkomlega hreyfingarlaus. Ég horfi á kóngulóna og held niðri í mér andanum þangað til mig svimar. Þá bærir hún skyndilega einn fót.

 

Svo er kassinn horfinn. Guðrún segist hafa sett hann einhvers staðar þar sem ég nái ekki til. Hún veit vel að ég er ekkert smábarn. En það er bara ekki hægt að taka neina áhættu. Við eigum að passa kassann í eina viku. Eftir það tekur næsta fjölskylda við, geymir hann í viku og þannig koll af kolli. Þegar allar fjölskyldurnar í þorpinu hafa staðið vaktina fær strákurinn prufulausn.

Þannig er þetta ekki eins mikil vinna, segir Guðrún. Ekki eins mikil ábyrgð. Ef við skiptumst öll á.

Það er ekki fyrr en seinna sem ég þori að spyrja. Jú, Guðrún staðfestir það sem ég hef heyrt. Það var meiningin að drepa hann. Líf fyrir líf. En allir hefðu þá þurft að vera samþykkir. Öll eldri börnin. Og þau voru það ekki öll. Ekki Guðrún.

Í fyrsta skiptið í langan tíma næ ég að tæma allt loftið úr lungunum. Mig langar að hlaupa upp um hálsinn á Guðrúnu. Í staðinn kinka ég rólega kolli til að sýna að ég skilji alvöru málsins.

Einmitt, segi ég. Það er ekki hægt að taka neina áhættu.

Guðrún setur upp undarlegan svip.

Áhættu? segir hún. Hvað meinarðu?

 

Ég fer niður í fjöru og öskra dálítið á hafið. Himinninn þrengir að höfðinu á mér úr öllum áttum svo mig verkjar. Vindurinn fyllir á mér munninn. Ég ímynda mér að stökkva fram af klettunum en ég meina ekkert með því í alvörunni.

Ég fer út í hraun. Þangað sem við Karen eigum bú. Það er aðeins skjólsælla þar. Eftir á að hyggja er ekkert skrýtið að sálin hennar Angelu skuli hafa komið hingað í svefni. Hún hafði séð svo fátt, hvað annað átti hana að dreyma?

Þetta var ekki slys. En hver á samt von á að sjá kónguló úti í hrauni? Það var ekki einu sinni orðið dimmt. Ég var að leita að krækiberjum og þá var hún allt í einu bara skriðin upp úr lynginu og upp á handarbakið á mér, háfætt og snögg. Mér brá svo mikið að ég hrasaði. Og þá kom bara eitthvað í fingurna á mér, einhver kremja. Þeir breyttust í kremjufingur. Ég meiddi mig og mig langaði til að hefna mín, slá til baka. Ég mundi ekki einu sinni eftir litlu börnunum sem þurfa svo mikið að sofa. Mundi ekki einu sinni að Angela væri til. Guðrún hefði hjálpað mér að muna það. Líka Karen. En ég var bara ein.

Guðrún sagði svo skrýtið við mig. Við erum frjáls, sagði hún. Hafið gefur okkur börn en engar skýringar. Engar reglur. Það er óþolandi. Ólíðandi. Við neyðumst til að búa til okkar eigin reglur. En þá getum við líka valið hvaða reglur sem er. Við ákveðum hvernig heimur þetta er.

Ég þurfti að passa að fara ekki að hlæja. Ef við hefðum ákveðið þetta sjálf þá væri heimurinn ekki svona: Klettarnir, himinninn, kæfandi hafið … Hlustaðu, sagði Guðrún. Hún var orðin æst. Við getum verið hafið. Ef við ákveðum það. Út af því að enginn segir neitt annað. Ef við segjum að reglan sé sú að við séum heilög, þá erum við heilög!

Mosinn er mjúkur. Ég finn það núna hvað ég er þreytt. Ég lygni aftur augunum og halla höfðinu. Í svefnrofunum finn ég kitl í eyranu. Ég hugsa um kóngulóna með gulu rákirnar og fótinn á henni og hvernig hann hreyfðist. Og síðan sleppi ég mér inn í svefninn.