Þeir sem sáu leikritið Eilífa hamingju á litla sviði Borgarleikhússins rétt fyrir hrun og koma á leikritið Eilífa óhamingju eftir sömu höfunda með væntingar um svipaða nálgun verða sennilega fyrir vonbrigðum. Nema þeim hafi fundist léttúðin í fyrra verkinu óviðurkvæmileg og fagni nú meiri alvöru og þunga í meðferð efnisins. Fyrir minn smekk hefði meiri írónía, meira skop, verið við hæfi í nýja verkinu. Mig langaði til að hlæja meira. Eða – ef það er ekki í boði – þá að þjást meira.
Óhugnanleg var vissulega sagan sem Matthildur sálgreinir (Sólveig Arnarsdóttir) rifjar upp þegar hún hittir einn skjólstæðinginn sem hún hefur fengið í meðferð, Ingvar (Guðjón Þorsteinn Pálmarsson). Hann var í hjálparsveit skáta og sérlega valinn sem traustur og heiðarlegur náungi til að standa vaktina við “dauðatjaldið” á útihátíðum. Þangað voru dauðadrukknir unglingar bornir og þeim leyft að sofa úr sér, en þá notaði þessi huggulegi skáti tækifærið og nauðgaði stelpunum – dauðum. Við fáum ekki að vita hvort Matthildur er að pynta Ingvar með því að ýja að því að það hafi orðið til barn þarna í tjaldinu eða hvort hún opnar þar á harmsögu lífs síns; hvort sem er þá er atvikið viðbjóðslegt og efni í heilt leikrit í sjálfu sér. Sama má segja um söguna af vanrækta barninu hennar Agnesar (Sara Dögg Ásgeirsdóttir) sem dó vegna þess að foreldrarnir gáfu sér aldrei tíma til að láta rannsaka veikindi þess almennilega. Bóndi minn og leikhúsfélagi hefur lengi haldið því fram að ekki megi láta börn deyja í leiksýningum án þess að gera það að stórmáli. Að ýja að barnadauða og skilja hann eftir í lausu lofti sé ábyrgðarlaust, af því ekkert snerti okkur dýpra og engu kvíðum við eins og að missa barn.
Matthildur er komin með skjólstæðinga sína upp á svið og yfirheyrir þá um þátt þeirra í hruninu – sem ekki má nefna sínu eigin nafni – en úti í sal sitjum við og eigum að taka afstöðu til þess sem kemur fram, jafnvel dæma þetta fólk. Alltaf er ljóst að við erum í leikhúsi; textinn reynist vera til í handriti og fjölmörg útprent á því eru eini leikmunurinn, og leikararnir eru stundum nefndir réttum nöfnum en heita annars nöfnum leikpersóna. Við eigum ekki að gleyma því að þetta er kennslustund. Svona á að fara með þá sem bera ábyrgð á því hvernig komið er fyrir þjóðinni, hvort sem þeir hafa unnið illvirki sín í tjöldum úti í sveit að næturþeli eða fyrir allra augum með óábyrgri meðferð fjár. Matthildur er hörð á þeim, bannar þeim að tala í klisjum (sem er ansi snjallt), neyðir þá til að umorða hugsanir sínar, vera einlægir, segja satt. Auk Ingvars og Agnesar er hún með verktakann Geir í meðferð (Orri Huginn Ágústsson) sem byggði heilt hverfi fyrir engan og lögfræðinginn og útrásarvíkinginn Ólaf (Atli Rafn Sigurðsson). Allt þetta fólk segir sögu sína úr áfalli síðustu mánaða og ára og eðli málsins samkvæmt verður mikið um einræður, minna um samræður. Þetta getur orðið leiðigjarnt og verður það á stundum þó að leikararnir geri sitt besta til að skemmta okkur með hörkuleik. Þetta snið getur líka gefið tækifæri á glæsilegum einleik en sá eini sem fékk að leika sinn út og í botn var Atli Rafn. Það var líka einstakt sjónarspil og Atli á allt það lof skilið sem hann hefur fengið í umsögnum gagnrýnenda. Hlutverk Matthildar er stærst og Sólveig lék það af djúpu innsæi, gaf persónunni ótal blæbrigði í takt við fjölbreytt erindi hennar, einkalegt og sem ábyrgðarmaður meðferðarinnar.
Eilíf óhamingja – ég hélt að nafnið ætti að vera tvírætt en höfundum, Andra Snæ Magnasyni og Þorleifi Erni Arnarssyni sem líka leikstýrir, er aðeins of mikið niðri fyrir. Eins og þeir gerðu hressilegt gys að millistjórnendum útrásarfyrirtækja í fyrra verki sínu hefðu þeir átt að skopast rækilega að þeim sem fóru með okkur á hausinn. Eina leiðin út liggur gegnum hláturinn. Hann frelsar.