Bláir englar frumsýndu í gærkvöldi í samstarfi við Tjarnarbíó einleikinn Hulið eftir Sigríði Ástu Olgeirsdóttur með elegant tónlist eftir Önnu Þorvaldsdóttur. Sigríður Ásta leikur sjálf en leikstjóri hennar er Halldóra Rósa Björnsdóttir. Leikmyndina unnu þær saman, leikstjórinn og leikarinn, hún er mjög dökk fyrir utan ljósa steinhnullunga á gólfinu og búningur Sigríðar Ástu, afar smekkleg samfella, er líka svartur en meistaraleg lýsing Fjölnis Gíslasonar bregður lifandi birtu á sviðið. Hann lætur ljósið leika um andlit leikarans, naktar axlir hennar og handleggi svo að oft var unun á að horfa. Þegar saman fór færni Sigríðar Ástu til að umbreyta líkama sínum og ljósabeiting Fjölnis gátu orðið til verulega eftirminnilegar sviðsmyndir.
Sigríður Ásta hefur gefið upp í viðtölum að í verkinu segi hún sína eigin sögu. Söguna af því að konurnar í fjölskyldu hennar hafi gjarnan séð fleira en aðrir sjá og vitað lengra en nef þeirra náði en þetta hafi ekki átt við hana sjálfa – fyrr en hún opnaði vitund sína fyrir því hulda. Í frásögum hennar blandast saman minni úr gömlum huldufólkssögum og nýrri tilbrigði við þær, til dæmis hjálpar bláklædd kona ömmu barnungri að tína ber en gömul sér amma blómálfa í pottaplöntunum hjá sjónvarpinu. Sigríði finnst þessi hæfileiki öfundsverður og bera vott um virðingu fyrir náttúrunni sem hún vill fegin tileinka sér.
Sigríður Ásta er skemmtileg á sviði, sæt og kvik í hreyfingum og syngur vel. Öll umgjörðin var líka vel hugsuð og listræn. En textinn var of rýr til að bera uppi heilan einleik. Leikverkið Hulið er ennþá beinagrind sem þarf að fá hold utan á sig.