Bjarni Snæbjörnsson er holdgervingur lífsgleði svona til að sjá, glæsilegur maður, fríður sýnum með sérstaklega fallegt bros sem hann er óspar á. Það kemur eflaust mörgum vinum hans og öðrum samferðamönnum á óvart hvað hann segir í rauninni átakanlega sögu í söngleiknum um ævi sína, Góðan daginn, faggi, sem nú er sýndur í Þjóðleikhúskjallaranum. En hann segir hana vissulega á aðlaðandi hátt, skemmtigildið er mikið enda sniðugir söngtextar og dillandi fjörug tónlist snar þáttur í sýningunni og Bjarni ágætur söngvari, sérstaklega lærður í söngleikjasöng. Tónskáldið sjálft, Axel Ingi Árnason, spilar undir á sviðinu og tekur undir með Bjarna þegar mikið liggur við. Utan um allt saman heldur Gréta Kristín Ómarsdóttir leikstjóri og meðhöfundur með Bjarna.
Bjarni byggir „heimildasöngleik“ sinn á myndarlegum bunka af dagbókum sem hann hefur haldið frá unga aldri og bréfum sem hann skrifaði móður sinni og vinkonu þegar hann var erlendis. Bútarnir úr þessum skrifum sýna að Bjarni er óvenju vel ritfær strax á unglingsaldri. Hann er ekki gamall þegar honum er sagt í fyrsta skipti að hann sé hommi en hann vill ekki trúa því. Það samræmdist ekki hugmynd hans um framtíðina. Smám saman rennur þetta þó upp fyrir honum og loks kemur að því að hann verður að segja foreldrum sínum frá. Það gerir hann bréflega og bréfið það gekk manni rakleiðis að hjartastað, ótrúlega vel hugsað og orðað, enda hafði það – að minnsta kosti smám saman – tilætluð áhrif.
En þó að allir aðrir samþykki kynhneigð Bjarna í þeirri „hinsegin paradís“ sem Ísland er í frásögn hans, þá gengur honum það verr sjálfum. Þessa skrítnu þversögn túlkar hann í upplestri, leiknum texta og söng sem hann fléttar saman á hugmyndaríkan og heillandi hátt. Mörg lögin væri gaman að fá að heyra aftur – til dæmis „Mikið væri það næs“ og „Það var eins og tíminn stæði í stað“ eða sönginn um klisjurnar, „Ég er þannig hommi – eins og þú vilt að ég sé“. Einu sinni fengu áhorfendur meira að segja að læra viðlagið og taka undir, það var í söngnum „Komdu út – við erum öll að bíða eftir þér“.
Þegar ég var að vinna á Laugavegi 18 fyrir nærri 40 árum var einu sinni málað stórum stöfum á húsgaflinn: „Silja er hommavinur“! Mér fannst þá og finnst þetta enn mikið hrós þó að það hafi kannski ekki verið hugsað þannig. Við hommavinirnir verðum skotspónn Bjarna í sýningunni, það var soldið óvænt og skondið! (Ekkert má maður!) Það er þó með mikilli ánægju sem ég hvet alla áhugamenn um leikhús og söngleiki til að sjá þessa sýningu.
Silja Aðalsteinsdóttir