Hildur Knútsdóttir: Nornin
JPV útgáfa, 2019
Úr Tímariti Máls og menningar, 2. hefti 2020
Það er ekki mikið um gamaldags dulúð í Norninni eftir Hildi Knútsdóttur. Í staðinn blasir við hrákaldur veruleiki framtíðarinnar eftir að mannkynið hefur gengið fram af jörðinni og lagt eigin tilveru í rúst. Skáldsagan er sjálfstætt framhald Ljónsins sem kom út árið 2018, en þó að það séu greinilegar tengingar milli sagnanna eru þær afar ólíkar. Í Ljóninu segir frá Kríu sem er nýflutt frá Akureyri til Reykjavíkur og byrjar í framhaldsskóla. Fjölskyldan býr í Þingholtunum, og í kjallaranum býr amma Kríu, Gerða. Þegar Kría segir ömmu sinni frá vinkonu sinni sem heitir Elísabet Snæhólm Thorstensen bregst hún illa við og svo byrja leyndardómarnir að hlaðast upp. Þeir tengjast bæði fortíð Gerðu og ættarhúsi vinkonunnar – og svo hinum heillandi en dularfulla Davíð sem Kría hittir og fellur fyrir. Dulúðin sem er undirliggjandi í sögunni minnti á drauga- og álfasögur, en þó var eitthvað við Davíð sem passaði ekki alveg þar inn. Og í Norninni bendir allt til þess að svið hins yfirnáttúrulega sé öllu víðara.
En, eins og áður segir, fer ekki mikið fyrir hinu yfirnáttúrulega í Norninni. Þeir sem hafa lesið Ljónið fatta strax þegar ‚Davíð‘ birtist aftur, þó hann sé allbreyttur. Fyrir þá sem hafa ekki lesið hana þá skiptir það ekki öllu máli, því ljóst er að ein persónan er afar dularfull, en þó kannski aðallega óþægileg. Annað er ofurhversdagslegt, það er að segja, hversdagslegur heimur framtíðarsögu og vísindaskáldskapar. Nornin gerist undir lok þessarar aldar, tæplega áttatíu árum eftir atburði Ljónsins. Kría er vel yfir nírætt en afar ern, enda hafa verið þróaðar aðferðir til að hægja á öldrun. Hún er í ofanálag fræg vísindakona, hefur farið til Mars til að kanna möguleikana á að gera rauðu plánetuna byggilega fyrir mannkynið sem er búið að leggja eigin plánetu í rúst. Heimsmyndin er gerbreytt, ekki bara vegna hamfarahlýnunar og afleiðinga hennar fyrir loftslagið heldur líka vegna breyttra aðstæðna í samfélagi þjóða, en eftir stríð og hörmungar hafa allar þjóðir sameinast, landamæri verið þurrkuð út og í staðinn er komin Sameinaða þjóðin og ritari hennar. Ritarinn er kona en í Norninni hefur uppstokkun kynhlutverka fylgt í kjölfar annarrar upplausnar.
Vísindafantasían hefur í meira en öld verið vettvangur tilrauna með kynhlutverk, en líklega er Herland eftir Charlotte Perkins Gilman, frá árinu 1915, fyrsta verkið til að fjalla um heim þar sem það er ekkert merkilegt við það að vera karlmaður. Mörg þekktustu verka vísindaskáldsögunnar bjóða upp á ögrandi hugmyndir um jafnrétti allra kynja, oft með þungum femínískum undirtónum. Hildur fer aðra leið, en í hennar heimi er einfaldlega lítið fjallað um kyn og kynhlutverk og hún setur konur í öll aðalhlutverk á áreynslulausan hátt. Þó eru ennþá undirtónar kynjaátaka – valdamiklar konur eru til dæmis (enn) kallaðar nornir.
