Óskabörn ógæfunnar frumsýndu í gærkvöldi leikritið Hans Blær eftir Eirík Örn Norðdahl, verk sem hefur verið kynnt á nýstárlegan hátt með eintómum neikvæðum (en einkar skemmtilega orðuðum) lýsingum. Maður kveið eiginlega fyrir að hlusta á textann af ótta við að hlustum manns yrði misboðið á hverri mínútu. Það gerðist ekki og þá er spurningin hvort leikhópurinn ritskoðaði leikskáldið og sjálfan sig fyrir (tvífrestaða) frumsýningu eða hvort hlustir manns eru orðnar svo sjóaðar í veltingi nútímans að þeim bregði ekki við neitt lengur. Líka er til í dæminu að það hafi verið búið að vara leikhúsgesti svo rækilega við að þeir hafi búist við því mun verra en það varð og þess vegna ekki látið sér bregða.
Talsverðar tilfæringar hafa verið gerðar á salnum í Tjarnarbíó fyrir þessa leiksýningu. Fremstu sætaraðirnar hafa verið fjarlægðar og bæði er leikið uppi á pallinum undan þeim, í miklu návígi við áhorfendur, og niðri á sviðinu. Ekki blasti við hvaða gagn þetta príl upp og niður gerði verkinu. Fyrsta atriðið og það eina sem var bæði langt og leiðinlegt var dans framinn af leikendum á sviðinu bak við gegnsætt tjald, stundum undir blikkandi ljósum. Sjálfsagt má túlka þetta atriði á ýmsan máta – til dæmis sem tilgangslítil hlaup okkar fram og aftur í þessu sem við köllum líf, enda minnti atriðið oft á stjórnlausan flótta maura í allar áttir. Sýningunni lauk líka á dansatriði en það var mun áhrifameira en upphafið.
Þegar gegnsæja tjaldið var dregið frá blasti við spennandi sviðsmynd Brynju Björnsdóttur, litríkur geysimikill skoltur með hvössum tönnum. Bæði þar og þó einkum á pallinum fyrir framan áhorfendur var okkur síðan sögð sagan af hánum Hans Blævi sem í upphafi var stúlkan Ilmur. Sara Martí Guðmundsdóttir lék hána á því stigi tilverunnar og náði sterkum tökum á persónunni. Móðir hánar sem segir okkur æskusöguna var líka sannfærandi í túlkun Sólveigar Guðmundsdóttur. Ilmur er intersex eða millikynjungur og skólasystkini hánar eru ekki lengi að finna á hánum veika bletti. Hán er ofsótt og einelt í æsku en hán er líka eldklárt og hefnd hánar verður grimm þegar hán er vaxið úr grasi og orðið Hans Blær. Þá var hán leikið af karlleikurunum, Jörundi Ragnarssyni, Sveini Ólafi Gunnarssyni og Kjartani Darra Kristjánssyni – eða ég sá ekki betur en þeir fengju allir að reyna sig við hána og tókst vel upp. Vöktu jafnvel samúð með persónunni þótt ólíklegt væri fyrirfram.
Leikstjóri sýningarinnar er Vignir Rafn Valþórsson sem einnig stýrði hinni rómuðu sýningu hópsins upp úr skáldsögunni Illsku eftir Eirík Örn. Hljóðmyndin í Hans Blævi var oft mögnuð, Áslákur Ingvarsson er skrifaður fyrir henni, og vídeó Rolands Hamilton voru glannalega flott en búningar Enólu Ríkeyjar voru fremur sviplitlir. Sýningin er – eftir að upphafsatriðinu lýkur – bráðskemmtileg og ögrandi, full af smellnum setningum og athugunum sem kveikja löngun til að lesa bókina um Hans Blævi sem er væntanleg í haust. Þar fáum við eflaust heildstæðari mynd af hánum og samfélaginu sem hán hrærist í.
-Silja Aðalsteinsdóttir