Áhugaleikfélagið Hugleikur sýnir nú í leikhúsinu Funalind 2 leikritið Góðverkin kalla eftir þá Ljótu hálfvita Ármann Guðmundsson, Sævar Sigurgeirsson og Þorgeir Tryggvason. Verkið var upphaflega samið fyrir Leikfélag Akureyrar fyrir rúmum þrjátíu árum og hefur síðan verið sýnt víða um land en er nú í fyrsta sinn í höfuðborginni. Leikstjóri er Ármann Guðmundsson; María Björt Ármannsdóttir sér um búninga sem voru skrautleg blanda af hversdagsfatnaði 10. áratugarins og hún var líka í hópnum sem sá um leikmuni á sviði ásamt Guðrúnu Eysteinsdóttur og Jóni Erni Bergssyni; Skúli Rúnar Hilmarsson hannaði lýsingu.
Sviðið er klassískt: tvö hús, hvort sínu megin, autt svæði á milli en í baksýn fjörður með háum fjöllum hvorum megin. Við erum stödd í þorpinu Gjaldeyri við Ystu Nöf, óttalegu „nágreni“ að mati íbúa, alla vega sumra. Þar snýst bæjarlífið á þessum tímapunkti um harða samkeppni tveggja karlaklúbba, Dívansklúbbsins og Lóðarísklúbbsins, um veglegustu gjöfina handa sjúkrahúsinu á staðnum í tilefni af aldarafmæli þess. Raunar er kvenfélagið Sverðliljurnar ákveðið í því að gefa ennþá stærri gjöf en karlaklúbbarnir og þær Drífa formaður (Hrafnhildur Þórólfsdóttir), eiginkona Lúðvíks, formanns Lóðarís (Hannes Þórður Hafstein Þorvaldsson), og Dagbjört, eiginkona Jónasar (Sigríður Bára Steinþórsdóttir), formanns Dívans (Hjörvar Pétursson), grípa til æði vafasamra ráða til að fá menn sína til að punga út stórfé á fjáröflunartombólunni. Allir fá formennirnir sömu hugmynd að gjöf. Morgunblaðið hefur sagt frá tækinu „straumlínugjafa“ sem muni valda byltingu í læknavísindunum og þetta tæki ætlar hvert fyrir sig að kaupa án vitundar hinna. Þau vita ekki (eða vilja ekki vita) að Björn héraðslæknir (Eggert Rafnsson) er mótfallinn nýjum tækjum – tvær sjúkrastofur eru þegar fullar af gjafagræjum sem hann kann ekkert á! Og með þetta má að sjálfsögðu grínast endalaust með orðaleikjum, misskilningi og mistökum af ýmsu tagi sem njóta sín í sanníslenskum gamanstíl þeirra félaga.
Þetta er stórsagan. Litlu sögurnar eru svo allt í kring: framhjáhald Drífu með Nonna hefli (Egill Sigurbjörnsson), koma nýrrar ungrar konu á staðinn, fallegu hjúkrunarkonunnar Ástu (Erna Björk H. Einarsdóttir) sem finnst allt svo krúttlegt í litla bænum, stormasamt tilhugalíf hennar og hins geðklofna Jökuls Heiðars, bróður Drífu (Sigurður H. Pálsson), að ógleymdum mergjuðum sögunum sem Bína mamma þeirra systkina (Margrét Þorvaldsdóttir) fóðrar héraðslækninn á. Líka birtast sölumenn (Loftur S. Loftsson, Fríða Bonnie Andersen) með aldeilis stórkostleg tilboð til íbúa húsanna tveggja. Á sviðinu er mikið fjör en inn á milli myrkvast það og kastljós birtist á því miðju þar sem ein persóna fær að tjá sinn innri mann. Það var fallega gert og gaf leikurunum tækifæri til að vera einir með áhorfendum stutta stund. Einnig bresta persónurnar í söng við og við eins og er við hæfi þar eð höfundarnir eru frægir texta- og lagasmiðir.
Ég er mikill aðdáandi Hugleiks og marga af leikurunum hef ég séð áður á sviði; þeir brugðust mér ekki nú fremur en endranær. Hannes Þórð hef ég ekki áður séð og fannst gaman að sjá hvað hann er öruggur, hvílir vel í persónu sinni sem áreiðanlega er gerólík hans eigin og bjó hana til með ótal smáatriðum, hreyfingum, töktum og kækjum sem smám saman fullgerðu smámunasaman, spéhræddan lítinn karl sem lítur þó stórt á sig. Konan hans segir hann ónýtan til alls enda „dugnaðarforkur með driffjaðrir á öllum“ eins og segir í leikskrá, og Hrafnhildur raungerði léttilega á sviðinu. Margrét Þorvaldsdóttir fannst mér líka ferlega fín sem sú hraðlygna og Sigurður H. átti stórleik sem hinn tvíklofni bankamaður (hann er í tvíburamerkinu, sko). Öll héldu þau vel sínum sérstöku persónueinkennum, stórum og smáum og má hrósa leikstjóra sérstaklega fyrir það en líka fyrir valið í hlutverk. Einstaklega skemmtilegt var að sjá hvernig spilað var á stærðarmun, til dæmis gríðarlegan mun á stærð þeirra skötuhjúanna Bínu og Björns læknis, muninn á stærð Drífu, Dagbjartar og Ástu þegar þær syngja saman og muninn á stærð hjónanna Drífu og Lúðvíks. Þetta ýtir með öðru undir grallaralega kómík verksins.
Það verður enginn svikinn af Góðverkum Hugleiks og ég óska þeim enn á ný til hamingju með fertugsafmælið. Þau lengi lifi!
Silja Aðalsteinsdóttir