Yrsa Þöll Gylfadóttir. Strendingar: fjölskyldulíf í sjö töktum.

Bjartur, 2020. 264 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2021

StrendingarStrendingar er þriðja skáldsaga Yrsu Þallar Gylfadóttur. Hún fékk fínar umsagnir frá gagnrýnendum þegar hún kom út en ef til vill fór ekki jafnmikið fyrir henni og ætla mætti. Bókin minnti svo rækilega á sig þegar hún hlaut tilnefningu til hinna virtu Bókmenntaverðlauna Evrópuráðs, ásamt Dauða Skógar eftir Jónas Reyni Gunnarsson og Delluferðinni eftir Sigrúnu Pálsdóttur, en sú síðastnefnda hreppti hnossið.

Undirtitill Strendinga er Fjölskyldusaga í sjö töktum. „Taktur“ er ef til vill ekki hefðbundin leið til að lýsa formgerð bókar, lesandi kann að álykta að þetta merki að sagan sé í sjö þáttum eða sjö köflum. Raunin er að sagan er sögð frá sjö mismunandi sjónarhornum, sjö mismunandi fyrstu persónu sögumönnum sem skipt er á milli með reglulegu millibili. Hvert sjónarhorn hefur sína sérstöðu, sinn takt.

Sagan fjallar um nokkuð hefðbundna íslenska fjölskyldu sem flutt hefur í smábæinn Stapaströnd. Meðlimir fjölskyldunnar sinna sínum hversdagslegu erindum og glíma við vandamál sem koma upp, eins og veikindi, erjur í vinnunni eða vinahópnum. Í fyrstu hljómar fléttan sem slík ekki ýkja spennandi en bókin leynir sannarlega á sér, hún er lúmsk sífletta (e. page-turner).

Taktarnir sjö

Strendingar skiptist í sex hluta sem heita eftir mánuðum, sagan byrjar í febrúar og endar í júlí. Hver hluti skiptist svo í nokkra kafla sem bera nafn þeirrar persónu sem er sögumaður hverju sinni.

Eva, móðirin í fjölskyldunni, vinnur sem framkvæmdarstjóri skipulags- og byggingarráðs sveitarfélagsins. Í upphafi bókar er hún nýsnúin aftur til vinnu úr barneignarleyfi. Meðan hún var í leyfinu var samþykkt að byggja nýja kirkju í bænum, þar sem sú eldri liggur undir skemmdum. Bærinn skiptist í tvær fylkingar, önnur vill byggja glænýja kirkju en hin vill frekar gera endurbætur á gömlu kirkjunni. Eva tilheyrir seinni hópnum og telur víst að þessari framkvæmd hafi verið laumað í gegnum kerfið án þess að fyrir henni hafi fengist tilskilin leyfi. Þar að auki hafi sóknarnefndin vísvitandi látið gömlu kirkjuna grotna niður til að réttlæta byggingu þeirrar nýju. Nú hefur verið steyptur grunnur að nýbyggingunni en Eva vill stöðva framkvæmdirnar til að kanna hvort allt sé með felldu í skriffinnskunni. Þá fer allt í háaloft og Eva fær marga sveitunga sína upp á móti sér. Leikar æsast sífellt í þessum erjum og þótt Eva sé staðföst og ákveðin er henni ofviða að standa af sér storminn og fær á endanum taugaáfall.

Pétur, maðurinn hennar, er nýbúinn að missa móður sína, Steinunni. Hann sér lífið í nýju samhengi og fer að hafa áhyggjur af því að hann sé að missa sjónar á því sem raunverulega skiptir máli. Líf Péturs er gömul saga og ný, hann er skapandi einstaklingur sem á bágt með að framfleyta sér á listinni og freistast til þess að hreiðra um sig innan auglýsingaiðnaðarins. Hann verður fyrir kulnun í starfi og ákveður að standa við áramótaheitið og gefa út ljóðabók til að heiðra minningu móður sinnar, sem var ljóðelsk manneskja og orti fyrir skúffuna, sjálfri sér til yndisauka. Pétur nálgast viðfangsefnið með allt að því vísindalegri nákvæmni. Hann byrjar á að sækja sér orðabækur og nóterar hjá sér fegurstu orðin sem verða á vegi hans. Úr þeim föndrar hann svo ljóð. Hann ályktar að úr dýrustu innihaldsefnunum hljóti að fást ljúffengasti rétturinn, en niðurstaðan er oftar en ekki ofhlaðin orðasúpa:

Í himnu augna þinna er himinþoka
hundrað sólmassar þyrlast og þenjast
Í þeim er eldur
sem brennur, sem bjarmar
og logar í firðinni,
ljósárum burtu frá mér.

