Fátt veit ég skemmtilegra en að horfa á brakandi ferskt íslenskt leikrit sem talar skýrt og skemmtilega beint inn í samtímann. Þannig verk frumsýndi Leikfélag Reykjavíkur í gærkvöldi á Litla sviði Borgarleikhússins: Þéttingu hryggðar eftir Halldór Laxness Halldórsson eða Dóra DNA. Leikstjóri var Una Þorleifsdóttir. Eva Signý Berger gerði fráhrindandi og fremur ólíklega leikmynd en klæddi persónurnar í vel viðeigandi fatnað. Kjartan Þórisson hannar lýsinguna og Garðar Borgþórsson sér um hljóð en hvort tveggja skiptir afar miklu máli í þessu verki. Garðar sér líka um tónlistina sem kom nokkrum sinnum verulega skemmtilega á óvart.
Vissuð þið að fljótvirkasta leiðin til að kynnast annarri manneskju náið er að fá hana til að svara eftirfarandi þrem spurningum: Hvaða liði heldurðu með í enska boltanum, hvert er uppáhalds Eurovision-lagið þitt og hvaða stelling finnst þér best í kynlífinu? Alla vega svínvirkar þetta í leikritinu. Persónur þess hafa verið lokaðar inni í tíu tíma þegar við hittum þær vegna þess að brjálaður hryðjuverkamaður gengur sprengjandi um húsið sem þær eru staddar í. Andrúmsloftið er þvingað þangað til ein þeirra, Þórunn (Vala Kristín Eiríksdóttir), lætur samfanga sína svara áðurnefndum spurningum og eftir það geta þau talað saman um hvað sem er, tekist á og rifist, jafnvel farið á trúnó eins og gamlir kunningjar – þá fáum við stutt innlit í einkalíf persónanna. Umræðurnar hverfast m.a. um netið og áhrifavalda, keto, líkamsrækt, pitsur, farsíma, feðraveldið … en alltaf hneigjast þær aftur að skipulagsmálum. Borgarskipulagi. Á að þétta byggðina svo fleiri hafi vistvæna kosti í samgöngum en hætta þá á þéttingu hryggðar í nándinni? Eða á að dreifa byggðinni ennþá meira og samhæfa bara umferðarljósin svo sívaxandi umferðin gangi smurðar? Umræðurnar standa í á annan sólarhring eða uns yfir lýkur …
Persónurnar eru forvitnilegar og margfaldar í roðinu enda höfundurinn háðfugl. Una hefur líka valið vel í hlutverkin, leikararnir tóku persónur sínar föstum tökum og bjuggu til skýra og sannfærandi einstaklinga sem við þekkjum öll.
Einar (Jörundur Ragnarsson) er arkitekt sem býr í Vesturbænum, hjólar til og frá vinnu og vill gera borgina að betri stað fyrir börn og annað fólk. Hann virðist vera „góða fólkið“ holdi klætt en reynist umtalsvert flóknari en svo. Að sjálfsögðu fer hann óskaplega í taugarnar á Mána (Sveinn Ólafur Gunnarsson) sem er byggingaverktaki og býr í Grafarvogi, ekur á Ford F350 Superduty pallbíl og hatar tilhugsunina um borgarlínu. Hann kemur fyrir sem hinn trausti máttarstólpi þjóðfélagsins sem byggir hús fyrir fólkið og hikar ekki við að tefla sér í tvísýnu fyrir samfanga sinn. En hið innra er hann lítill karl, einn og einmana. Þórunn er mjúk og víðsýn og reynir að miðla málum, hún á peningamann og býr í Suður-Hlíðunum, falleg kona og kekk og virðist lifa algeru draumalífi en býr í rauninni yfir djúpum og sárum harmi sem tengist beint inn í verkið. Ungu stúlkunni Írenu (Rakel Ýr Stefánsdóttir), sem býr í Breiðholti, er uppsigað við karlmennina og hún hefur gott lag á að hleypa þeim upp ef umræðurnar ætla að slappast. Hún er ágætur íronískur samnefnari fyrir uppreisnarandann sem ríkt hefur meðal ungra kvenna undanfarin ár.
Það var góður rómur gerður að sýningunni í gær og ekki spillti fyrir að í salnum voru bæði Gísli Marteinn og Dagur B., þeir menn sem mest var skotið á í verkinu. Mér sýndist þeir skemmta sér best!
Silja Aðalsteinsdóttir
PS Titil pistilsins munuð þið skilja þegar þið hafið séð sýninguna.