Birgitta Elín Hassell og Marta Hlín Magnadóttur. Endalokin: Útverðirnir og Gjörningaveður.

Bókabeitan, 2016 og 2017.

Úr Tímariti Máls og menningar 3. hefti 2018

Endalokin 2: GjörningaveðurÁrið 2011 hóf göngu sína athyglisverður íslenskur bókaflokkur sem ber nafnið Rökkurhæðir. Höfundar eru tveir, Birgitta Elín Hassell og Marta Hlín Magnadóttir og bækurnar eru nú orðnar níu. Fyrstu bækurnar tvær voru Rústirnar og Óttulundur. Föstudaginn 13. apríl árið 2012 var þriðja bókin gefin út, Kristófer og sú fjórða Ófriður, kom út seinna sama ár. Síðan hafa þær birst árlega, Gjöfin, Vökumaðurinn, Atburðurinn, Endalokin: Útverðirnir og loks Endalokin 2: Gjörningaveður. Titlarnir (og tiltekin útgáfudagsetning) ættu að gefa góðar vísbendingar um hvers eðlis verkin eru, en þetta eru hrollvekjur, ætlaðar unglingum. Hryllingurinn er hæfilega blandaður fantasíu, en höfundarnir hafa búið til heilan heim, sem þó er ekki hreinræktaður ævintýraheimur, heldur frekar einskonar hliðarveruleiki, staðsettur innan hins íslenska.

Bókaflokkurinn er nefndur eftir hverfinu Rökkurhæðir, sem var einu sinni þorp en er nú úthverfi í borginni Sunnuvík. Í hverfinu er dálítið undarleg stemning, því á hæðum yfir því eru rústir háhýsa sem eiga sér einhverja dularfulla sögu, en í inngangi hverrar bókar er henni lýst svo: Efst á Hæðinni eru Rústirnar. Áður var þetta nýjasti angi hverfisins þar sem stóðu vegleg blokkarlengja og vísir að stórum einbýlishúsum með útsýni yfir hverfið og fjörðinn. Í dag eru þarna rústir einar sem náttúran keppist við að ná aftur í faðm sinn.

Stundum hvíslar fullorðna fólkið sín á milli um það sem á að hafa gerst þar – yfirnáttúrulegir atburðir segja sumir, hryðjuverk segja aðrir – en enginn veit það með vissu.

Að minnsta kosti ekki krakkarnir.

Krakkarnir í hverfinu vita semsagt lítið um þá sögu því þeir fullorðnu vilja sem minnst um þetta tala og banna krökkunum að vera þar. Þrátt fyrir að vera úthverfi borgar virðast Rökkurhæðir vera nokkuð einangraður staður með sína sérstöku siði og menningu, sem meðal annars felst í frekar myrkum staðarnöfnum: Óttulundur er til dæmis götunafn. Enda segir í fyrrnefndum inngangi : „Það er ýmislegt á seyði í Rökkurhæðum. Sumt harla ótrúlegt. Sumt heldur óhugnanlegt. Sumt hræðilegt …“