[ …] Sitthvað vantar þó upp á til að hrífa lesandann almennilega með sér. Ætli vanti ekki enn meiri litagleði og meira glitur? Ég gæti reynt að bæta nokkrum orðum af blaðinu mínu, sáldra þeim yfir og krydda textann:

Kristaltær – mánasilfur – veðrabrigði – algleymi – himintungl – svefnhöfgi (20)

Bergur, faðir Péturs, er illa haldinn af alzheimer-sjúkdómnum. Fjölskyldan gerir sér ekki grein fyrir hversu slæmt ástandið er orðið fyrr en eftir andlát Steinunnar, þegar í ljós kemur að hann er algjörlega ófær um að sjá um sig sjálfur. Þar sem ekki er laust pláss á dvalarheimili í sveitinni sér Pétur engan kost annan en að flytja gamla manninn inn á heimili fjölskyldunnar, en það setur heimilislífið, sem er í ákveðnu uppnámi eftir taugaáfall Evu, enn meira úr skorðum. Kaflarnir sem sagðir eru frá sjónarhorni Bergs eru með þeim sterkustu í bókinni, þar sem höfundur dregur á afar sannfærandi hátt fram hið undarlega og ógnvænlega hugarástand alzheimer-sjúklingsins.

Pétur og Eva eiga þrjú börn. Silja er elst, en hana eignaðist Eva í fyrra sambandi. Hún er í unglingadeild og glímir við sígild unglingavandamál, hún er óörugg og finnst fjölskylda sín alveg síðasta sort. Hún er ögn utangarðs og hefur orðið fyrir einelti og drusluskömmun. Þess vegna er hún varfærin í samskiptum og á ekki marga vini. Engu að síður nær hún saman við strák í skólanum sem deilir sömu áhugamálum og þau skiptast á krúttlegu smáskilaboðadaðri í gríð og erg.

Silja hefur mikinn áhuga á tölvuleikjum og framhaldssögum sem hún les á netinu. Hún er bráðgáfuð og skapandi og fer að spreyta sig í að skrifa fantasíusögur og birta á netinu. Ljóst er að Pétur er ekki sá eini í fjölskyldunni með skáldadrauma, þótt aðferðafræðin sé ólík, og ekki er um að villast hvort hefur meiri hæfileika á því sviði.

Steinar litli, sonur Evu og Péturs, er sex ára. Hann hefur barnslega sýn á hlutina og ljóst að hann á margt ólært þegar kemur að mannlegum samskiptum. Hann er viðkvæmur drengur, með sterka réttlætiskennd og oft þykir honum gengið á sinn hlut. Hins vegar er hann ekki alltaf heiðarlegur sjálfur, stundum kemur hann illa fram við hina krakkana og óljóst hver er raunverulega fórnarlambið í eineltis- og ágreiningsmálum. Lesandinn er raunar ekki alltaf viss um hvort Steinar sé allur þar sem hann er séður og hvort hægt sé að treysta honum. Hvort það er af því að hann er óviti eða virkilega illkvittinn lítill pjakkur er ekki fullljóst, sennilega er hann svolítið af hvoru tveggja.

Ólafía er yngsta barnið. Í lok bókarinnar er hún að verða eins árs og lætur ofurlítið að sér kveða. Hennar sýn á veröldina er einkar einföld, teiknuð upp í grófum strokum. Kaflarnir þar sem hún er sögumaður minna stundum á ljóð, þeir eru stuttir, orðfáir og fást fyrst og fremst við að lýsa umhverfinu og einföldum tilfinningum.

