Bernd Ogrodnik frumsýndi verk sitt Brúðumeistarann í Brúðuheimum Þjóðleikhússins síðastliðinn laugardag undir styrkri og hugmyndaríkri stjórn Bergs Þórs Ingólfssonar. María Helga Guðmundsdóttir þýðir textann. Ég sá aðra sýningu í gær. Brúðuheimar eru uppi í turni leikhússins og þarf að príla upp marga stiga til að komast þangað, en þar hefur Bernd skapað marga töfraveröldina síðan hann settist þar að.
Sviðið núna er vinnustofa Günthers brúðumeistara uppi á hanabjálka í húsi sem senn á að breyta í hótel. Þetta er lítil kytra, alveg stappfull af vinnuborðum og bekkjum, kistum og kössum, hillum og skápum, flíkum, tuskum og verkfærum. Dýrleg leikmynd sem hægt væri að una sér lengi við að skoða. Og alls staðar eru brúður, stórar og smáar, í röð, í kippum eða stakar. Dyr eru vinstra megin inn á klósett og útgöngudyr eru á bakvegg, þeim er lokað með tveim slagbröndum og smekklás. Brúðumeistarinn ætlar ekki að láta útkastara nýju húseigendanna koma sér á óvart.
Sjálfur er hann að vinna að brúðu. Það er gamall karlmaður, nakinn, og brúðumeistarinn er að festa á hann vængi. En þegar pöntunin hans kemur með póstinum vantar í hana vélina sem á að knýja vængina – og þó hafði hún verið pöntuð, hann sannar það fyrir tortryggnum brúðunum með því að sýna þeim pöntunina á tölvunni. Svo spjallar hann við brúðurnar, dansar við þær, rífst við þær, stillir þeim upp eins og áhorfendum í leikhúsi og leikur fyrir þær verk með einni margslunginni „persónu“ sem byrjar eins og ormur en endar eftir margar ummyndanir sem hermaður vopnaður hríðskotabyssu. Áhorfendur eru mishrifnir af verkinu og meðal þeirra leynist illvígur gagnrýnandi sem rífur verkið niður í æsingi þar til brúðumeistarinn grípur hann af standi sínum og kemur honum fyrir á eyðiey! Þangað safnast svo smám saman allir helstu andstæðingar meistarans meðal brúðanna og er það orðinn dágóður hópur áður en yfir lýkur.
Smám saman færist leikurinn nær brúðumeistaranum sjálfum. Við fáum að vita að ættingjar hans fóru illa út úr stríðinu eins og nær allir Þjóðverjar. Stríðið lék Bernd með skuggamyndum á vegg og magnaðri hljóðmynd, það var ótrúlega öflugt. Foreldrar hans áttu líka við sín einkavandamál að stríða sem þó var aldrei talað um, allra síst við drenginn. Sjálfur býr hann yfir hræðilegu leyndarmáli sem hann hefur heldur ekki getað talað um við neinn. Afhjúpun þess var sannkallaður sjokkeffekt! Við hlýðum líka á samtal hans og nasistaforingja um fjöldamorð í mannkynssögunni og erum minnt á að fleiri ráðamenn þjóða eru sekir um slíkt en nasistar. Þeir minnast slátrunar á Afríkubúum og frumbyggjum Ameríku og að víkingarnir, sem nú eru sýndir í hetjuljóma í hverri sjónvarps- og kvikmyndinni af annarri, voru í rauninni ræningjar og morðingjar að aðalatvinnu. Þetta samtal og brúðurnar sem fylgdu því var hápunktur sýningarinnar þar til kom að endinum sem var fallegur og áhrifamikill.
Bernd er einn á sviðinu – en þó svo langt frá því að vera einn. Brúðurnar fengu margar skýran persónuleika og maður gleymdi því gersamlega að það var maður að tala fyrir þær. Þarna var nasistaforinginn einna minnisstæðastur en líka afi gamli, brúðuengillinn, gagnrýnandinn og æskuvinurinn. Makalaus leikmyndin er eftir Evu Signýju Berger en Katarína Caková gerir grímur og skuggasenuna gerði Anne Rombach. Tónlistin er eftir Pétur Ben og hljóðmyndin eftir Elvar Geir Sævarsson, hvort tveggja smekklegt og vandað, ýmist fagurt eða ógurlegt. Lýsingin er verulega flókin og skiptir miklu máli í andrúmslofti sýningarinnar, hana hannaði Ólafur Ágúst Stefánsson.
Bernd Ogrodnik er mikill listamaður sem hefur auðgað íslenska menningu og leikhúslíf síðan hann valdi þessa eyju sem sitt nýja heimaland fyrir fjórum áratugum. Um leið og hann segir frá því og útskýrir hvers vegna hann kaus að koma hingað til dvalar minnir hann okkur á hvað innflytjendur gera samfélagið óendanlega miklu ríkara að öllu leyti. Við eigum að taka opnum örmum því fólki sem vill vera hér, lifa, starfa, læra og miðla.
Silja Aðalsteinsdóttir