Aðalsöguhetjan Alma er nítján ára dótturdóttir Kríu. Hún er garðyrkjufræðingur og vinnur í einu af fjölmörgum gróðurhúsa sem eru á Íslandi. Þau eru öll ætluð nytjaplöntum enda er lítið eftir af sjálfbærri náttúru. Í upphafi sögunnar fær hún hinsvegar það tilboð að starfa í einkagróðurhúsi frægrar vísindakonu, sem er gömul vinkona Kríu og ferðafélagi til Mars. Þar blasir við Ölmu horfinn heimur gróðurmoldar og skrautplantna. Lýsingin á fyrstu upplifun Ölmu er sláandi:
Það fyrsta sem Alma tók eftir var rakinn. Hann var miklu meiri en í baunahúsinu. Hann umfaðmaði hana, smaug heitur í gegnum hlífðargallann og fötin sem hún var í undir. Hann læddist í hárið á henni og hún fann fyrir honum á húðinni. Það næsta sem hún fann var lyktin. Heit, rök og snörp. Hér var eitthvað lifandi og grænt. Og hér var eitthvað dáið líka, að rotna og hefja hringrásina upp á nýtt.
Fyrir framan þær var grænt haf. Það tók augun andartak að greina plönturnar í sundur. Að sjá mismunandi löguð blöð í mismunandi stærðum. Ólík litbrigði af grænum lit, allt frá grænum sem var svo dökkur að hann var nánast blár yfir í svo ljósgrænan að jaðraði við gult. (30-31)
Alma á engin orð til að lýsa tilfinningunni fyrir þessu og á þennan hátt skapar Hildur mjög sannfærandi upplifun einstaklings sem hefur aldrei séð lifandi náttúru áður, ekki af því að Alma hefur aldrei farið út fyrir borgina, heldur af því að þetta lífríki er ekki lengur til.
En lífið er ekki bara vinna og Nornin líkt og Ljónið fjallar um vináttu og ástir. Alma fer út að skemmta sér með bestu vinkonu sinni, Ísabellu, og hittir stelpu sem hún kolfellur fyrir. Hún heitir Indra og er nýkomin til Íslands, en þess má geta að fólksfjöldi eyjunnar hefur margfaldast í kjölfar upplausnar þjóða og landamæra. Samskipti á ólíkum málum eru leyst með þýðingatæki, kuðungi í eyranu (sbr. ‚universal translator‘ græjan í Star Trek eða Babelfiskur Douglas Adams). Þessi tækni, sem og öldrunarmeðferðin, er dæmi um tæknilegt inngrip í mannslíkamann sem er viðurkennt, en svo er líka til bönnuð tækni, erfðabreytingar og annarskonar tæknilegar breytingar á fólki.
Indra er reyndar nokkuð dularfull persóna, en það hefur að gera með skoðanir hennar. Hún hefur alist upp í flóttamannabúðum á meginlandinu og kynnst ýmiskonar harðræði sem gerir hana skeptíska á hið upplýsta einræði Sameinuðu þjóðarinnar. Einnig er hún á móti starfi Kríu við að koma á samgöngum til Mars, en fram kemur að til eru hópar sem segja „að mannkynið [sé] þegar búið að rústa einni plánetu og [hafi] engan rétt á því að rústa annarri“ (135).
Það er því ljóst að þó svo virðist sem mannkynið hafi náð að sameinast að ‚sáttin‘ er ekki eins mikil og Alma heldur. Enda er reynt að sprengja vinnustað ömmu hennar, stuttu eftir að Alma hafði verið þar í heimsókn, og því ljóst að hryðjuverk eru ennþá algeng. Reyndar kemur í ljós að Alma er afar saklaus og grunlaus að mörgu leyti og þó að þessir eiginleikar hennar virðist dálítið ýktir þá þjóna þeir einnig því hlutverki að setja ýmsa þætti verksins í samhengi. Sakleysi hennar er að mörgu leyti táknrænt fyrir sakleysi Íslendinga sem búa við gnægtir meðan stór hluti heimsins er á flótta undan margvíslegum hörmungum. Þetta á jafnt við í dag sem og á þeim tíma sem sagan gerist, en þegar Indra kemur heim til foreldra Ölmu þá finnst henni húsið minna á höll og finnst það sóun að þarna hafi þau búið þrjú. „Alma kyngdi. Hún hafði vitað að það væri stórt bil á milli heimanna sem þær höfðu alist upp í. Hún vissi um bakgrunn Indru, aðstæðurnar sem hún hafði búið við. En upplýsingarnar höfðu bara verið þarna einhvers staðar aftast í höfðinu, ekki endilega í samhengi við neitt annað. Vitneskjan hafði verið abstrakt frekar en raungerð, svo Alma hafði kannski ekki skilið það fyrr en núna. Ef Indru fannst þetta hús vera höll, hverju var hún þá vön?“ (237) Þegar Indra segir Sameinuðu þjóðina misnota vald sitt trúir Alma því heldur ekki, enda er amma hennar fulltrúi þessara yfirvalda. Þetta sakleysi er svo mikilvægur þáttur í því að byggja upp lokasprett verksins þar sem Alma upplifir aðstæður sem lesendur eru löngu búnir að sjá fyrir en koma henni gersamlega á óvart.
