Það hræðilegasta hefur gerst: hryðuverkamenn hafa kastað atómsprengju á borgina og allir hafa farist. Nema Markús (Sveinn Ólafur Gunnarsson) og Lísa (Lilja Nótt Þórarinsdóttir) af því að Markús var svo snarráður að bjarga Lísu meðvitundarlausri á ögurstundu ofan í sprengjubyrgið sitt. Þannig hefst leikrit Dennis Kelly sem leikhópurinn SuðSuðVestur frumsýndi í Tjarnarbíói í gærkvöld undir stjórn Stefáns Halls Stefánssonar, og í byrginu hljóta þau að dúsa því stórhættulegt er að opna og gá hvernig umhorfs er ofanjarðar. En eins og ýmsir höfundar hafa sýnt, þeirra á meðal Jóhann Sigurjónsson í Fjalla-Eyvindi og Svava Jakobsdóttir í Lokaæfingu, getur líka verið lífshættulegt að vera kyrr í byrginu.
Þrjú verk eftir Dennis Kelly hafa áður vakið athygli leikhúsáhugamanna hér á landi á þessu hæfileikaríka breska leikskáldi. Munaðarlaus kom fyrst, leikið í Norræna húsinu, og sló mann alveg kaldan, hin tvö voru líka mögnuð, Elsku barn í Borgarleikhúsinu og DNA í Norðurpólnum. Eftir lokin jafnast ekki alveg á við þessi þrjú, kannski vegna þess að efnið er kunnuglegt, en það er líka ansi vel samið. Í einangrun koma verstu eiginleikar mannssálarinnar í ljós, kúgunarárátta, valdabarátta, ofbeldishneigð, og á því verður smám saman enginn skortur í Eftir lokin. Að þessu sögðu má eiginlega ekki segja meira, annars myndi ég spilla fyrir væntanlegum áhorfendum.
Stefán Hallur setur verkið upp á örlitlu gólfi með áhorfendur á alla vegu eins og veggi sprengjubyrgisins. Það virkaði afar vel. Verkinu var skipt í þætti með myrkvun til að gefa til kynna að tíminn liði, dagar, vikur … engir leikmunir nema kista með vistum sem kom að góðum notum. Sveinn Ólafur og Lilja Nótt fóru skínandi vel með hlutverk sín, hann svolítið klaufalegur, hallærisleg týpa sem hefur mátt þola stríðni á vinnustað, ekki síst hennar sem hann hefur lengi verið hrifinn af; hún sæt og fjörug stelpa, vinsæl eins og von er til. Prýðilega kastað eins og sagt er. Eini gallinn var sá að stundum var erfitt að heyra til Lilju þegar hún sneri sér undan, hún má bæði tala svolítið hærra og hægar. Þá hefur leikari náð góðum tökum á list sinni þegar hann getur bæði talað eðlilega og þannig að heyrist og skiljist þó að hann þurfi að snúa sér frá áhorfendum.
Sannarlega væri hægt að skrifa langa ritgerð um efni og efnistök þessa verks, en eins og áður gat er það ekki hægt. Þið verðið bara að sjá það sjálf!