Alltaf reynir maður eitthvað nýtt. Í gærkvöldi prikuðum við upp á þriðju hæð í Borgarleikhúsinu til að sjá þar sýninguna Aftur á bak frá Stokkhólmi, samvinnuverkefni leikhópsins Osynliga Teatern og Dramaten. Á þriðju hæðinni var tekið á móti okkur, þung sýndarveruleikagleraugu sett á höfuð okkar og heyrnartól þar yfir og síðan vorum við leidd blindandi inn í annað herbergi, tvö og tvö í einu, svo að þetta tók heillangan tíma. Fremur óþægileg lífsreynsla en ótvírætt hluti af upplifun sýningarinnar.
Fyrir tilstilli gleraugnanna urðum við að flóttamanni sem hugguleg stúlka hjá útlendingastofnun yfirheyrir. Hnýsni hennar á sér lítil takmörk en framkoman er vélræn fremur en óvinsamleg. Milli þátta í yfirheyrslunni erum við úti á sjó og hlustum á frásagnir fólks sem hefur flúið land sitt í leit að öryggi annars staðar. Allur texti er á ensku.
Seinni hluti sýningarinnar var gleraugnalaus. Þá hlýddum við á lifandi mann segja frá sinni sérstöku reynslu af því að flýja Sýrland og leita skjóls í Svíþjóð eftir langa hrakninga um heiminn. Marwan Arkawi, 24 ára gamall Sýrlendingur, sagði okkur frá uppvexti sínum í fallegu hafnarborginni Banlyas og fjölskyldu sinni. Hann sagði frá bestu vinum sínum heima í Sýrlandi og framtíðardraumum þeirra, en hann nefndi ekki sína eigin drauma, til dæmis hvort hann hefði langað til að vera leikari eða væri menntaður sem slíkur. Líklega hefur Osynliga Teatern valið hann í sýninguna sína vegna þess að hann talar lýtalausa ameríska ensku sem hann sagðist hafa lært af föður sínum og amerísku tónlistinni sem þeir feðgar hlustuðu á. Svo reyndi hann að lýsa stríðinu, hinni hrikalegu eyðileggingu sem við höfum horft á í fréttamyndum undanfarin þrjú–fjögur ár.
Frásögn hans af lífinu fram að flótta og fjölskyldunni heima var hversdagsleg og elskuleg en í lýsingunni á flóttanum sjálfum hefði hann getað verið nákvæmari. Hann nefndi til dæmis ekkert um fjármál nema hvað hann sagðist einu sinni hafa lifað á kranavatni í nokkra daga. Á hverju lifði hann annars? Fjölskylda hans var eftir í Banlyas, hvað rak hann einan af stað? Hann klifaði bara á því að hann hefði ekki átt annarra kosta völ þótt viðskilnaðurinn við fjölskylduna hefði verið sársaukafullur. Leiðin sem hann fór til Svíþjóðar var óljós, um hvaða lönd hann fór, en tilfinningin fyrir þjáningum hans var sterk. Kannski er honum um megn að rifja þær upp í smáatriðum. Í lok sýningar kallaði hann áhorfendahópinn inn í hring til sín og bauð okkur upp á ketilkaffi og sætan drykk eins og við værum gestir á heimili hans í Sýrlandi. Þannig komumst við sífellt nær honum, stig af stigi, fyrst í sýndarheimi, síðan sem áhorfendur að sviðsverki og loks með snertingu; það var býsna vel hugsað.
Marwan Arkawi bíður enn eftir varanlegu landvistarleyfi í Svíþjóð en nú ætlar Dramaten að endurfrumsýna þetta verk í næsta mánuði með honum enn sem flytjanda þannig að líklega fær hann dvalarleyfi. Hann er alla vega með vinnu næstu mánuði.