Annar og mun fallegri þáttur í sakleysi Ölmu er ást hennar á gróðri og ræktun. Hún er algert náttúrubarn og nýtur þess að vinna í gróðurhúsinu. Tengsl hennar við gróðurinn eru greinileg og allar lýsingarnar á gróðurhúsinu og starfinu þar eru þrungnar ríkri tilfinningu fyrir lífi og ræktun. Þrátt fyrir að plönturnar séu henni algerlega ókunnugar þegar hún byrja að vinna þar – menntunin miðaðist fyrst og fremst við nytjaplöntur – þá er hún fljót að kynnast þeim öllum og sinnir þeim af alúð. „Hún skoðaði sárið á kaffirunna þar sem hún hafði klippt af visna grein vikunni áður. Það var byrjað að gróa. Hún tíndi nokkur bleik, sölnuð blóm af bauhinia variegata og staðnæmdist síðan hjá papaya-trénu“ (68). Starfinu fylgja síðan þau fríðindi að hún fær að njóta ávaxtanna, bókstaflega, því hún fær að borða „alls konar ávexti og krydd sem hún hafði aldrei látið sig dreyma um að hún myndi fá að smakka“ (69). Lyktin skiptir líka máli, og Alma fyllir lungun af angan gróðurhússins og heldur niðri í sér andanum: „Hún naut þess að finna lyktina í nefinu; af vatni, mold og lifandi laufum. Svona hafði allt ilmað í árdaga. Áður en mannkynið þróaðist og allt fór til fjandans“ (70). Og hún reynir að ímynda sér hvernig skógurinn hefði hljómað, af hljóðum hinna ýmsu dýra sem byggðu hann og jafnvel af öðrum hljóðum: „Og hvað fleira? Alma vissi það ekki. Og hún myndi aldrei komast að því. Skógarnir voru horfnir. Dýrin sem bjuggu þar dáin“ (71).
Þessar lýsingar eru áhrifamiklar fyrir það hversu fimlega er farið á milli innblásinna lýsinga á gnægtum náttúrunnar og orsökum þess að hún er ekki lengur til staðar. Með því að miðla umhverfisádeilunni í gegnum náttúrubarnið og garðyrkjufræðinginn Ölmu verður ádeilan aldrei þunglamaleg, en skilaboðin þeim mun skýrari.
Mynd Reykjavíkur hefur líka breyst. Alma býr í Breiðholti og tekur lest í miðbæinn. Kvosin er komin undir vatn:
Sjávarborðið hækkaði hratt og það var löngu farið að flæða yfir eiðið þar sem Lækjargatan hafði verið áður. Húsin sem stóðu í brekkunni fyrir ofan fóru reglulega í kaf í vondum veðrum. […] Lækjartorgið sjálft minnti Ölmu alltaf á lítið stöðuvatn, afmarkað á tvo vegu af háum steinsteyptum, augnstungnum húsum sem höfðu kannski einu sinni verið reisuleg en voru nú svo sorfin af vatni og vindum að þau litu út fyrir að hanga uppi á þrjóskunni einni saman. […] [S]jávarborðið náði langleiðina upp að grunni gamla Menntaskólans, húsinu sem hafði verið flutt upp á Árbæjarsafn þegar gamli varnargarðurinn – sem var byggður fyrst eftir að jöklarnir voru farnir að bráðna svo höfin fóru að rísa – brast. Í kringum sárið á skólalóðinni stóðu önnur gömul hús“ (49).
