Eiríkur Örn Norðdahl hefur verið all áberandi í íslensku leikhúsi í vetur, rétt eins og hann ætli að gera það að sínum vettvangi, enda búinn að prófa að gefa út ljóð og sögur og pólitískar og bókmenntalegar greinar – hann var meira að segja að gefa út bók með plokkfiskuppskriftum. Ekki hefur þó enn verið sýnt leikrit eftir hann í atvinnuleikhúsi en hann kom bæði að textavinnu við Mávinn sem LR sýndi í haust og svo þýddi hann leikritið Um það bil sem enn gengur í Kassa Þjóðleikhússins. Og nú er verið að sýna leikgerð Óskabarna ógæfunnar á rómaðri skáldsögu hans, Illsku, á litla sviði Borgarleikhússins undir stjórn Vignis Rafns Valþórssonar, sýningu sem hefur fengið yfirgnæfandi frábærar viðtökur.
Illska er stór og mikil skáldsaga þar sem Eiríkur Örn notar elsta bragð í heimi – ástarsögu pilts og stúlku – til að teygja okkur inn í dramatískustu atburði síðustu aldar, fyrra og seinna heimsstríð, og benda um leið á merki þess að þeir geti endurtekið sig í okkar samtíma. Þáttur gyðingaofsókna í Jurbarkas í Litháen sem tekur mikið rúm í skáldsögunni verður útundan í leiksýningunni, af þeim heyrum við eingöngu þegar stúlkan Agnes (Sólveig Guðmundsdóttir) segir nýjum kærasta, Ómari (Hannes Óli Ágústsson), frá forfeðrum sínum. Foreldrar hennar flýðu kommúnismann í Litháen til Íslands og þar er hún fædd en hefur lengi hlustað á sögur úr fortíð fjölskyldunnar. Þar ber hæst þann átakanlega atburð þegar annar afi hennar, nasistinn, drap hinn sem var gyðingur, og höfðu þeir þó verið góðir vinir frá barnæsku. Agnes er heltekin af þessari fortíð, nasisma, gyðingaofsóknum og helför, og í vinnu sinni að meistaraprófsritgerð leitar hún uppi nýnasistann Arnór (Sveinn Ólafur Gunnarsson) sem hún heillast af gegn vilja sínum.
Ómar á líka fortíð en hún er persónulegri en Agnesar. Okkur er farið að gruna eftir samræður þeirra Agnesar um fólkið í lífi Ómars að hann burðist með eitthvað slæmt og um síðir kemur í ljós að svo er. Það efni, samskipti Ómars og gömlu vinkonunnar á Selfossi, er raunar fullgilt í sérstakt leikrit en gefur hér fyrst og fremst bakgrunn til að skilja Ómar og hastarleg viðbrögð hans við svikum Agnesar.
Einnig Arnór á dramatíska sögu sem skilar sér ekki nógu vel í sýningunni til að skýra áhugamál hans og afstöðu – enda getur kannski ekkert endanlega „skýrt“ hana. Saga þeirra þriggja verður þó ljós og ekki síst vel unnið úr tvöföldum endi skáldsögunnar. Ég játa að á örlagastundu undir lokin greip ég heljartaki í sessunaut minn og hef sennilega æpt líka.
Ég held að Eiríkur Örn vilji í verki sínu benda á hvernig hvert og eitt okkar er stór saga sem stækkar og stækkar þegar lengra aftur er litið og það finnst mér koma vel fram í sýningunni þó að hún virki stundum eins og flausturslegt efnisyfirlit skáldsögunnar. Leikararnir þrír voru vel valdir í hlutverkin og bjuggu til skýrar persónur. Sólveig túlkaði af hita ástríður Agnesar og innri funa, hún þráir eitthvað sem hún veit ekki hvað er en þráin er ómótstæðilega sterk. Ómar Hannesar var brotinn og aumur en líka ástríkur og brjóstumkennanlegur. Sveinn Ólafur var í tveim hlutverkum; hann var áhrifamikill í hlutverki Arnórs með alla sína kæki og myrka og truflaða innri mann en stórkarlalega glettinn sem „höfundur verksins“ og tengiliður við salinn. Auk þeirra þriggja tóku þátt í sýningunni sjö meðlimir Ungliðahreyfingar ógæfunnar, frísk og fjörug ungmenni sem dönsuðu af miklum þokka og léku látbragðsleik þegar fyllingar var þörf á sviðinu. Danshöfundur var Brogan Davison.
Það má hafa ýmsar meiningar um sviðið hennar Brynju Björnsdóttur og notkun leikstjóra á íslenska fánanum sem gekk svolítið út í öfgar (kannski markvissar öfgar) og nasistatáknum. En rauðu blóðdreglarnir voru afar vel nýttir og eftirminnilega og myndir sem varpað var á tröppurnar voru margar litríkar og fallegar og stundum alveg heillandi. Háu og breiðu tröppurnar sem leikið var á voru ansi erfiðar en um leið gerðu þær leikinn fjölbreytilegri – það gat orðið skemmtilega táknrænt bara að færa sig upp eða niður um tröppu í samskiptum. Alveg var snilldarlegt atriðið þegar Sólveig byrjar nýólétt neðst og verður æ óléttari eftir því sem hún fikrar sig ofar uns hún fæðir efst. En í ljósi nýlegra atburða í Þjóðleikhúsinu vona ég að leikararnir í Illsku fari mjög varlega, einkum þó Sólveig á hælaháu skónum sínum. Búningar Guðmundar Jörundssonar voru yfirleitt flottir og við hæfi og hljóðmynd Garðars Borgþórssonar var oft óvænt og sniðug.
Þetta er auðug sýning að óteljandi smáatriðum sem bæði eru sótt í söguna og fréttir dagsins – manni dettur í hug að hún sé í sífelldri endurnýjun og það væri sannarlega í takt við höfund sögunnar. Hún á líka erindi við okkur og það er mikið gleðiefni hvað hún gengur vel.