Heimasköpun af þessu tagi er þekkt innan hrollvekjunnar þar sem höfundar skapa ógnvænlegum atburðum sínum viðeigandi umgjörð. Þekktasta dæmið er líklega Arkham borg sem bandaríski höfundurinn H. P. Lovecraft skrifaði um á sínum tíma (fyrri hluta tuttugustu aldar), en þar er margt óhreint á kreiki. Lovecraft var sjálfur undir miklum áhrifum frá síð-gotneska skáldinu Edgar Allan Poe, en saman lögðu þessir tveir höfundar grunninn að nútímahrollvekjunni, eins og þau Stephen King og Anne Rice eru þekktustu dæmin um. Þó áhrifa Poe gæti víða er það Lovecraft sem hefur verið meira áberandi á síðari árum, en hann er þekktur fyrir að fjalla um hugmyndina um aðrar víddir eða hliðarheima og óvættir sem búa þar. Þessar óvættir eru af ýmsum toga, fyrst og fremst geimverskar, en hafa hinsvegar aðlagast jarðlífi nokkuð vel og blandast bæði mönnum og dýrum, og að sjálfsögðu: heimatilbúnum forynjum. Hér gefst ekki tækifæri til að fara nánar út í flókna heimasköpun Lovecrafts, eins gaman og það nú væri, en í staðinn er ástæða til að nefna að óvættir hans eru iðulega iðandi, óskilgreinarlegar og jafnvel óskiljanlegar. Þetta kemur ekki síst til af þeirri hugmyndafræði Lovecraft að forðast að lýsa skrímslum sínum nákvæmlega og nota frekar (að hætti Poe) þá aðferð að gefa eitthvað í skyn, ýja að; allt til að skapa þá tilfinningu að lesandinn sjái eitthvað skjótast framhjá rétt utan sjónsviðsins, en nái aldrei að fá fullmótaða mynd af fyrirbærinu. Þeir sem það gera missa vitið – þar kemur óskiljanleikinn inn.

Nú skal ekki sagt hvort Birgitta og Marta hafa lagst í verk Lovecrafts, enda skiptir það engu máli, heimsmynd hans er löngu orðin viðtekinn hluti af hrollvekjulandslaginu og það er þangað sem þær sækja efnivið í þessa vel heppnuðu og stórskemmtilegu seríu.

Þrátt fyrir þessi ‚erlendu‘ áhrif eru sögurnar allar vandlega staðsettar í íslenskum nútímaveruleika, fyrsta bókin er til dæmis tilbrigði við söguna af Gilitrutt og bæði Óttulundur og Vökumaðurinn eru draugasögur að alíslenskum hætti. Þessi þekktu þjóðsagnastef eru svo tengd nútímanum á snjallan hátt, þar sem bæði áhugamál unglinga eins og parkour íþrótt, tækni (ný fartölva) koma við sögu. Ekki má gleyma rómantíkinni og skólastarfinu, en hvorttveggja er stór hluti tilveru þessa aldurshóps. Samhliða þessu er gefin innsýn í ólík heimili og aðstæður krakkanna, sum eru hluti af ‚fullkomnum‘ kjarnafjölskyldum, önnur þurfa að takast á við ýmiskonar erfiðleika heimavið. Þannig myndast breið samfélagsmynd. Að auki vísa höfundarnir á ýmsan hátt til unglingamenningar og áhugamála unglinga, tungumálið er hæfilega skotið slettum en aldrei tilgerðarlegt eða þvingað. Þetta kemur vel fram í Endaloka-bókunum þar sem heilmikið er um samskipti á netspjalli. Sem dæmi má nefna samtal Kristófers og Ragnars Orra um sameiginlega vinkonu, en sá fyrrnefndi er mikill töffari og finnst vinurinn stundum dálítið forn í máli:

ROrri: Hún var alveg ferlega leið á leiðinni heim. Held að þetta fái meira á hana en hún lætur uppi
Kristó: Skil (held ég, gamlinginn þinn)
ROrri: Ef við segjum þá fær hún bara óþarfa áhyggjur og kannski út af engu
Kristó: ókei sammála
Kristó: heyrðu. Þarf að sofa. sjáumst á morgun. Tékkum kannski á Runólfi þarna í skóginum. Kannski fæst einhver skýring hjá honum
ROrri: Ef ég þori …
Kristó: Kallinn passar litla sinn :p
ROrri: Oohh I feel so safe already!
Kristó: GN mín kæra <3
ROrri: gn my hero
(Útverðirnir 188)

Stíllinn er liðugur og léttur og þess utan eru sögurnar vel upp byggðar og nokkuð grimmar – hér er ekki verið að vatna hryllinginn út. Þó er líka nóg af húmor í bland við óhugnaðinn sem er sérlega vel gerður, alveg mátuleg blanda af undirtónum og beinum lýsingum.