Þetta er skemmtilegt.
Þetta er bara eins og í baðinu mínu.
Stórt bað.
Og þarna er bíbí.
Ég verð að segja mömmu frá því.
Mamma brosir en hún sér ekki bíbí.
Bíbí, segi ég og bendi mömmu á.
Mamma sér bíbí núna. (261)

Loks er dularfull persóna sem gengur undir nafninu Sahure. Eða það er nafnið sem hann kýs sér sjálfur, fjölskyldan kallar hann Mjálmar. Heimilisfólkið telur hann vera afskaplega venjulegan heimiliskött og á yfirborðinu er ekkert sem gefur annað til kynna. Lesendur fá hins vegar að skyggnast inn í hugarheim Sahures og þar opinberast að hann hefur lifað tímana tvenna. Hann var uppi á tímum Forn-Egypta þar sem hann var dýrkaður sem guð, hefur ferðast um allan heiminn, lent í ótal ævintýrum og átt ótal elskhuga. Hvort þetta er sannarlega raunin, að Mjálmar sé kynjaveran Sahure, eða hvort hann er einfaldlega með ranghugmyndir og mikilmennskubrjálæði, verður lesandinn að gera upp við sig.

 

Sjónarhorn

Ljóst er að nóg gengur á í lífi fjölskyldunnar á Stapaströnd. Bókinni er sennilega ekki greiði gerður með því að fara svona á hundavaði yfir söguþráðinn með öllum sínum persónum og þráðum. Sumum kann að þykja þetta hljóma eins og þáttur af Bílastæðavörðunum,[1] sem er alls ekki raunin því sagan er vel byggð og sjaldan ruglingsleg.

Takturinn í bókinni er ör, ekki síst vegna þess að stöðugt er skipt um sjónarhorn. Kaflarnir eru stuttir og það eru margir þræðir í gangi. Þetta er ekki dramatísk saga, oft er ekki neitt ógurlega mikið í húfi fyrir persónurnar en samt er lesandinn sífellt spenntur að vita hvað gerist næst.

Stíllinn á bókinni er tilbrigði við margradda skáldsöguna. Það er í sjálfu sér ekki óvenjulegt að hafa fleiri en einn fyrstu persónu sögumann í skáldsögum en það er ögn sjaldgæfara að þeir séu svo margir. Þekktasta bókin af þessu tagi er líkast til Sem ég lá fyrir dauðanum eftir William Faulkner. Bókin segir frá Bundren fjölskyldunni sem býr í Mississippi. Í upphafi bókar liggur ættmóðirin, Addie Bundren, fyrir dauðanum. Sagan er sögð með fimmtán ólíkum röddum sem leiða lesendur gegnum dauðastríð Addie og svo í ferðalag þar sem fjölskyldan flytur líkkistu hennar til næsta bæjar þar sem á að leggja hana til grafar.[2]

Margradda skáldsögur fjalla alltaf óbeint um að veruleikinn sé háður sjónarhorni. Ef tré fellur í viðurvist þriggja vitna segir kannski eitt að hvellurinn hafi verið hár, annað að hann hafi ekki verið neitt í líkingu við hvellinn sem hann heyrði í síðustu viku og það þriðja að það sé heyrnarlaust. Atburður á sér ekki stað á einn ákveðinn hátt, fólk hefur ólík sjónarhorn. Sögur af þessu tagi virka einnig sem áminning um að sýn okkar á veröldina er ekki það eina sem gildir, þótt það sé vissulega það eina sem við höfum beinan aðgang að.

Höfundur gerir í því að hafa sjónarhornin mjög ólík, persónurnar eru á ólíkum aldri, kyni og sannfæringu. Sagan er í sjálfu sér mjög raunsæisleg og persónurnar eru það líka. Þetta er venjulegt fólk sem hefur sína kosti og sína bresti, þau hafa eðlilegar vonir og áhyggjur, rétt eins og við öll. Fjölbreytileiki þeirra gerir líka að verkum að sérhver lesandi ætti að geta speglað sig í einhverri persónunni.

Tveir karakterar skera sig úr að því leyti að þeir eru aðeins fjær raunsæinu. Það eru þeir Sahure og Bergur. Sahure er ævintýrakarakter, hann er yfirnáttúrulegur eða telur sig í það minnsta vera það.

Mjálmar. Heimilisfólkið notar nafn sem er ekki mitt. […] Nafn mitt er Sahure. Ég hef átt góðar stundir sem Ronron á purpurapúða, sem Balthasar á hásléttunni, sem Grimalkin í faðmi nornanna minna. Já, ég hef sætt mig við ýmis nöfn í gegnum tíðina en ekkert þeirra jafnast á við það nafn sem ég hlaut sem kettlingur, dag einn í glóandi eyðimerkurdögun. (67–68)

Bergur er ekki óraunsæ persóna í sjálfu sér en hann þjáist af heilabilun og hefur þess vegna bjagaða sýn á veruleikann. Þessi rofni veruleiki er allt í senn skondinn, harmrænn og ógnvekjandi.

