Það verður ekki tekið frá honum Þorleifi Erni Arnarssyni, honum tekst að koma manni á óvart. Það tókst honum líka í gærkvöldi, þó nokkrum sinnum. Sýningin var Álfahöllin hin umrædda á stóra sviði Þjóðleikhússins, eins konar revía um leikhúsið – sjálft fyrirbærið Þjóðleikhús Íslendinga, bæði hús og stofnun – og samfélag okkar á þessari stundu.
Sýningin byrjar strax í fremra anddyri hússins, um leið og maður kemur inn, því þar er á palli komið fyrir nokkrum tugum þeirra leikfanga sem þjóðin sendi Þorleifi að beiðni hans. Leikföngin fá svo að ljúka sýningunni líka og gera það á ótrúlega áhrifamikinn hátt. Milli þessara leikfangaatriða eru ótal atriði, stór og smá, samin af leikhópnum og ritstýrt af Þorleifi Erni og Jóni Atla Jónassyni. Þau hefja leikinn á ávarpi Guðlaugs Rósinkrans, fyrsta þjóðleikhússtjórans, og umfjöllun um húsameistara ríkisins sem teiknaði húsið, Guðjón Samúelsson. Allt er satt og rétt sem þau segja um stórhuginn að baki húsinu, glannalegan stórhug svo jaðraði við ofdramb. Hugsið ykkur bara: Reykvíkingar eru fimmtíu og sex þúsund (já, 56.000) árið 1950 þegar húsið er vígt, þetta geysistóra, glæsilega hús, einstakt í sinni röð, og það er ekki sýnd ein vígslusýning heldur þrjár. Þrjú leikverk, innbyrðis ólík, ævintýraleikurinn Nýjársnóttin eftir Indriða Einarsson, Fjalla-Eyvindur Jóhanns Sigurjónssonar, heimsfrægasta leikverk Íslendings lengi vel, og leikgerð Halldórs Laxness af sögu sinni Íslandsklukkunni. Það er milljónaþjóð sem svona hagar sér.
Í samræmi við lauslegan þráð Álfahallarinnar var Fjalla-Eyvindur eina vígsluverkið sem hópurinn tók fyrir, það fjallar um fátækt fólk. Úr því voru flutt stutt atriði sem hlýjuðu manni rækilega um hjartað. Svo voru tekin holt og bolt atriði úr ýmsum sýningum í sögu hússins sem dilluðu okkur sem höfum lengi fylgst með því sem þar gerist. Atriðið um Stundarfrið var afbragðsgott þótt langt væri, Þetta er allt að koma sömuleiðis, Sjálfstætt fólk … enn á ný fékk ég gæsahúð af hryllingi þegar kennarinn nálgaðist Ástu Sóllilju. Umfjöllunin um Ínúk, þá sýningu hússins sem víðast hefur farið, var vísvitandi ögrandi og raunar býsna óþægileg; hún minnti á ruddalegan talsmáta um kynþætti sem veður uppi á netinu.
Hér voru líka sjálfstæð ný atriði úr sarpi leikhópsins sem leikstjórinn sendi út til að rannsaka samfélagið þegar ákveðið var að hætta við að sýna verk um Hitler en semja íslenskt verk í staðinn. Atriði Ólafs Egils Egilssonar um kökuna sem skipt er svo ótrúlega ójafnt á milli þegnanna var máttugt í grófum einfaldleika sínum. Atriðinu um „stærstu stund Íslandssögunnar“ þegar íslenska liðið sigraði það enska í fótbolta í fyrrasumar var ákaflega vel fagnað. Trúðsleikur Þóris Sæmundssonar minnti á nettröllin ævinlega ævareiðu. En stóra stundin á þessu kvöldi í hugum margra gesta hefur eflaust verið frásögn Ólafíu Hrannar af ferðalagi sínu út í íslenskt samfélag. Hún var í takti við útvarpsþætti Mikaels Torfasonar um fátækt sem hafa vakið mikla athygli undanfarið. Ólafía Hrönn talaði lengi og henni talaðist vel og á meðan sátu meðleikarar hennar ekki auðum höndum – en ég ætla ekki að segja frá því hvað þeir voru að gera, það verðið þið að sjá. Lokaatriðið áttu svo Arnar Jónsson og Pétur Gautur svona til að minna okkur á hvers virði við erum hvert og eitt ef við stöndum ekki saman í ást og sátt. Þar var minn einka-hátindur í sýningunni þegar Vigdís Hrefna Pálsdóttir söng lag Hjálmars H. Ragnarssonar „Það má líða vetur og vor“.
Það var í stíl Þorleifs Arnar að gefa leikurum sínum ekki hlé þótt áhorfendur fengju hlé heldur voru þeir allir á sviðinu allan tímann og sungu, lofuðu raunar að syngja hvert einasta lag sem hefði verið sungið á þessu sviði frá upphafi en það voru nú mest lög úr leikritum Torbjörns Egner sem ég greindi í kakófóníunni. Búningar voru einfaldir og smekklegir í grunninn en iðulega farið af dirfsku út úr því móti og í hléinu fríkaði búningahönnuðurinn og gervasmiðurinn Sunneva Ása Weisshappel algerlega út, það var mikið sjónarspil og ég ráðlegg gestum að hreyfa sig ekki úr salnum í hlénu. Börkur Jónsson sá um leikmyndina sem var fróðlegt að fylgjast með sem og lýsingu Jóhanns Friðriks Ágústssonar. Flókna hljóðmyndina sáu Arnbjörg María Daníelsen og Elvar Geir Sævarsson um, það hefur verið vinna á við tvo meðal söngleiki, trúi ég.
Álfahöllin er mikið bland í poka og stundum reynir sýningin á þolrifin, til dæmis í ílöngu atriði þar sem sauðfé gengur og gengur og gengur jarmandi á móti snúningi hringsviðsins. En manni leiðist aldrei lengi hjá þessum leikstjóra.