Fyrstu bækurnar sjö eru allar sjálfstæðar og þar er smátt og smátt byggð upp óhugnanleg stemning þar sem lesandi kynnist ýmsu af því ótrúlega og hræðilega sem er „á seyði í Rökkurhæðum“. Síðustu tvær bækurnar má líka lesa án þess að hafa lesið hinar sjö, utan að sú síðasta, Gjörningaveður, er beint framhald Útvarðanna, og þessar tvær verður því að lesa saman. Hver bók gefur lesanda tækifæri til að kynnast þessu hverfi betur og betur og átta sig á umfangi þess og þá sérstaklega áhrifunum sem hinar dularfullu rústir á hæðinni hafa á hverfið og íbúa þess. Sögupersónurnar tengjast líka innbyrðis, enda eru þær allar í sama skóla og þannig er vísað til atburða annarra bóka, án þess þó að gefa of mikið upp. Einnig koma við sögu krakkar sem flytja ný í hverfið og þannig er það með Hallgerði, aðalsöguhetju Endaloka-bókanna. Hún flytur í hverfið í kjölfar þess að móðir hennar flytur þangað, en reyndar eiga þær rætur að rekja til Rökkurhæða, því amma Hallgerðar býr þar og í ljós kemur að hún bjó í blokkinni á Hæðinni þegar Atburðurinn varð. Atburðinum sjálfum er lýst í sjöundu bókinni, en hún tengist beint dramatískum lokum fyrstu bókarinnar og þannig spinnst vefurinn milli bókanna innan flokksins.

Mamma Hallgerðar er blaðakona og það er Hallgerði eðlilegt að safna upplýsingum og setja þær saman. Það er því hún sem kemur auga á tengslin á milli ýmissa þeirra óhugnanlegu atvika sem hún heyrir óljósar sögur af og í framhaldi er það hún sem dregur ályktanir um tengsl þar á milli og vekur máls á því að eitthvað sé rotið í Rökkurhæðum. „Hallgerður sat á rúminu og fletti annars hugar í gegnum Skoska fílinn á meðan hún reyndi að grípa einhverjar af hugsununum sem þeyttumst um í heilanum eins og egg í hrærivél“ (Útverðirnir 156). Svo ákveður hún að hafa samband við Ragnar Orra:

Evudóttir: Hæ. Ertu vakandi?
ROrri: Nei, eða, jú núna
Evudóttir: Sorrí, þarf svo að tala við einhvern. Þetta var algjörlega kreisí kvöld.
ROrri: Þessi dagur bara, hefði getað verið beint úr Doctor Who!
[…]
Evudóttir: Ókei. Reyni að koma þessu
almennilega frá mér
ROrri: OK np

Hallgerður pikkaði inn allt sem hún hafði komist að undanfarna daga. Byrjaði á samtalinu við stelpurnar á Kökusneiðinni og svo því sem hafði gerst með Pétri Kristni. Svo bætti hún við ályktunum sínum um að „Sögufélagið“ hlyti í raun að vera stórvarasamur söfnuður, jafnvel sértrúarsöfnuður, kannski djöfladýrkendur, allavega væri fátt annað sem kæmi upp í hugann í tengslum við að „fórna“ fólki og kveikja í krökkum. Þegar hún var búin að pikka inn alla romsuna og ýta á send las hún færsluna samhliða Ragnari, að hún hélt.

Svo beið hún.

Ragnar svaraði engu en var greinilega búinn að sjá skilaboðin. Fari það í röndóttan rækall hugsaði hún pirruð meðan hún starði einbeitt á skjáinn og reyndi að töfra eitthvað út úr honum. Bara eitthvað. Plís!
(Útverðirnir, 157–159)

Ragnar Orri er lengi vel ekki sannfærður, enda er einn af leyndardómum Rökkurhæða sá að óvættirnar búa yfir þeim hæfileika að valda óminni hjá þeim sem verða vitni að einhverju yfirnáttúrulegu. En þegar Hallgerður fer aftur yfir málin í skíðaskálanum neyðist hann til að viðurkenna að eitthvað dularfullt er í gangi:

Myndir, minningar og spurningar hringsnerust í höfðinu á Ragnari Orra. Hafði þetta virkilega allt gerst hjá vinum hans og bekkjarfélögum og enginn tengt það fyrr en núna? Hallgerður hafði svo sem áður viðrað við hann þessar pælingar með Nonna en það var í netspjalli; þegar hún sagði þetta svona upphátt hljómaði það eitthvað svo – svo alvöru! Var Hallgerður kannski ímyndunarveik? Kannski geðveik eins og mamma hennar? Hann bældi þessa hugsun næstum áður en hún náði að formast.
(Gjörningaveður 39)

Auðvitað kemur í ljós að það eru fleiri sem búa yfir vitneskju um söguna, en þar koma Útverðirnir inn, hópur fólks sem hefur tekið að sér það hlutverk að vernda hverfið og reyna að berjast gegn óvættunum. Til tíðinda dregur í Gjörningaveðri þegar níundu og tíundu bekkingar fara í skíðaferð upp í fjall og þar skellur á sannkallað gjörningaveður. Þar eru úrslitin svo ráðin þegar unglingahópurinn sem hefur verið kynntur til sögunnar í fyrri bókum tekur höndum saman gegn óvættunum.

Íslenskar hrollvekjur hafa ekki verið fyrirferðarmiklar í íslenskum bókmenntum, en á undanförnum árum hafa nokkrar skotist út úr myrkrinu. Þar ber helst að nefna glæpasögur Yrsu Sigurðardóttur sem er oft á mörkum hrollvekjunnar í glæpasögum sínum og margar bækur Stefáns Mána eru sömuleiðis á mörkum spennusögu og hrollvekju, iðulega nær þeirri síðarnefndu. Ekki má heldur gleyma Börnunum í Húmdölum eftir Jökul Valsson, sem kom út árið 2004. Þó að sú bók hafi verið ætluð eldri lesendum þá er margt sem minnir skemmtilega á Rökkurhæðir, en Húmdalir Jökuls eru sömuleiðis einskonar sérheimur, uppspunninn, en samt skyldur okkar veruleika, og börn eru einnig í aðalhlutverkum.

Það er reyndar þekkt bragð hrollvekjunnar að nota börn og unglinga sem aðalsöguhetjur, enda má segja að þau standi að ýmsu leyti á margvíslegum mörkum sjálf, til dæmis mörkum þess að stíga inn í heim fullorðinna með tilheyrandi bælingu hins ævintýralega og óútskýranlega. Sömuleiðis höfða hrollvekjur sérlega vel til barna og unglinga, svo vel reyndar að um mikilvægi hrollvekjunnar fyrir þroska unglinga hafa verið smíðaðar dásamlega skemmtilegar freudískar kenningar um líkamlegar breytingar og samsömun við skrímsli.

Rökkurhæðabækurnar eru afar ánægjuleg viðbót í flóru íslenska barna- og unglingabóka og reyndar inn í íslenskt bókmenntalandslag almennt. Bækurnar eru allar stuttar og settar upp á aðgengilegan hátt, með stóru letri og línubili sem gera þær hentugar jafnt lestrarhestum sem þeim sem ekki hafa ánetjast bókmenntum og í heildina séð er frágangur, útlit og umgjörð öll til fyrirmyndar. Í heimi þar sem bóklestur ungmenna, eða réttara sagt skortur á honum, er stöðugt til umræðu og veldur linnulausum áhyggjum eru þessar bækur fullkomið innlegg, því auk þess að vera lestrarhvetjandi í sjálfu sér opna þær fyrir umræðu um lestur og það að afla sér þekkingar. Sú sem þetta skrifar hefði tekið Rökkurhæðunum sem himnasendingu og miðað við vinsældir seríunnar á bókasöfnum eru nútímalesendur á sama máli. Að auki hafa höfundarnir verið framarlega í rafbókaútgáfu og allar bækurnar eru fáanlegar sem rafbækur, sem ætti enn að auka á aðgengileika þeirra fyrir unga lesendur.

Úlfhildur Dagsdóttir