Eva Rún Snorradóttir: Eldri konur
Benedikt 2024.
Úr Tímariti Máls og menningar, 2. hefti 2025:
2025 er kvennaár. Um fjörutíu samtök femínista, kvenna, launafólks, hinsegin fólks og fatlaðs fólks hafa lýst yfir samstöðu um baráttu gegn kynjuðu misrétti og ofbeldi. Eldri konur eftir Evu Rún Snorradóttur kom út í lok árs 2024 og naut strax mikillar hylli lesenda. Í aðdraganda síðastliðinna alþingiskosninga setti Svandís Svavarsdóttir bókina í samhengi við baráttu kvenna og kvára, og vísaði í orð höfundar þegar hún kallaði eftir „kellingabyltingu“, þar sem þáttur „kellinga“ í breiðum skilningi orðsins fengi aukið vægi í samfélaginu. Þá hafa margar fjallað um Eldri konur á opinberum vettvangi og þannig opnað fyrir lesendum vísanir og dýpt sem stækkar þá samfélagsgreiningu sem má finna í bókinni.
Djúp og breið
Eva Rún Snorradóttir er ötult skáld og fær í hvaða formi sem hún tekur sér fyrir hendur. Áður hefur hún gefið út bækurnar, Heimsendir fylgir þér alla ævi (2013), Fræ sem frjóvga myrkrið (2019), prósaverkið Óskilamunir (2021) auk fjölda leikverka með sviðslistahópnum Kviss, Búmm, Bang, 16 Elskendum og fleira listafólki. Í verkum hennar má finna nákvæma rannsóknarvinnu á íslensku samfélagi, „eðlileika“ og möguleika ólíkra listforma til að vinna úr áföllum, sársauka, þöggun og/eða hræsni. Sviðslistaverkið Góða ferð inn í gömul sár er áhrifamikið dæmi um slíka vinnu, en það er byggt á sögulegum- og samtímaheimildum um HIV faraldurinn og hið óuppgerða stofnanalega ofbeldi sem íslenskt samfélag hefur beitt hinsegin fólk. Þá stóð Eva Rún einnig fyrir bókmenntahátíðinni Queer Situations í ágúst 2024 en hluti af dagskrá hátíðarinnar birtist lesendum í síðasta Tímariti Máls og menningar.
Eldri konur er fyrstu persónu frásögn sögukonu og gerist á nokkrum tímaskeiðum sem spanna barnæsku hennar og upplifanir fram á fullorðins ár. Frásögnin minnir á játningar eða endurminningar, þar sem sú sem talar ræðir sögu sína út frá ákveðnum væntingum lesandans. Strax í upphafi er lesandinn kallaður til vitnis um hvað hafi gerst í lífi persónunnar, okkur er ætlað að hlusta og mögulega að skilja. Sögukonan ávarpar þá vöntun sem einkennir líf hennar, hún er „rótlaus og vannærð“ og segir frá því að í fyrstu hafi áfengi veitt henni tímabundna rótfestu en fljótt voru það „eldri konur“ sem tóku við, með tilheyrandi „krafti, lífi […] fráhvörfum og þráhyggju.“
Eldri konur er kynnt sem fyrsta skáldsaga Evu Rúnar, en líkt og Ásta Kristín Benediktsdóttir bendir á í ritdómi sínum „Konur elska konur“, mega lesendur hafa í huga að verk Evu Rúnar hafa alltaf brotið upp hefðbundnar greinaflokkanir. Titillinn hefur breiða skírskotun, kallast á við stofnanalegt orðfæri, jafnvel talsmáta félagsvísinda sem rannsakar þegna út frá mótuðum forsendum um hvað viðföng hópsins eiga sameiginlegt en í samhengi bókmennta minnir titillinn, eldri konur á öflugasta þjóðfélagshópinn þegar kemur að lestri og þáttöku í menningarlífi, hinar svokölluðu „kulturtanter“ eins og það útleggst á sænsku. Frásögninni er skipt í þrjá hluta og inn í hverjum hluta eru kaflar sem eru merktir tímaskeiði og heiti þeirrar eldri konu sem einkenna þrá sögukonunnar á hverju skeiði, til að