Fyrir nokkrum árum var leikritið Faðirinn, eftir franska leikskáldið Florian Zeller, sett upp í Þjóðleikhúsinu.[3] Kvikmyndaaðlögun á verkinu kom út árið 2020, þar sem Anthony Hopkins fór með hlutverk föðurins og fékk Óskarsverðlaun fyrir. Leikritið fjallar um aldraðan mann með alzheimer-sjúkdóminn. Ástand hans fer versnandi eftir því sem líður á og tök aðalpersónunnar á veruleikanum slakna. Til þess að miðla brenglaðri skynjun hans var ýmsum brögðum beitt, eins og að láta sömu leikara leika mismunandi persónur, eða með því að hliðra til hlutum í leikmyndinni. Spilað var með áhorfendur þannig að þeir verða samferða föðurnum í þessu súrrealíska leikhúsi sem sjúkdómurinn er.

Svipuðum brögðum er beitt í Strendingum til að miðla skynjun Bergs. Eina stundina situr hann kannski úti á palli á Stapaströnd, reykjandi sígarettu, er svo skyndilega kominn til Benidorm og síðan jafnskjótt aftur á pallinn. Hann ávarpar einhvern sem reynist svo vera einhver allt annar. Óheppilegast er kannski að hann er alltaf að rugla Evu saman við Steinunni, eiginkonu sína heitna.

Í einum kaflanum bölsótast hann yfir því að einhver hafi stolið peningum úr veskinu hans og er forviða yfir því að Pétur og Eva dirfist að stinga upp á að hann hafi eytt þeim sjálfur. Þar að auki hefur „einhver“ brotið gleraugun hans.

„Pétur minn, braust þú gleraugun hans pabba?“ spyr ég drenginn og horfi beint í augu hans, en bæti við: „Ef það var Lýður þá máttu alveg segja pabba.“ (206)

Þarna ávarpar hann Steinar, barnabarnið sitt, en telur að hann sé Pétur, sonur sinn, og að skammt undan sé Lýður litli bróðir hans. Steinar botnar ekkert í þessu:

„Ég heiti ekki Pétur, ég er Steinar, afi,“ segir hann svo fyrirvaralaust.

„Auðvitað veit ég það!“ segi ég. Hvað heldur hann eiginlega … að ég viti það ekki? Hvað er þetta eiginlega, manni finnst stundum engin virðing borin fyrir hinum eldri, börnunum leyfist svo margt, jafnvel ásakanir í garð hinna eldri. Nei, aldrei hefði maður leyft sér slíkt, á mínum yngri árum, að draga í efa eða andmæla hinum eldri. Skyndilega hellist yfir mig slík reiði að ég verð að fá mér ferskt loft. (207)

 

Lokatakur

Strendingar er margslungið og forvitnilegt verk. Bókin virkar sem samtímaspegill, innsýn í nútímafjölskyldu á Íslandi þar sem fullorðna fólkið á kortér eftir í kulnun og börnin horfin eitthvað lengst inn í furðuveröld internetsins. Í grunninn fjallar hún samt um sígild umfjöllunarefni, ástina, vonina og dauðann.

Bygging bókarinnar er sterk, það er ekki einfalt að halda utan um svona margar persónur, finna þeim rödd og blása þær lífi. Einnig getur verið flókið að sjá til þess að lesandi haldi þræði meðal allra þessara radda. Yrsu Þöll hefur tekist vel upp, hér er vandað til verka í bók sem er reglulega gaman að lesa.

 

Brynja Hjálmsdóttir

 

Tilvísanir

[1] Bílastæðaverðirnir er skálduð sápa sem birtist í sketsagamanþáttunum Fóstbræðrum, sem hóf göngu sína á Stöð 3 árið 1997. Sketsarnir hentu gaman að þvældum söguþráðum sjónvarpssápuformsins.

[2] As I Lay Dying eftir William Faulkner kom fyrst út árið 1930, en í íslenskri þýðingu Rúnars Helga Vignissonar árið 2013.

[3] La Pére eftir Florian Zeller var frumsýnt árið 2012 í Théâtre Hébertot í París. Verkið var sýnt í Þjóðleikhúsinu árið 2017. Kristján Þórður Hrafnsson þýddi, Kristín Jóhannesdóttir leikstýrði og Eggert Þorleifsson fór með aðalhlutverkið.