Það sem Eugene O’Neill vissi svo vel var að tilfinningarnar sem við berum til okkar nánustu eru aldrei neitt eitt, ást, hatur, reiði, öfund, fyrirlitning, heldur flókin blanda af þessu öllu saman. En eitt er að vita og annað að koma í orð og athöfn eins og hann gerir svo snilldarlega í Dagleiðinni löngu sem var frumsýnd í Kassa Þjóðleikhússins í gærkvöldi undir stjórn Þórhildar Þorleifsdóttur. Þórhildur veit þetta sennilega líka því allar þessar andstæðu tilfinningar ólguðu bæði á yfirborði og undir niðri á sviðinu.
O’Neill vinnur með sína eigin fjölskyldu í Dagleiðinni löngu, foreldra sína og eldri bróður, og verkið var ekki sett á svið fyrr en hann var allur. Það þarf hugrekki til að skrifa svona verk og skiljanlegt að hann hafi ekki getað horfst í augu við það á sviði. En síðan það var sýnt fyrst hefur það þótt eitt áhrifamesta fjölskylduleikrit vestrænna bókmennta. Það er nú flutt í nýrri þýðingu Illuga Jökulssonar.
Við erum stödd í sumarbústað Tyrone-fjölskyldunnar. Heimilisfaðirinn James Tyrone (Arnar Jónsson) er frægur leikari, nú hniginn á efri ár. Starf hans hefur þó fremur verið bundið við eitt hlutverk sem hann hefur leikið víða en mörg hlutverk í einu húsi eins og við erum vön, og fjölskyldan hefur aldrei sest að á einum stað – nema á sumrin. Mary kona hans (Guðrún S. Gísladóttir) harmar þetta, finnst hún hafa eytt ævi sinni á ógeðslegum hótelherbergjum um allar trissur og aldrei búið sonum sínum gott og fallegt heimili. Þessu endalausa flakki kennir hún um mörg fjölskyldumein sem rifjuð eru upp í verkinu. Eldri sonurinn, Jamie (Hilmir Snær Guðnason), er leikari eins og faðirinn en ekki eins vinsæll og það ergir föðurinn endalaust. Yngri soninn Edmund (Atli Rafn Sigurðarson) langar til að skrifa og orðræða hans bendir greinilega til þess að hann hafi hæfileika til þess en hann hefur verið lélegur til heilsunnar og eitt af því sem gerist á þeim tæpa sólarhring sem líður í verkinu er að Edmund greinist með berkla. Það gat verið dauðadómur árið 1912. Öll hefur fjölskyldan flúið á vit deyfandi efna til að draga úr sviða minninganna og einmitt nú átta feðgarnir sig á því að móðirin er komin aftur í morfínið. Sjálfum er þeim eðlilegt að renna í viskíflöskuna á öllum tímum sólarhrings og þó að þeir eldri reyni að minna þann yngsta á að áfengi sé ekki hollt fyrir hann í veikindunum er engin alvara í því. Öll stefna liggur beint fram af brúninni.
Þórhildur sýnir verkinu djúpa virðingu í uppsetningu sinni. Þó að hún stytti það verður hvergi vart við högg í textanum, þvert á móti rennur allt að einum ósi og heldur manni sem helteknum. Stofuleikrit eins og Dagleiðin langa verða oft óþægilega kyrrstæð og svæfandi, mikið tal og lítil hreyfing. Þórhildur og sviðshönnuður hennar, Jósef Halldórsson, hafa séð við þessu. James Tyrone á sjálfur að hafa teiknað og byggt sumarhúsið og að sjálfsögðu hefur hann breiða stiga milli hæða – frekar tvo en einn – af því það er svo flott innkoma að koma niður stiga. Þessir stigar lengja útgöngur og innkomur og gera þær dramatískari, við sjáum líka dyrnar að herbergjunum á efri hæðinni og getum spáð í hver fer inn í hvaða herbergi. Sýningin er líka skemmtilega líkamleg, persónurnar snertast mikið, einkum er Mary ástúðleg við yngri son sinn sem hún hefur meiri áhyggjur af en hún lætur uppi.
Leikur allra fjögurra var innlifaður og sannur. Maður þekkti þetta fólk ofan í grunn um það er lauk og skildi flókið sálarlíf þess. Djúprætt öryggisleysi föðurins eftir uppvöxt í sárri fátækt, óhamingju móðurinnar eftir líf sem henni finnst nú að hafi verið til lítils og vill helst gleyma, minnimáttarkennd eldri sonarins, sem býr við stöðuga gagnrýni föður síns og illa duldar ásakanir móður sinnar, og hjálparleysi yngri sonarins sem veit ekki hvernig hann á að láta drauma sína rætast – ef hann verður svo heppinn að lifa af. Það er ekki fyrir aðra en hörkuleikara að koma bæði texta og undirtexta til skila en þar vantaði hvergi neitt upp á. Þó er freistandi að geta leiks Guðrúnar S. Gísladóttur sérstaklega af því hvað persóna móðurinnar verður miðlæg í þessari uppsetningu. Það var með ólíkindum hvað þessi hrjáða manneskja sem hálfgerður unglingur féll fyrir mun eldri manni varð manni nákomin og hjartfólgin.
Þrátt fyrir allar þær bullandi andstæðu tilfinningar sem við verðum vitni að á sviðinu og sem þetta fólk kemur svo beisklega vel orðum að finnum við allan tímann ástina sem undir liggur. Þrátt fyrir allt þykir þeim svo vænt hverju um annað, það er kannski sárast af öllu – en huggandi um leið.