mynda, „Rannveig“, „Gunný/Silvía“, eða „Ewa“. Eldri konur ber svip fyrri verka Evu Rúnar þar sem heimur kvenna er rannsakaður með því að leggja allt á borðið; líkamleiki, vessar, dauðinn, nákvæmar stéttavísanir, forréttindablinda. Orðfæri hvers kvennahóps er einstakt og aðgengilegt þeim sem það skilja. Á milli kaflanna birtast brot úr samtíma eða öðrum tímabilum í lífi hennar sem brjóta upp flæðið og mynda andrými þar sem aðalpersónan talar beint út frá dýptinni, lýsir upplifun sinni af heiminum, „tilfinningar eru litlir vírusar sem ég ver mig fyrir […] Ég kemst ekki undan, það er ekkert öruggt rými.“ (63)
Ásamt hugmyndum sögukonunnar má finna innskot með vísunum í aðra þekkingarsmiði eins og hugmyndir sálgreinandans Carol Leader, um úrvinnslu á áföllum og hvernig listsköpun sé lykilþáttur í slíku ferli:
Carol […] vill meina að í vinnu með óuppgerð áföll, leyndarmál og óþægindi komi gjarnan fram í ferlinu kringumstæður þar sem skjólstæðingurinn dettur inn í visst ástand […] það er þá sem hið annarlega, undarlega birtist […]. Hið annarlega, undarlega magnast ef það fær að hlaðast upp innra með okkur og tekur stjórnina. Orð eru fánýt í þessari meðferðarvinnu. Það þarf skapandi leiðir. (38)
Þessi vísun í Leader gefa lesandanum hugmynd um leit sögukonunnar í verkinu en einnig hvert hlutverk lesenda í þessu ferli gæti verið. Okkur er ætlað að verða vitni að leið hennar til að horfast í augu við það sem hefur fengið að hlaðast upp. Að bjóða henni og okkur sjálfum upp á rými þar sem við neyðumst til að hætta að flýja og getum farið að „finna til, finna sársaukann.“ (154)
Framsetning og hráleiki
Í Eldri konum vinnur Eva Rún áfram á mörkum ljóðlistar, leikgerðar og prósa, og vefur inn í textann vísunum í íslenska hversdagsmenningu og fræðilega texta, enda hafa gagnrýnendur bent á hinar ýmsu tengingar við áhrifamikil verk í bókmenntasögunni. Ólína Þorvarðardóttir nefndi tengsl bókarinnar við smásögur Ástu Sigurðardóttur og þá sérstaklega „Frá sunnudagskvöldi til mánudagsmorguns“, og Ásta Kristín Benediktsdóttir dýpkaði þann lestur með því að benda á hvernig jaðarsetning aðalpersónanna í verkum Evu Rúnar og Ástu Sigurðardóttur væri hinsegin á svo marga vegu, en ekki síst hve fjarlægar persónur þeirra eru ríkjandi millistétt „sem býr til normin“. Normin og eðlileikinn er því rannsóknarefni í Eldri konum líkt og í fyrri verkum Evu, hvernig hann verður til í samspili, stétta, valds, hæfishyggju, dgagnkynhneigðar vísitölufjölskyldu og hugmyndum um heilbrigði:
Stundum var ég viðkvæm fyrir því að vera nýtt element í hópnum. Fannst ég gera vinahópinn að einhverju Grimmsævintýri, sú bágborna og hennar farangur. Bætti það upp með því að sýna þeim ótakmarkaðan áhuga, sem var einlægur, ég hafði tæran áhuga á „hinu venjulega“ efri miðstéttar líferni. (83-84)