Og Kría á hús á þessu svæði: „Alma hafði einhvern tímann spurt hana hvers vegna, en amma hennar hafði bara hrist höfuðið og sagt „Hvers vegna ekki?“ eins og það væri einhvers konar svar. Kannski hafði hjallurinn eitthvað tilfinningalegt gildi fyrir hana. Það var eina skýringin sem Ölmu kom í hug“ (49). Hér er vísað á skemmtilegan hátt í Ljónið, annarsvegar er gamli Menntaskólinn skólinn sem Kría gekk í og húsið sem amman á er draugahúsið þar sem hinn dularfulli Davíð sást fyrst – og síðast.
En það er ekki bara Reykjavík sem hefur breyst, Húsavík er orðin lífleg borg, ekki síst vegna þess að þar er miðstöðin fyrir byggingu á samgöngutengingu við Mars. Og það er á Húsavík sem amma Kría býr, en hún gengur reyndar nú undir fullu nafni, Hólmfríður Kristín Hafliðadóttir. Alma og Ísabella heimsækja hana og fá að sjá framkvæmdirnar og síðan býður amman í mat. Á heimili hennar reka stúlkurnar augun í tvær ljósmyndir. Önnur er af ömmusystur Elísabetar vinkonu Kríu, sem hvarf fyrir 158 árum (en hvarf hennar er aðalmálið í Ljóninu) og hin af ömmu Kríu, Gerðu, sem Alma man að hafði líka horfið. Kría segir þær hafa verið bestu vinkonur. „„Bestu vinkonur, sem hurfu með, hvað …“ Ísabella setti í brýnnar, greinilega að reikna í huganum. „Sem hurfu með 79 ára millibili? En skrýtin tilviljun“ (102). Um kvöldið fara þær út að skemmta sér í líflegum miðbæ Húsavíkur og þar hittir Alma Indru aftur og í kjölfarið hefja þær samband.
Það er því af nógu að taka í Norninni, líkt og Ljóninu og ýmsar tengingar hingað og þangað. Eins og áður segir er sagan sjálfstætt framhald, en auðvitað er meira gaman að lesa hana í beinu framhaldi af Ljóninu og rekja sig eftir brauðmolaslóðinni sem Hildur býr til. Þessi nálgun á framhald er líka skemmtilegt stef við hefðbundnar fantasíuseríur, en þar er þráðurinn iðulega tekinn upp á mun beinni hátt. Reyndar er eftirtektarvert að á sama ári kom út önnur framhaldsfantasía sem fer líka óhefðbundna leið, Villueyjar eftir Ragnhildi Hólmgeirsdóttur.
Í umfjöllun minni um Ljónið benti ég á að þrátt fyrir að bókin væri ungmennabók þá væri hún ekki síður ánægjulegur lestur fyrir fullorðna. Það sama á við um Nornina. Það er reyndar eftirtektarvert að í Norninni eru aðalsöguhetjurnar eldri en í Ljóninu, nítján ára, sem gerir bókina að mörgu leyti fullorðinslegri, enda er gengið lengra í lýsingum á ofbeldi og erótík.
Allt þetta leiðir svo að stöðugum umræðum um hvar mörk barna-, unglinga- og ungmennabóka liggja. Og í framhaldi af því, hvar mörkin milli þessara bókmennta unga fólksins og hinna fullorðnu eru. Öll þessi mörk eru oft ansi óljós eins og þeir vita sem lesa bækur úr öllum flokkum, sumar fullorðinsbækur eru ansi barnalegar og margar barnabækur afar djúpvitrar. Kannski framtíðin færi okkur uppstokkun á þessum mörkum líkt og á landamærum og kynhlutverkum? En mikið væri nú gott að af þeirri uppstokkun gæti orðið án þeirra skelfilegu hamfara sem óhjákvæmilegar eru ef við höldum áfram að sigla á fullri ferð að okkar eigin feigðarósi.