Það var beinlínis líkamlega erfitt að fylgjast með átökum þeirra Hilmis Snæs Guðnasonar og Margrétar Vilhjálmsdóttur á Nýja sviði Borgarleikhússins í gærkvöldi í fulla þrjá klukkutíma (með einu hléi), svo ekta hatrömm voru þau, þó nokkurn veginn alveg án líkamlegs ofbeldis. Í víðkunnu leikriti Edwards Albee Hver er hræddur við Virginíu Woolf? beita menn ofbeldi með orðum. Þess vegna er krafa númer eitt að textinn renni vel, fari vel í munni þessa fólks sem hellir úr skálum reiði, vonsvika, örvæntingar og heiftar yfir sína nánustu og aðra á sviðinu. Þýðing Sölku Guðmundsdóttur gegndi hlutverki sínu með mikilli prýði – ef hægt er að nota svo prútt orð um svona mikinn dónaskap. Og óágeng hljóðmynd Möggu Stínu ýtti lymskulega undir óhugnaðinn.
Leikstjórinn Egill Heiðar Anton Pálsson hefur fullkomna trú á leikurunum sínum. Leikið er niðri á gólfi og á tveim allmjóum rennum í sérkennilegri sviðsmynd Gretars Reynissonar (sem er ekki vitund lík sviðinu á auglýsingamynd fyrir sýninguna) og koma átökin nánast upp í fangið á þeim sem sitja á fyrsta bekk. Sviðið orkar fyrst nöturlega vítt og tómt en reyndist merkilega vel. Þátttakendur hafa mikið rými til að athafna sig í, átökin dreifast vel og svo er líka rúm fyrir einleiki – því ýmislegt eru aðrar persónur að hugsa og pæla meðan bálið brennur milli helstu átakaaðila. Það var gaman að fylgjast með Elmu Stefaníu Ágústsdóttur og Eysteini Sigurðarsyni meðan Margrét og Hilmir Snær tóku stóru köstin – það er að segja EF maður tímdi að líta af aðalpersónunum.
„Eitraðasta eftirpartý leikbókmenntanna“ segja aðstandendur sýningarinnar um þetta verk. Marta (Margrét) og Georg (Hilmir Snær) eru að koma heim úr veislu hjá pabba hennar sem er rektor háskólans þar sem Georg kennir sagnfræði. Þau eru við skál og hann vill fara að sofa en hún er ör og vill það ekki. Enda hefur hún boðið heim gestum, unga nýliðanum við líffræðideildina (Eysteinn) og konunni hans (Elma Stefanía). Ungu hjónin eru áfjáð í að koma sér vel við dóttur rektors og þó að þeim hætti fljótlega að lítast á blikuna fara þau ekki heim fyrr en allt hefur verið upplýst, allir hafa verið niðurlægðir og standa uppi berskjaldaðir.
Því jafnvel svona vel upplýst og efnað fólk á sér óþægileg leyndarmál sem geta komið sér illa þegar þarf að koma höggi á það. Við finnum vel að „skemmtilegu leikirnir“ sem þau Georg og Marta fara í frammi fyrir gestum sínum eru ekki leiknir í fyrsta sinn þetta kvöld þó að þeir skeki gestina duglega. Inn á milli átakanna koma stutt hlé trúnaðar milli karlmannanna annars vegar og kvennanna hins vegar en trúnaðarupplýsingarnar eru áður en varir notaðar á svívirðilegan hátt til að brjóta persónurnar niður. Við ímyndum okkur að lokum að einmitt þetta kvöld hafi Marta og Georg gengið of langt, þau muni aldrei geta litið hvort framan í annað eftir þetta, en ætli það sé rétt? Kannski eru allar þeirra skærur einmitt svona skæðar. Hjónaband þeirra mun áreiðanlega bjarga þeim frá hreinsunareldinum því þar hafa þau dvalið langa hríð.
Það er langt síðan ég sá þau leika saman fyrst, bekkjarsystkinin Hilmi Snæ og Margréti. Það var í Draumi á Jónsmessunótt í Nemendaleikhúsinu haustið 1993. Verulega minnisstæð eru þau bæði úr ógleymanlegri uppsetningu Kjartans Ragnarssonar á Sumargestum Gorkís vorið 1994, einnig í Leitt hún skyldi vera skækja eftir John Ford á Smíðaverkstæðinu, síðan í hverju verkinu af öðru og nú síðast í Macbeth á stóra sviði Þjóðleikhússins. Þau þekkja hvort annað og kunna hvort á annað og það var meira en unun að horfa á þau glíma í gærkvöldi þrátt fyrir sálardrepandi atlögurnar sem persónurnar gera hvor að annarri. Þetta er leiklist í hæsta gæðaflokki.
Elma Stefanía hefur orðið mikla reynslu af átakamiklum hlutverkum þrátt fyrir ungan aldur og hún naut sín vel í hlutverki ungu eiginkonunnar – auk þess sem hún smellpassaði við lýsinguna sem klifað er á í textanum (fyrir utan heimskusvipinn sem er Elmu Stefaníu ekki eiginlegur). Eysteinn tók ekki mikið á framan af í hlutverki unga líffræðingsins en varð merkilega margslunginn og torræður þegar á leið. Þessar persónur eru auðvitað fyrst og fremst áhorfendur fyrir eldri hjónin svo þau geti leikið leikritin sín af innlifuðum krafti en í sýningunni í gær urðu þau bæði forvitnileg og brjóstumkennanleg.
Leikritið er sett upp í ákveðnu tímaleysi þó að margt geti vel passað við ritunartímann um 1960. Búningar Helgu I. Stefánsdóttur voru til dæmis ýmist nokkuð dæmigerðir fyrir þann tíma (kjólar Mörtu) eða nútímalegir (buxnadragtin hennar í byrjun). Þau leika vínilplötur en þær eru vinsælar núna þannig að það þarf ekki að segja neitt sérstakt. Auðvitað má vel halda því fram að Marta væri ekki eins vansæl í okkar samtíma; hún myndi vera sjálf að kenna við háskólann eða hafa gefandi starf annars staðar. En tilfellið er að hjónabandshelvíti eru líka til á okkar dögum, þrátt fyrir margvíslega möguleika kvenna, og harmur þeirra Georgs og Mörtu liggur mun dýpra en nemur lífsleiða hennar.