Myndin á plakati leikritsins Munaðarlaus sem var frumsýnt í Norræna húsinu í gær (8.1.10) virðist við fyrstu sýn alveg út í hött, en hún öðlast mikinn merkingarauka þegar maður er búinn að sjá sýninguna. Á myndinni eru tvö lítil systkini, dálítið stærri stelpa, alvarleg og ábyrg á svip, og skælbrosandi yngri bróðir. Þau eru í náttfötum, og á bak við þau er jólatré. Það er greinilegt að hún heldur verndarhendi yfir honum.
Í leikritinu eru systkinin Helena (Tinna Lind Gunnarsdóttir) og Ívar (Hannes Óli Ágústsson) sem urðu ung munaðarlaus og hún hefur alla tíð borið ábyrgð á honum. Nú er hún gift Danna (Stefán Benedikt Vilhelmsson), vel stæðum ungum manni, á með honum Sindra fimm ára og býr í fallegri íbúð en að vísu í afleitu hverfi í stórborg. Þau eru að njóta kósí kvölds tvö ein heima (Sindri er hjá föðurömmunni) þegar Ívar birtist á gólfinu, alblóðugur. Hann hafði gengið fram á strák liggjandi í blóði sínu á götunni og reynt að hlúa að honum. Ekki gat hann hringt á hjálp af því síminn hans var dauður, en hann hristi strákinn til með þeim árangri að hann stóð upp og hljóp burt.
Hjónin bregðast ólíkt við þessum tíðindum. Danna finnst eðlilegt að hringja í lögregluna og tilkynna um særðan ungling á ráfi um hverfið. Helena er hrædd um að lögreglan trúi ekki á sakleysi Ívars og vill láta kyrrt liggja. Reyndar vill hún meira en það, hún vill að þau komi sér saman um fjarvistarsönnun handa Ívari ef lögreglan skyldi berja upp á. Danni er tregur, finnst vera munur á að þegja og ljúga.
Þetta er upphaf samræðna, rökræðna, deilna, eintala og uppgjörs sem ekki má segja nánar frá til að spilla ekki upplifun áhorfenda. Og ég get lofað ykkur því að þetta er upplifun. Verkið er markvisst í byggingu, gengur sífellt nær og nær persónunum, skapar þær á hæð, dýpt og breidd og afhjúpar þær hverja af annarri. Ennþá athyglisverðara er að þetta verk gefur orðasambandinu “vel skrifað” nýja merkingu. Hér er ekki talað í vel mótuðum djúphugulum setningum heldur sundurklipptum og óheilum. Iðulega tala persónur hver ofan í aðra – eins og við gerum við eldhúsborðið heima. Þetta verður eðlilegt og sannfærandi, og þegar við bætist æ átakanlegri atburðarás verður útkoman afar áhrifamikil.
Orðræða verksins sýnir ólíkan talsmáta fólks með ólíkan bakgrunn og gáfnafar. Augljós stéttamunur er á hjónunum þó að eflaust séu þau jafnokar að öðru leyti. Helena talar í upphrópunum, stökum orðum, skipunum og fokkar mikið. Þetta er stúlka sem er vön að hafa sitt fram með orkunni og tal hennar er oft nánast eins og merkjamál sem karlmennirnir skilja, og raunar eigum við heldur ekki í neinum vandræðum með að botna setningarnar hennar. Danni er röklegri í tali, hefur meiri orðaforða, sýnir menntamannstakta og vel upp alinn ungan mann en þarf ekki heldur að klára setningarnar. Ívar talar aftur á móti í heilum setningum en þær eru annað hvort utanbókarlærðar eða klisjur, stíll hans er klifun orðasambanda sem hann hefur tileinkað sér, og hann kann líka að skipta snöggt um umræðuefni þegar hitnar undir honum.
Ungu leikararnir þrír fóru rosalega vel með þetta erfiða verkefni í þröngu nábýli við áhorfendur sína í fyrirlestrarsal Norræna hússins. Stefán Benedikt bjó til sannfærandi gæfumann í alvarlegri klemmu. Hannes Óli túlkaði óhugnanlega vel skilnaðinn sem verður milli orða Ívars og athafna. Fremst meðal jafningja var Tinna Lind sem fór glannalega vel með persónu Helenu, orð hennar og æði. Unga hamingjusama konan fær smám saman margar hliðar og langa sögu, ekki alltaf fallega.
Dennis Kelly er spennandi höfundur, og hann hefur verið heppinn á Íslandi að fá Vigni Rafn Valþórsson sem þýðanda sinn. Textinn rann ótrúlega vel í sínum rykkjum og stakkató. Tónlist Gunnars Karels Mássonar lætur lítið yfir sér lengi vel en á sinn stóra þátt í heildaráhrifum þegar líður á sýninguna. Leikmynd Ríkharðs Hjartar Magnússonar er þröng og hrá en virkar vel. Þýðandinn Vignir Rafn leikstýrir sýningunni líka og fær rósir í öll sín hnappagöt.
Eiginlega er það – svona eftir á að hyggja – alveg makalaust að maður skuli fara í leikhús sem ekki er leikhús til að sjá verk eftir mann sem maður hefur aldrei heyrt talað um, leikið af nýúskrifuðum leikurum og stýrt af óreyndum leikstjóra og koma út svo skekinn að sólarhring síðar er maður langt frá því samur. Sýningar verða örfáar. Ég lofa ykkur mögnuðu kvöldi, ekki missa af því.