Hér vil ég fá að bæta í vísanasúpu fyrri gagnrýnenda og tengja þessa kaldhæðnu lýsingu á valdi og fagurfræði milli og efri stétta í Eldri konum, við persónusköpun Nellu Larsen í Quicksand frá árinu 1928. Þar teflir Larsen fram aðalpersónu sem tilheyrir hvergi, hún er afkomandi danskrar móður og föður frá fyrrum dönsku Jómfrúaeyjum, og rótleysi hennar verður leið höfundar til að kortleggja landamæri valdastétta í dönsku og bandarísku samfélagi í upphafi tuttugustu aldar. Þó að um hundrað ár skilji þessar bækur að eiga þær það sameiginlegt að höfundarnir búa yfir listilegri færni í að beita húmor, og þá sérstaklega kaldhæðni, sem þær stilla upp, af mikilli nákvæmni, á móti þeim djúpa sársauka sem aðalpersónurnar ganga í gegnum. Rótleysi aðalpersónanna er greiningartæki til að skilja samfélagið. Þá er listaheimurinn vettvangur beggja höfunda, bæði ómöguleikinn að höfða til ríkjandi valdastétta án þess að þurfa að tala eftir þeirra gildum en einnig hvernig fólk sem tilheyrir ekki hinni hefðbundnu millistétt upplifir sig sem viðfang listamanna. Í Eldri konum er aðalpersónan listamaður og vinnur með þætti úr eigin hversdagslífi sem efnivið. Þannig skapast auka lag við greiningu á lífi aðalpersónunnar, og lesandi fær að fylgjast með hvernig umhverfið, listaheimurinn, og önnur, upplifa framsetningu hennar á eigin lífi:
Var innblásin í krefjandi ljósmyndakúrsi. Fékk Hildi til að taka þátt í lokaverkefninu. Ég myndaði hana í hversdagslífinu hennar eins og það var þá. Það reyndist mér erfiðara en ég bjóst við, gekk of nærri mér að sjá ýmsa hluti frá æskuheimilinu mínu í þessu samhengi svo ég fékk hana til að koma í stúdíó […] Mér leist ekki á það í fyrstu en svo varð þetta með því sterkara sem ég hef gert í myndlistinni. Ég gaf verkinu titilinn: Ég hef aldrei mátt kalla hana mömmu. Kennararnir voru rasandi af hrifningu. (55)
Fagurfræði og listræn sköpun er einn af þeim þáttum sem sýnir hvernig aðalpersónan upplifir sig utanveltu og hvernig fólk í valdastöðu, þjálfarar, Hildur, listafólk, kennarar og kærustur ganga yfir mörk hennar. Í verki Larsen er aðalpersónan viðfang listmálara en með því að horfa á túlkun hans á henni, uppgötvar hún að hún mun aldrei tilheyra í dönsku samfélagi nema sem táknmynd þess sem er framandi, „anyone with half an eye could see that it wasn’t at all, like her.“ Líkt og Eva Rún, notaði Larsen listamenn í verkum sínum til þess að dýpka túlkunarmöguleika textans, móðurhlutverkið er framsetning, kvenleikinn sömuleiðis, en einhversstaðar mitt á milli þess hráa og túlkunarinnar er einhver sannleikur og möguleiki á samstöðu. Þessi mörgu sjónarhorn, samspil birtingarmynda og túlkunar á lífi aðalpersónunnar, skapa dýpt í frásögninni og stuðla að jafnvægi á milli húmors rannsakandans og sársauka, vannæringu og rótleysis aðalpersónunnar.
Konur sem sagnorð
Líkt og Soffía Auður Birgisdóttir bendir á í ritdómi um bókina fyrir útvarpsþáttinn Víðsjá að hið óuppgerða í lífi sögukonunnar hverfist að miklu leyti um „áberandi eyðu“ og það er fjarvera móður hennar. Vísun í þessa eyðu má finna á fyrstu síðu bókarinnar, en þar er brot úr ljóði Jóhannesar úr Kötlum, „ég man þá vögguvísu er söngstu mér í sál, hún býr í brjósti mínu sem heilagt huldumál.“ Þessi mynd af nánd barnsins við móður sína kallast á við hugmyndir sálgreinandans um það sem er handan tungumálsins, huldumálið sem rúmar bæði nánd og fegurð en einnig hið „annarlega“ eða „undarlega“, sem býr í brjósti okkar og verður að komast upp á yfirborðið. Huldumálið er ekki hægt að sigra með rökum heldur þarf að beita öðrum aðferðum til að nálgast það og mögulega skilja.
