Það lá nærri því áþreifanleg eftirvænting í loftinu í Þjóðleikhúsinu í gærkvöldi fyrir frumsýningu á nýju leikriti Braga Ólafssonar, Maður að mínu skapi. Eflaust hefur flestum leikhúsgestum verið í fersku minni hvað síðasta verk Braga á sviði, Hænuungarnir, var skemmtilegt og búist við svipuðu verki frá hópi sem er næstum því sá sami: Sami leikstjóri, Stefán Jónsson, sami aðalleikari og sömu aukaleikarar að hluta. En þó að Hænuungarnir hafi verið beitt verk á sinn hátt var gagnrýni þess dreifðari og duldari en Manns að mínu skapi. Nýja verkið ræðst á þekkjanlegri samtíma úr fréttum – en á afskaplega „Bragalegan“ hátt.
Við erum stödd á heimili háskólakennara á virðulegum aldri, Guðgeirs Vagns Valbrandssonar (Eggert Þorleifsson), hann er ókvæntur og býr einn í glæsilegri hásymmetrískri íbúð sem Finnur Arnar Arnarson skapar af mikilli kúnst á stóra sviðinu. En fyrsta manneskjan sem við hittum í íbúðinni er þó ekki eigandinn heldur nýráðin ræstingarkona hans, Bertha (Ólafía Hrönn Jónsdóttir), sem hefur einstakt lag á því að koma einmitt á þeim dögum þegar hún á ekki að koma. Bertha reynist vera hreyfiafl verksins og málpípa höfundar, jafnvel höfundur verksins – sbr. Jenný Alexson sem var „höfundur” næstsíðustu skáldsögu Braga, Handritsins að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar … En ef hún er sjálfur höfundurinn þá hefur hún tekið að sér meira en hún ræður við, því persónur þess eru viðsjárverðir gripir sem ein vesalings alþýðukona hefur ekki roð við.
Bertha tekur á móti Ársæli Daða (Þorleifur Einarsson), sérlegum aðstoðarmanni Guðgeirs í verkefninu sem hann er að vinna. Það er samsetning stórrar bókar með fleygum orðum, gamalkunnra og nýrra, sem er komin langt á veg. Eins og að líkum lætur eru þetta upptuggur úr öðrum bókum og fer vel á því að skreyta sviðið með páfagauki. Það hefur svo sína margslungnu merkingu þegar uppstoppaður fálki er kominn í stað gauksins í síðari hluta leiks.
Bertha hittir líka gamlan vin Guðgeirs, Klemens Magnason fyrrverandi heilbrigðisráðherra (Pálmi Gestsson) og móðursystur Guðgeirs, Dórótheu (Kristbjörg Kjeld). Þegar Bertha kemst að því að Klemens hefur haft allt spariféð af Dórótheu gömlu ákveður hún að láta Agnar bróður sinn (Þorsteinn Bachmann) hjálpa henni að heimta það á ný. En Agnar á harma að hefna bæði á Guðgeiri og Klemens og þegar hann er kominn í spilið missir Bertha smám saman tökin á perónum sínum með ófyrirséðum afleiðingum. Hér er sett á svið stílfærð útgáfa af fjölmiðlaumræðu undanfarinna ára um þjófnaði og svik. Og eins og í veruleikanum er mikið talað en illa fylgt eftir í verki.
Bragi sýnir á sinn lúnkna hátt í þessu verki hvað það er erfitt – og í raun ókleift – að ná utan um nútímann í einu leikriti á einu kvöldi. En hann gefur áheyrendum margt að hugsa um og tengja við úr nýliðinni fortíð. Sýningin er vel leikin eins og við er að búast en var ansi hæg og gisin fyrir hlé. Eftir hlé var hún hröð og þétt. Leikritið er fremur stutt, og hefði líklega verið rétt að sleppa hléi og ná upp betri hraða smám saman.