Fjarvera móðurinnar er þó ekki eini jarðvegur rótleysisins, heldur eru félagslegar aðstæður uppalandans, Hildar móðursystur, bagalegar og hefur sögukonan alist upp við mikla vanrækslu. Þar sem hún fær ekki að njóta barnæskunnar og að búa við vernd öruggs uppalanda, neyðist hún til að verða „eldri“ mun fyrr en hún hefði viljað. Frá unga aldri lærir hún að fylgja leikreglum uppalandans og spyrja engra spurninga um móður sína, þrátt fyrir að fjarvera hennar marki allt hennar tilfinningalíf. Sama á við um lesandann, við fáum litlar upplýsingar um aðra mögulega fjölskyldumeðlimi eða innsýn í líf Hildar og úr hvaða aðstæðum hún kemur, aðeins þrá sögukonunnar eftir nánd og öryggi. Á sama tíma verður lesandi vitni að neti ýmissa kvenna sem reyna að grípa inn í og vera til staðar. Þær eru í bakgrunni þegar sögukonan syrgir fjarveru móður sinnar, eins og í tilviki nágrannakonunnar sem spilaði barnalag um músina Pílu Pínu: „Lagið stakk mig inn í líffærin, sársaukinn var yfirgengilegur. Mér fannst ég alltaf vera týnda Píla. Og einhversstaðar væri Gína mamma grátandi.“ (50)
Víða má finna tengingar milli ljóðmælanda í fyrri verkum Evu Rúnar og játningum aðalpersónunnar, von um möguleika textans eða listformsins til að greina samfélagið og hafa áhrif til að heila, eyða og marka nýtt upphaf. Í upphafi ljóðabókarinnar Fræ sem frjóvga myrkrið birtist vísun í slíkt umbreytingarferli ekki í gegnum þekkingu sálgreiningar, eins og í Eldri Konum, heldur með ritúali tengdu grísku gyðjunni Baubó, sem „kom á sorglegustu augnablikunum í helgiathöfnum og harmleikjum og sýndi á sér píkuna til að létta stemminguna.“ Hún hegðar sér ósæmilega, ávarpar hið annarlega eða undarlega og minnir okkur á að „allt mun breytast, allt mun líða hjá,“ líka sársaukinn. Gyðjan líkt og sögumaður afhjúpar sig, hryllinginn, sársaukann, „hegðar sér ósæmilega“ og sýnir að allt tekur enda, allt grín, glens og hryllingur í senn, „best er að mæta því með óttaleysi“ þangað til allt hefst á ný. Við lok sögunnar hefur sögukonan mögulega nálgast þetta óttaleysi gyðjunnar, hún hefur að minnsta kosti opinberað sársauka sinn og hömluleysi og eygir einhvers konar nýtt upphaf.
Eitt af því áhrifamesta við bókina Eldri konur, er færni Evu Rúnar að para saman andstæður, sársauka og fegurð, grimmd og hlýju á beittan hátt. Sagan hverfist vissulega um leit aðalpersónurnar að tengingu við sjálfa sig, einhvers konar festu og þrá hennar eftir eldri konum, en í gegnum verkið og afhjúpun þess ósæmilega og erfiða, sem persónan hefur tjáð lesendum, verður myndin af eldri konum flóknari.
Við lok bókarinnar hefur endurfæðingin, eða draumurinn um hana, átt sér stað. Sögumaður situr í sól ásamt konu sinni, barni og uppalanda, og virðist nærð, eða tengd. Endirinn minnir á síðasta ljóðið í Heimsendir fylgir þér alla ævi þar sem ljóðmælandi skipuleggur framtíðarhitting „við hólinn í brekkunni þar sem svo auðvelt er að finna fjögralaufasmára.“ (42) Máttur grísku gyðjunnar Baubó gæti hafa birst í gegnum þá afhjúpun sem aðalpersónan og konurnar í lífi hennar hafa gengið í gegnum. Þetta er ekki yfirborðskennd mynd af jákvæðum endi heldur möguleg von um að eitthvað nýtt gæti fæðst.
Eldri konur ávarpar tilveru kvenna og hugmyndina um konur sem þjóðfélagshóp út frá hinsegin þekkingarfræði, ekki sem líffræðilega skilgreinda einingu sem mismunar heldur hópur sem deilir ákveðnum reynsluheimi. Eldri konur eru „innra gangverk allra samfélaga,“ þær eru mögulega líklegastar til að brúa bilið á milli pólitískra gjáa, stétta, uppruna. Í bókinni birtast konur sem gerendur og ofbeldismenn en einnig þær sem grípa þau sem eru jaðarsett, sem fylgja fólki inn í dauðann, og passa fyrir nágrannana. Þær eru það afl sem heldur samfélaginu gangandi og frásögn aðalpersónunnar krefst þess að við horfumst í augu við „þær“ af heiðarleika; það grimma, flókna og fallega í þeim.
Sólveig Ásta Sigurðardóttir